Falsfréttir – 10 ráð frá Landvernd

falsfrettir, landvernd.is
Hvað eru falsfréttir og hvernig er hægt að varast þær? Mikilvægt er að tileinka sér eftirfarandi ráð í baráttunni við falsfréttir.

Falsfréttir líta oft út eins og alvöru fréttir

Við lifum í heimi þar sem upplýsingar ferðast hraðar en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar eru alls staðar og það getur verið erfitt að vita hvort þær séu allar sannar. Það skiptir því miklu máli að geta greint sannleika frá fölsuðum fréttum. Sannar fréttir eru áreiðanlegar, réttar og skýrar. 

Falsfréttir eru rangar eða misvísandi fréttir.

Hversu vel þekkir þú falsfréttir frá sönnum fréttum? Smelltu á spurningamerkið til þess að nálgast spurningaleik Fjölmiðlanefndar.

Falsfréttir og umhverfismálin

Hugtakið falsfrétt er stundum misnotað af aðilum sem vilja afvegaleiða umræðuna. Það gera þeir með því að dreifa því áleiðis að sannar fréttir séu falsfréttir. Gott er að hafa þetta í huga þegar okkur er sagt að um falsfrétt sé að ræða. Þá er alltaf best að kanna málið sjálf/ur eða skoða hvort að traustir aðilar hafi staðfest slíkan vitnisburð. Stundum er því haldið fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum sé uppspuni frá rótum og að maðurinn geti ekki haft marktæk áhrif á loftslagsbreytingar. Það er rangt, enda hefur verið margsýnt fram á loftslagsbreytingar af völdum manna.

10 ráð í baráttunni við falsfréttir

  1. Vertu gagnrýnin/n á sláandi fyrirsagnir. Falsfréttir hefjast oft á sláandi staðreyndum sem innihalda hástafi eða upphrópunarmerki. Ef eitthvað sýnist of ótrúlegt til þess að geta verið satt, þá getur vel verið að það sé það.
  2. Vekur fréttin sterkar neikvæðar tilfinningar hjá þér? Slíkar fréttir eru meira lesnar og dreifast hraðar á netinu og eru líklegri til þess að vera falsaðar.
  3. Skoðaðu dagsetninguna. Oft fara gamlar fréttir á flakk og geta þær verið fyrirferðamiklar á samfélagsmiðlum. Góð regla er að skoða alltaf dagsetninguna á fréttinni sjálfri.
  4. Spáðu í fréttamiðlinum. Er fréttamiðillinn áreiðanlegur? Hvernig líta aðrar fréttir út á sama miðli? Hver skrifaði fréttina? Hver er eigandi fréttamiðilsins og hvaða hagsmuna hefur sá aðili að gæta?
  5. Rýndu í vefslóðina. Er hún í samræmi við fréttamiðilinn? Stundum fara falsfréttir á flakk sem líta út fyrir að vera frá traustum miðli sem við þekkjum, en við nánari athugun reynist eitthvað bogið við vefslóðina. Hugsanlega er þá búið að breyta heitinu örlítið.
  6. Athugaðu hvort fjallað hafi verið um málefnið á öðrum fréttamiðlum. Flestar mikilvægar fréttir birtast á fleiri en einum fréttamiðli. Ef engin annar fréttamiðill hefur fjallað um málið, þá er góð ástæða til þess að efast sannleiksgildi fréttarinnar. Ef að fréttin birtist á mörgum fréttamiðlum, athugaðu hvaðan heimildin fyrir fréttinni kemur. Eru allir fréttamiðlarnir að styðjast við sömu heimildina
  7. Athugaðu hvort að fréttin hefur verið sannreynd. Hér má finna 10 vefsíður sem sannreyna fréttir og taka nýjustu falsfréttirnar fyrir.
  8. Rýndu fréttamyndina vel og vandlegaSkoðaðu hvar myndin er tekin og hvort staðsetningin er í samræmi við innihald fréttarinnar. Þú getur t.d. leitað eftir götuheitum, auglýsingaskiltum eða öðrum ummerkjum sem gætu varpað ljósi á staðsetninguna. Þú getur líka skoðað hvort það líti út fyrir að eitthvað hafi verið klippt inná myndina eftirá.
  9. Skoðaðu hvenær fréttamyndin birtist fyrst á netinu, hvort að hún hafi verið notuð áður og þá í hvaða tilgangi. TinEye leitarvélin er mjög sniðug til þess að komast að þessu.
  10. Skoðaðu hvort að ólíkar gerðir af fréttamyndinni hafi birst á netinu. TinEye virkar vel í þessum tilgangi líka. Hér má sjá skýringarmyndband um leitarvélina. 

Gætum þess að dreifa ekki falsfréttum!

Það er góð regla að vera búin/n að sannreyna frétt áður en við deilum henni áfram. Þannig komum við í veg fyrir að falsfréttir fari á flakk og nái að valda ruglingi eða ótta í samfélaginu.

Grænþvottur og falsfréttir

Í kringum okkur eru allskyns upplýsingar um hitt og þetta sem okkur er talin trú um að sé umhverfisvænt. Nauðsynlegt að beita gagnrýnni hugsun á þessar upplýsingar og velta sannleiksgildinu fyrir okkur.

Grænþvottur birtist okkur oft í gegnum auglýsingar. Skilin á milli frétta og auglýsinga geta stundum verið mjög óljós. Lestu þig nánar til um grænþvott í greininni hér fyrir neðan.

graenthvottur, grænþvottur, landvernd.is
FRÉTTIR

Hvað er grænþvottur? – 4 ráð við grænþvotti frá Landvernd

Grænþvottur á sér stað þegar fyrirtæki, stjórnvöld eða stjórnmálaflokkar villa fyrir fólki með því að sýnast vera umhverfisvænni en þau raunverulega eru.
Nánar hér →

Kynntu þér Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd