Listin að segja frá
Við mannfólkið höfum sagt hvert öðru sögur í þúsundir ára. Allar sögur hafa söguþráð og atburðarás og þær geta verið á ólíku formi; rituðu máli, myndir, dans, myndbönd, ljóð og fleira. Sögur geta verið góð leið til að koma upplýsingum á framfæri því fólk sem fær upplýsingar í gegnum sögu á auðvelt með að tengja við og muna efnið. Góð saga þarf þó að hafa ákveðna uppbyggingu til að halda athygli hlustandans. Í þessu verkefni lærið þið um rostunga og segið svo frá því sem þið lærðuð.Rostungar á Íslandi
Rostungar sjást nú sjaldan við Ísland en skemmtileg undantekning á því er rostungurinn Valli (eða Valla) sem heimsótti Höfn í Hornafirði í september 2021. Nýlegar rannsóknir staðfesta að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á landnámsöld, á tímabilinu 800–1200. Á Náttúruminjasafni Íslands er fjallað um þessar niðurstöður, um líffræði rostunga almennt og hvernig landnámsfólkið nýtti rostunga og rostungatennur. Einnig hefur hvarf norrænna manna frá Grænlandi á 15. öld verið tengt ofveiði á rostungum.
Verkefni
Samband landnámsfólks við íslenska rostunga. Finnið heimildir, skoðið myndir og myndbönd og segið frá eins og þið viljið. Hér eru nokkrar hugmyndir og vangaveltur sem þið getið skoðað.- Hver er rostungurinn Valli?
- Af hverju dó íslenski rostungastofninn út?
- Hvað eiga rostungar og fílar sameiginlegt?
- Hvernig tengdust rostungar norrænu byggðinni á Grænlandi sem hvarf?
- Finnið heimildir um tengsl landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns við rostunga.
- Finnið upplýsingar um stöðu rostunga í heiminum í dag. Hvernig eru búsvæði rostunga í dag og væri hægt að fara í vistheimtaraðgerðir til að stækka stofninn? Gætu rostungar lifað á Íslandi í dag?
- Hvernig er staðan á þeim sjávarspendýrum sem nú lifa við Ísland (selir og hvalir)? Gætu þessar tegundir dáið út eins og íslenski rostungastofninn?
- Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að fleiri tegundir sjávarspendýra deyi út?