Menntun til sjálfbærni – Ungt umhverfisfréttafólk

myndavél og hljóðnemi í náttúruinni

Menntun er öflugasta vopnið sem við getum notað til að breyta heiminum.

Hvað er sjálfbærni?

Sjálfbærni snýst um að vernda náttúruna, nýta auðlindir hennar á ábyrgan hátt og tryggja mannréttindi. Sjálfbærni felur í sér að gera hlutina án þess að skaða náttúruna eða annað fólk. Sjálfbærni fléttar saman umhverfismál, samfélagsmál og efnahagsmál. Við þurfum að taka allar ákvarðanir með náttúruna og réttlæti í huga.

Hvað felst í menntun til sjálfbærni

Menntun til sjálfbærni eykur hæfni nemenda til að meta umhverfi sitt og hafa áhrif. Nemendur velta fyrir sér áskorunum sem blasa við mannkyninu og grípa til aðgerða.

Markmiðið er að efla getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærni í samfélaginu.

Markmiðið er að skapa réttlátan heim og framtíð þar sem þar sem fólk hefur jöfn réttindi og tækifæri. Skapa framtíð þar sem ekki er gengið svo á auðlindir jarðar að þær nái ekki að endurnýja sig.

Sjálfbærni og Ungt umhverfisfréttafólk

Ungt umhverfisfréttafólk snýst um að nemendur kynni sér umhverfismál, rannsaki það og miðli upplýsingum til almennings. Nemendur fá tækifæri til þess að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið og stuðla að sjálfbærri þróun. Með þekkingaröflun verða nemendur meðvitaðri um stöðu sjálfbærrar þróunar í heimingum í dag. 

Verkefninu er ætlað að auka getu til aðgerða þar sem nemendur öðlast trú á eigin getu og sjá hvað þeir geta haft mikil áhrif. Verkefnið hvetur og valdeflir nemendur til þess að láta til sín taka.

Afhverju er menntun til sjálfbærni mikilvæg?

Menntun er mikilvægur þáttur til að knýja fram breytingar hjá okkur sjálfum og í samfélaginu í heild. Menntun til sjálfbærni gerir nemendum kleift að taka virkan þátt í mótun samfélagsins. Menntun til sjálfbærni hjálpar nemendum að takast á við stóru málin á gagnrýninn og skapandi hátt.

Til þess að skapa sanngjarnari og friðsælli heim á grunni sjálfbærrar þróunar þurfum við öll þekkingu, færni og gildi sem stuðla að þessu auk þess að vera meðvituð um þörfina fyrir slíkar breytingar. Hér gegnir menntun lykilhlutverki.

Er skylda fyrir skóla að sinna menntun til sjálfbærni?

Ísland hefur innleitt menntun til sjálfbærni í aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2011. Einn grunnþáttur menntastefnunnar er sjálfbærni. Grunnþættirnir eiga ekki að vera bundnir við einstakar námsgreinar heldur á að miðla þeim þvert á allar greinar. Gildin að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag og eiga að hafa áhrif á val á viðfangsefni, verkefni og kennsluaðferðir.

Í aðalnámskrá kemur fram að markmið með sjálfbærnimenntun í skólunum sé „að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn“.

Hægt er að bjóða upp á þátttöku í Ungu umhverfisfréttafólki í langflestum námsgreinum. Nánari upplýsingar um útfærslu má fá í gegnum netfangið umhverfisfrettafolk@landvernd.is.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd