Landvernd rekur tvö verkefni sem stuðla að valdeflingu nemenda. Skólar á grænni grein og Ungt umhverfisfréttafólk færa valdið til unga fólksins.

Um víða veröld kvíðir ungt fólk framtíðinni, óttast loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Fólk með mikinn loftslagskvíða óttast til dæmis að jörðin og heimurinn séu við það að líða undir lok vegna loftslagsbreytinga. Á Íslandi upplifir ríflega þriðjungur 30 ára og yngri loftslagskvíða.

Landvernd rekur nú tvö verkefni sem stuðla að valdeflingu nemenda á þessu sviði: Skóla á grænni grein og Ungt umhverfisfréttafólk.

Áreiti er mikið í samfélaginu í dag og á okkur dynja upplýsingar um hamfarahlýnun, hnignun lífbreytileika, öfgar í veðurfari og covid-19. Börnum og ungmennum getur reynst flókið að henda reiður á öllum þessum upplýsingum. Hvað þýðir þetta allt og verða afleiðingarnar raunverulega eins slæmar og talað er um? Við þessar aðstæður er auðvelt að finnast maður lítils megnugur.

Minnkum kvíðann með aðgerðum

Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að milda áhrif loftslagskvíða með því að tala um vandann, vera upplýst, finna leiðir til að takast á við hann og hafa áhrif á aðra. Allt eru þetta lykilþættir í menntastefnu sem kallast menntun til sjálfbærni. Við getum nefnilega öll haft áhrif. Við höfum vald til að breyta okkur sjálfum og hafa áhrif á aðra. Við getum fundið lausnir og gripið til aðgerða.

Valdefling nemenda er eitt megininntak menntunar til sjálfbærni sem er sú stefna sem Skólar á grænni grein og Ungt umhverfisfréttafólk byggja á.

Menntum unga fólkið til sjálfbærni

Valdefling og nemendalýðræði eru lykilþættir menntunar til sjálfbærni. Nemendur læra um þær ógnir sem steðja að en þeir fá líka í hendur tæki og tól til að sporna við vandanum. Lögð er áhersla á þverfagleg verkefni, hnattræna vitund og tengsl við nærsamfélag. Nemendur eru búnir undir framtíðina og vinna verkefni sem m.a. stuðla að því að finna árangursríkar leiðir til að allir jarðarbúar geti lifað góðu lífi án þess að ganga á auðlindir jarðar.

Skólar á grænni grein – virkni, þátttaka og lýðræði

Í Skólum á grænni grein mynda nemendur mikilvægan hluta umhverfisnefndar skólans síns, þeir sjá um að meta stöðu umhverfismála og setja markmið til að bæta það sem þeim þykir brýnast. Þeir fylgja markmiðunum eftir með hjálp samnemenda, starfsmanna skólans og gjarnan með þátttöku nærsamfélagsins. Þannig eru nemendur virkjaðir til áhrifa innan síns skóla og nærsamfélags og er lýðræðislegum aðferðum beitt til að sem flestir fái að koma að borðinu. Grænfáninn er táknræn viðurkenning þess að skóli hafi náð settum markmiðum.

Raunveruleg verkefni

Nemendur takast á við raunverulegar áskoranir í umhverfi og samfélagi skólans, þeir þurfa að setja sig í spor annarra, miðla málum og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þannig læra þeir að beita áhrifum sínum til að stuðla að breytingum.

Vegöxl sem nemendur Lýsuhólsskóla eru að græða upp með vistheimtaraðgerðum.
Nemendur Lýsuhólsskóla setja út tilraunareiti til að kanna hvaða leiðir eru árangursríkar í endurheimt vistkerfis.

Lýsuhólsskóli og skítatilraunin mikla

Lýsuhólsskóli var einn af fyrstu skólunum sem skráðu sig í verkefnið Skólar á grænni grein. Skólinn hefur verið á grænni grein frá 6. júní 2021.

Vorið 2020 sýndi skólinn frumkvæði að því að kynna nemendum í 5. – 9. bekk vistheimt og finna bestu leiðirnar til að græða upp vegkant í nágrenni skólans. Fulltrúar skólans höfðu samband við Landvernd og héraðsfulltrúa Landgræðslunnar á Vesturlandi. Í framhaldinu var ákveðið var að gera smækkaða útgáfu af tilraun verkefnisins Vistheimt með skólum og nota til þess mismunandi búfjáráburð. Nemendur mældu út fimm tilraunareiti, þar af var einn viðmið en í hina fjóra var sett kúamykja, sauðatað, hænsnaskítur og hrossatað.

Nemendur hafa unnið fjölbreytt verkefni út frá tilrauninni, t.d. útbúið rafbók með upplýsingum um verkefnið, teiknað hvernig þau sjá reitina fyrir sér eftir 10 ár, tínt blóm og jurtir úr þeim, þurrkað og búið til plöntuhandbók, veitt skordýr í gildrur í hverjum reit og birt niðurstöður í töfluformi.

Skítatilraunin verður eitt verkefnanna í Náttúra til framtíðar sem er nýtt námsefni um vistheimt og náttúruvernd fyrir unglingastig og framhaldsskóla sem nú er í smíðum á vegum Vistheimt í skólum og verður gefið út í samstarfi við Menntamálastofnun síðar á árinu.

Hvað getur ungt fólk kennt okkur um umhverfismálin?

Í verkefninu Ungt umhverfisfréttafólk (e. Young Reporters for the Environment) fjalla nemendur um málefni sem tengjast sjálfbærni á gagnrýninn hátt, koma með hugmyndir að lausnum og miðla þeim á árangursríkan hátt eftir ólíkum leiðum. Lögð er áhersla á áreiðanleika upplýsinga og nemendum kennt að greina áreiðanlegar upplýsingar frá falsfréttum.

Manneskja að bíta í jarðarís. Sigurvegari YRE 2021 Íris Lilja Jóhannsdóttir.
Sæt tortíming - Sweet distruction. Ljósmynd Írisar Lilju Jóhannsdóttur vann keppni Ungs umhverfisfréttafólks 2021.

 

Sæt tortíming

Vorið 2021 hlaut Íris Lilja Jóhannsdóttir hlaut fyrstu verðlaun Ungs umhverfisfréttafólks í flokki framhalsskólanema fyrir myndina Sæt tortíming (e. Sweet Destruction)

„Við erum að eyðileggja jörðina í skiptum fyrir skammvinna ánægju. Við erum að sleikja jörðina upp, auðlindirnar eru sætar eins og ís. Ég vil nota einfalda líkingu til að sýna fólki hvað við erum að gera við jörðina. Við verðum að grípa til aðgerða eins og lagðar eru til í markmiðum sjálfbærrar þróunar 11, 12 og 13… Ef við viljum ekki að jörðin og lífið á henni deyi verðum við að hætta að neyta og framleiða svo mikið á kostnað jarðarinnar. Njótum okkar ljúfu og fallegu jarðar á ábyrgan hátt.“

Umsögn dómnefndar:
Ein mynd segir oft meira en þúsund orð. Þessi listræna nálgun á hækkandi hitastig jarðar og neysluhyggju okkar grípur strax augað og vekur mann til umhugsunar.

 

Meira um menntamál Landverndar