Hversu margar jarðir kallar lífsstíll þinn á? Hve margar jarðir þyrftum við ef allir væru eins og þú? Kynntu þér málið og reiknaðu út þitt vistspor.

Rúmast lífstíll þinn fyrir á einni jörð?

Þegar við hér á Íslandi horfum á okkar daglega líf finnst okkur stundum eins og jörðin okkar gæti endalaust gefið af sér. Það virðist sem lífsgæðum okkar séu engin takmörk sett.

Vegna þessarar tálsýnar lífum við í allsnægtum eins og ekkert væri sjálfsagðara.

En við erum á villigötum og virðumst ekki skilja eðli jarðarinnar.

Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og mynda lokað kerfi sem við mannkynið erum hluti af. Við þurfum að laga okkur að þeim takmörkum og lögmálum sem náttúran setur. En við gerum það því miður ekki í dag.

 

Yfirdráttur – Þolmarkadagur jarðar

Með lifnaðarháttum okkar í dag lifum við á yfirdrætti. Það þýðir að mannkynið notar á hverju ári meira af auðlindum en jörðin gæti endurnýjað á sama ári.

Þar með erum við að ganga á auðlindir sem fólk sem líður skort í dag gæti nýtt sér og sem framtíðarkynslóðir hefðu geta nýtt sér. Slík hegðun gengur ekki upp til lengdar. Í kringum 1970 fór mannkynið að lifa á yfirdrætti. Síðan þá hefur Þolmarkadagur jarðar (Earth Overshoot day) færst stöðugt framar á árinu. Árið 2020 var mannkynið búið að nota allar auðlindir ársins þann 22. ágúst. Þá var meiri koltvísýringur í andrúmsloftinu en jörðin getur bundið, skógar minnka, dýrategundir deyja út eða dýrastofnar eru ofnýttir.

Vistspor

Vistspor (ecological footprint) mælir hversu hratt og mikið við nýtum náttúrulegar auðlindir jarðar og búum til úrgang borið saman við það hversu hratt og mikið náttúran getur endurnýjað sínar auðlindir og tekið við úrganginum.

Vistsporið er mælt í jarðhekturum og segir því til um það haf- og landsvæði sem þarf til að standa undir neyslu hvers einstaklings á ári (allur matur, föt, hlutir, eldsneyti og annað) auk alls landsvæðis sem þarf í úrgangslosun.

Til að lifnaðarhættir geti talist sjálfbærir má hver manneskja á jörðinni núna ekki nota meira en 1,6 jarðarhektara. En meðal vistspor í heiminum í dag er 2,7 jarðhektarar. Íslendingar tilheyra þeim hópi sem eru með hvað stærsta vistspor og notum við Íslendingar að meðaltali 12,7 jarðhektara. Ef allir jarðarbúar lifðu eins lífi og við hér þá þyrfti a.m.k. 6 jarðir til þess að standa undir auðlindaneyslu og úrgangsmyndun. Því meiri neysla, þeim mun stærra er vistsporið.

Hnattrænt ójafnrétti

Munur á vistspori endurspeglar ójöfnuð. Þannig erum við þjóðir heims sem erum með stórt vistspor ekki einungis að lifa á kostnað komandi kynslóða heldur erum við einnig að arðræna núverandi kynslóðir í öðrum löndum, við lifum að hluta á kostnað náttúrulegra auðlinda, íbúa og réttinda þeirra í öðrum löndum.

Sjálfbær þróun

Til þess að taka skref í átt að sjálfbærri þróun verðum við að minnka vistsporið okkar stórlega hér í vestrænum heimi. Einstaklingsframtakið og breytingar á eigin lifnaðarháttum skipta miklu máli, en ekki síst skiptir höfuðmáli að við beitum okkur fyrir stórum kerfisbreytingum sem m.a. setja skorður á það að stór framleiðslufyrirtæki geti blóðmjólkað fólk og náttúru hvort sem er í fjarlægum löndum eða í eigin landi í nafni hagkvæmni og hagvaxtar.

Hversu margar jarðir kallar þinn lífstíll á?

Reiknaðu út vistsporið þitt

Vistspor: www.footprintnetwork.org

Kolefnisspor: www.kolefnisreiknir.is