Óseðjandi – að virkja virkjananna vegna

Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma er stærsti valdur mengunar á Íslandi á eftir flugsamgöngum, á myndinni má sjá Elkem á Grundartanga, landvernd.is
Enginn raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi, skrifar Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Nýjasta keppikefli orkuiðnaðarins er að sannfæra landsmenn um að á Íslandi sé orkuskortur, í það minnsta að við getum ekki losað okkur við jarðefnaeldsneyti án þess að fara út í meiriháttar virkjanaframkvæmdir. Látið er líta svo út að það að byggja fleiri virkjanir sé í þágu umhverfisverndar – nánar tiltekið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar skoðanir heyrast frá stjórnmálafólki jafnt sem forsvarsfólki orkufyrirtækja og síðast en ekki síst frá einu öflugasta ríkisfyrirtækinu, Landsvirkjun.

Við framleiðum fjórum sinnum of mikið af rafmagni

Þegar brýn mál blasa við hér innanlands, eins og að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagn í samgöngum er almenningi sagt að ekki sé til næg orka – og að nauðsynlegt sé að vinna frekari spjöll á íslenskri náttúru svo við eigum örugglega nóg rafmagn í orkuskiptin. Merkilega lítið er rætt um þá staðreynd að tæplega 80% þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi fer til stóriðju. Íslendingar framleiða með öðrum orðum 4-5x meiri raforku en þeir þurfa, utan stóriðjunnar.

Landsvirkjun í slæmum félagsskap

Landsvirkjun er fyrirtæki í ríkiseigu. Stærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar eru meðal verstu umhverfissóða heims. Þetta eru Alcoa sem rekur álver á Reyðarfirði og Rio Tinto sem rekur álver í Straumsvík, en þessi fyrirtæki eru á alræmdum listum yfir 100 verstu fyrirtækin í umhverfismálum.

Landsvirkjun fær sínar tekjur m.ö.o. frá tveimur af verstu umhverfissóðum heims. Þau viðskipti hafa verið réttlætt með ótrúlegum útúrsnúningum um loftslagsávinning, fjölgun íbúa á landsbyggðinni og gríðarlegri arðsemi.

Landsvirkjun er svo ábyrg fyrir stærstu meðvituðu eyðileggingu á íslenskri náttúru, Kárahnjúkavirkjun. Allt var það gert í nafni arðsemi og ætlaðs samfélagslegs ávinnings.

Hvað varð um ávinninginn?

Flest sjá sem betur fer orðið í gegnum slaka röksemdafærslu um alheimsávinning í loftslagsmálum vegna stóriðju á Íslandi. Aðrar réttlætingar hafa verið álíka hæpnar: Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar átti að vera 14%, og fjölga íbúum á Austurlandi. Árleg arðsemi hefur í besta falli verið 3% þegar mjög vel hefur árað og íbúum á Austurlandi fjölgaði aðeins um 607 frá 2003 til 2012, sem er tímabilið áður en bygging virkjunarinnar hófst þar til fimm árum eftir gangsetningu hennar. Kísilverið á Bakka átti líka að leysa mörg vandamál á Norðausturlandi en hefur í raun verið lítt eða ekki starfandi frá gangsetningu. Íslenskt samfélag hefur tapað gríðarmiklum fjármunum á því.

Óseðjandi virkjanagleði

Hingað til hefur réttlæting á eyðileggingu náttúrunnar í nafni stórra virkjana því oftast reynst vera rökleysa þegar upp er staðið. Og af hverju er raforkan sem þegar er framleidd hér ekki til kaups fyrir rafvæðingu íslensks samfélags? Vegna þess að orkuiðnaðurinn virðast vera óseðjandi. Þegar búið er að eyðileggja eina náttúruperlu með virkjun, vegum og vinnubúðum vegna framkvæmdanna, og raflínum, grípur um sig óróleiki og orkuiðnaðurinn linnir ekki látum fyrr en hann fær næstu náttúruperlu til að leggja undir sig – og svo þá næstu. Réttlætingin er alltaf einhver, oft mjög óraunhæf eins og 14% arðsemi, en alltaf er hún yfirvarp og dulbúningur raunverulegs tilgangs: Að virkja virkjananna vegna.

Enginn raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi og við framleiðum nú þegar mun meiri raforku en samfélagið þarfnast. Látum ekki blekkjast af framkvæmdaglöðum lukkuriddurum. Stöndum vörð um íslenska náttúru um leið og við gerum Ísland jarðefnaeldsneytislaust.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd