Hvað er loftslagskvíði? – Allt sem þú þarft að vita og góð ráð.

loftslagskvidi, landvernd.is
Hvað er loftslagskvíði? Hvað getum við gert? Margir finna fyrir loftslagskvíða. Hvernig getum við brugðist við?

Hvað er loftslagskvíði og hvernig er hægt að bregðast við honum?

Loftslagskvíði er tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga.

Fólk með mikinn loftslagskvíða óttast til dæmis að jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga.

Hugtakið umhverfiskvíði er sambærilegt. Umhverfiskvíði er í raun víðtækari útgáfan af loftslagskvíða og nær yfir fleiri umhverfismál en þau sem tengjast loftslagsbreytingum. Rúmlega 20% landsmanna finnur fyrir umhverfiskvíða. Ungt fólk er í meirihluta þeirra sem finna fyrir umhverfiskvíða, en 35% ungs fólks finnur fyrir honum

Aðeins 6% Íslendinga hafa engar áhyggjur af loftslagsbreytingum en aðrir hafa litlar, þó nokkrar eða miklar áhyggjur. 

Lokaðu augunum og ímyndaðu þér að þú haldir á safaríkri sítrónu sem búið er að skera í tvennt. Taktu hana upp og smakkaðu! 

Hver eru viðbrögð líkamans? 
Finnur þú hvað sítrónan er súr?
Fékkstu vatn í munninn? 

Hugsanir geta valdið líkamlegum viðbrögðum. Það gerist sjálfkrafa, jafnvel þó að þú vitir að þú ætlir ekki að borða sítrónu í alvörunni.

Hugsanir okkar hafa áhrif á líðan og hegðun.

sítrónur, loftslagskvidi, landvernd.is

Loftslagskvíði er að mörgu leyti sambærilegur öðrum kvíða. Við eigum það til að finna fyrir kvíða þegar okkur finnst eitthvað ógna okkur. Það merkilega við kvíða er að hann kemur þegar okkur er ógnað en líka þegar við upplifum eða hugsum um ógn. Að upplifa kvíða er ekki hættulegt en getur verið óþægilegt. Kvíði er náttúrulegt viðbragð líkamans sem er til staðar akkúrat á þeirri  stundu sem við skynjum ógn. Það er mikilvægt að tala um það ef þessi tilfinning bankar oft upp á. 

Loftslagskvíði er mjög raunverulegur og þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem ógnar okkur er ekkert skrítið að við verðum kvíðin, vonlaus, döpur, pirruð eða jafnvel reið. Allskonar tilfinningar geta látið á sér kræla og þá er gott að muna að tilfinningar eru ekki hættulegar þó þær geti verið óþægilegar.

Mikilvægt er að muna að tilfinningin kvíði kemur í bylgjum, ræsist, nær hámarki og fjarar síðan út.

Þegar við upplifum kvíða þá eykst blóðflæði til stórra vöðva og minnkar til handa og fóta. Stundum sér fólk hendur og fætur fölna eða finnur fyrir máttleysi, kulda og doða. Hjartsláttur verður hraður og við öndum örar, sumir finna jafnvel fyrir svima og óraunveruleikatilfinningu. Við getum upplifað magaverki og sjóntruflanir á meðan kvíðinn stendur yfir. 

Hvað er hægt að gera við loftslagskvíða?

Meðvitund um eigin tilfinningar er mjög mikilvæg. Gott er að vera á varðbergi gagnvart þeim hugsunum sem kunna að koma upp í tengslum við loftslagshamfarir. Þegar við upplifum vonleysi, þá þurfum við að minna okkur á það sem við getum raunverulega gert.

Hóflegar áhyggjur af einhverju geta hjálpað okkur að bregðast við og gera eitthvað, en ef við höfum of miklar áhyggjur er hætta á því að okkur geti farið að líða mjög illa og draga okkur í hlé.

Greinum áhyggjur okkar og áttum okkur á því hvort við getum gert eitthvað í stöðunni eða ekki.

Svona geta tilfinningarnar verið

Alfred & Shadow er kennslumynd um tilfinningar eftir sálfræðinginn Anne Hilde Vassbø Hagen. 

Settu þér raunhæf markmið!

Enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Heimsfræga vísindakonan Jane Goodall hefur hvatt fólk til þess að leggja sitt af mörkum í þágu umhverfis og loftslagsmála. Ef öll myndu leggja eitthvað af mörkum væri staðan örugglega betri en ef fá eru að gera allt 100% rétt og flest að gera lítið.

Ef við ætlum okkur að taka hverja einustu ákvörðun fullkomlega rétt fyrir umhverfið er hætta á að við verðum örþreytt og gefumst upp. Við verðum að geta veitt okkur svigrúm upp að einhverju marki og lifað lífi okkar.

Það að reyna að finna sátt við það að sumt getum við haft áhrif á en ekki allt. Vandinn er ekki einstaklingsins að leysa heldur samfélagsins í heild. Stjórnvöld þurfa að axla ábyrgð.

Það er þó margt sem við getum gert í þágu umhverfisins. Það reynist mörgum gagnlegt að setja sér nokkur markmið til skemmri tíma og bæta síðan ofan á þau þegar vel hefur tekist.

Einbeitum okkur að því að breyta rétt í þágu umhverfisins á þann hátt sem við treystum okkur til.

Gleymdu því ekki að njóta lífsins

Það er vissulega mikilvægt að gera eitthvað í málunum en til þess að geta gert það þurfum við líka að hlúa að okkur sjálfum og njóta lífsins.

Við megum:

  • skemmta okkur
  • gleyma okkur
  • hlæja
  • sinna áhugamálum
  • hugsa um eitthvað annað en loftslagsmálin
loftslagskvidi.njota, landvernd.is

Hlusta

Í þættinum Að lifa með loftslagskvíða tekur Eydís Blöndal viðtal við sálfræðinginn Huldu Jónsdóttur Tölgyes, sem hefur sérhæft sig í loftslagskvíða. 

Horfa

Horfðu á fræðsluerindið „Andleg heilsa á tímum loftslagsbreytinga“ á vegum Ungra umhverfissinna og Hugrún – geðfræðslufélags. Viðburðurinn hefst á 09:35.  Á viðburðinum var leitast eftir því að svara spurningunum; 

Hvernig lýsir loftslagskvíði sér og hvernig á að bregðast við honum?

Hvað er hægt að gera? 

Hver eru tengsl loftslagsbreytinga og geðheilsu? 

 

Greinin byggir á námsefni sem unnið var af Vigdísi Fríðu, verkefnastjóra Ungs umhverfisfréttafólks hjá Landvernd og Huldu Tölgyes, sálfræðingi.

Tengt efni

Á tímum loftslagskvíða og falsfrétta valdeflum við ungt fólk og færum þeim verkfæri til að hafa áhrif.