Nemendur læra um hringrásarhagkerfið og velta fyrir sér hringrás þeirra hluta sem þeir tengja við. Fyrir 8-16 ára.

Nemendur læra um hringrásarhagkerfið og velta fyrir sér hringrás þeirra hluta sem þeir tengja við.

Aldur: 8 – 16 ára

Tími: 2 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur verði ábyrgir neytendur
  • Að nemendur átti sig á að allt sem við eigum kemur frá jörðinni
  • Að nemendur átti sig á gagnsemi hringrásarhagkerfisins

Efni og áhöld: Mynd af hringrásarhagkerfinu og skýringar (sjá mynd með grein og texta hér að neðan), fjölnota poki þar sem allskonar hlutum hefur verið komið fyrir t.d áldós, heyrnatól, blýantur, flík, bók, sími o.fl. hér kemur nánast allt til greina.

Framkvæmd:

Kennari fer yfir hringrásarhagkerfið með nemendum og skoðar hvern flokk fyrir sig. Sjá ítarlegri skilgreiningar í textanum sem fylgir með. Kennarinn varpar fram spurningum eins og:

Getið þið nefnt dæmi úr eigin lífi þar sem þið deilið hlutum með öðrum?

Getið þið nefnt dæmi úr eigin lífi þar sem þið gerið við hluti?

Getið þið nefnt dæmi úr eigin lífi þar sem þið endurnotið hluti?

Getið þið nefnt dæmi úr eigin lífi þar sem þið komið hlutum í endurframleiðslu eða gerið það jafnvel sjálf?

Getið þið nefnt dæmi úr eigin lífi þar sem þið endurvinnið hluti?

Nemendur draga upp úr fjölnota pokanum hlut sem þeir eiga að velta fyrir sér hvað væri best að gera við með tilliti til hringrásarhagkerfisins.
Nemendur taka mynd af hlutnum og segja stuttlega frá hvernig væri best að halda hlutnum í hringrásarhagkerfinu. Nemendur geta í flestum tilfellum sett hlutinn í fleiri en einn flokk og eiga helst að gera það.

Útfærslur

Rannsókn

Hægt að víkka út og láta nemendur vinna í hópum og fara í rannsóknarvinnu um hlutinn sem dreginn er upp úr pokanum. Greina uppruna og hráefni sem notuð voru við gerð hlutarins.

Umræður

Einnig er gaman að nota þetta sem umræðutíma, þá skiptast nemendur á segja frá sínum hlut og sínum hugmyndum um hvar hann myndi staðsetja hann í hringrásarhagkerfinu.

 

Þetta skapar umræður og samnemendur geta komið með sínar hugmyndir

Hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið - mynd frá Umhverfisstofnun.

Deila
Með því að draga úr eignarhaldi vara og leggja frekar áherslu á að auka aðgengi að þeim er hægt að ná fram skilvirkari neyslu. Sameign vara og auðlinda (t.d. deilibílar, bókasöfn og samakstur) gerir notkun auðlinda skilvirkari og dregur úr umhverfisáhrifum.

Gera við
Viðgerðir auka líftíma vara. Vörur eru almennt endingarminni og erfiðara að gera við þær en áður. Með að efla og ýta undir viðgerðir, meðal annars með að gera varahluti og upplýsingar aðgengilegri, er hægt að glæða vörur nýju lífi.

Endurnota
Með að nota vörur áfram í óbreyttu formi, til dæmis með að skipta um eigendur, er hægt að koma í veg fyrir framleiðslu á nýjum vörum. Vörur svo sem glerflöskur er hægt að nota mörgum sinnum áður en þeim er fleygt.

Endurframleiða
Hægt er að endurframleiða vörur, svo sem raftæki, samkvæmt forskrift framleiðandans með að sameina endurnotkun, viðgerðir og nýja íhluti.

Endurvinna
Efni eins og málma, pappír, gler og plast er hægt að endurvinna og nýta sem endurheimt hráefni í stað nýrra. Þegar efni er endurunnið er það orðið að úrgangi, mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að auðlindin verði að úrgangi til að byrja með.