Hvað er örplast?
Örplast er plastögn sem er minni en 5 mm. Í sumum tilvikum er framleitt sérstakt örplast sem sett er í dekk, snyrtivörur og áburð. Í öðrum tilvikum verður til örplast þegar stærri hlutir úr plasti brotna niður í smáar agnir, jafnvel örsmáar nanóagnir.
Örplast í íslenskum fuglum
Rannsóknir hafa sýnt að örplast er víða og er hafið í kringum Ísland ekki undanskilið. Skoðun á sjófuglum við Ísland leiddi í ljós örplast í sjö af hverjum tíu fýlum.
Hvaðan kemur örplast?
Örplast í hafinu má rekja til dekkja, gervigrasvalla, fatnaðar úr gerviefnum, málningar og snyrtivara.
Efnin renna með skólp- og rigningarvatni út í sjó.
Hægt er að minnka örplast með því að keyra minna
Með því að draga úr notkun einkabílsins er hægt að draga úr örplastsmengun frá dekkjum. Í sumum löndum hefur örplast í snyrtivörum verið bannað. Sjá má á innihaldslýsingu snyrtivara hvort að þær innihaldi örplast en það kallast oft polyethylene (einnig polypropylene, polymethyl methacrylate, polyactic acid, nylon og fleira).
Föt eru oft úr plasti
Fatnaður úr gerviefnum inniheldur plast. Efni sem eru teygjanleg eins og útivistarföt, sundföt og íþróttaföt eru oftast að hluta til úr gerviefnum. Helstu gerviefnin eru polyester, nylon, acrylic, spandex, lycra, elastane og polyamide.
Þarf þá að hlaupa í ullarpeysu??
Efni sem innihalda ekki plast eru náttúruleg efni eins og bómull, ull, silki og hör. Ef til vill er erfitt að hætta alveg að nota gerviefni og kannski ekki beint ákjósanlegt að fara út að hlaupa í ullarpeysu en það er mikilvægt er að draga úr fatakaupum, kaupa frekar notað og fara vel með fötin og nota þau mikið.
Hvað getur þú gert til að draga úr örplasti?
Veltu þessu fyrir þér. Hvað er það helst í þínu lífi sem býr til örplastsmengun? Hvað gætir þú gert til að minnka hana?
Dettur þér í hug fyrirtæki eða valdafólk sem gæti hjálpað þér?
Settu þér markmið og framkvæmdu aðgerðir í átt að því markmiði.