Vinnuskólar í Skólum á grænni grein

Vinnuskóli Hafnarfjarðar fær grænfánann afhentan landvernd.is
Vinnuskóli Hafnarfjarðar tekur við grænfánanum fyrir einstakt jafningjastarf og sjálfbærnimenntun.
Vinnuskólar á grænni grein endurtaka skrefin sjö og vinna að nýjum markmiðum á hverju sumri.

Vinnuskólar eru meðal þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu Skólar á grænni grein. Þar sem vinnuskólar starfa eingöngu yfir sumartímann er vinnuferli þeirra ólíkt því sem gerist hjá öðrum skólum, eitt grænfánatímabil hjá vinnuskóla er því 2-3 mánuðir.

Skrefin sjö í vinnuskólum

Vinnuskólar hafa lagað ferlið að því starfi sem fram fer hjá hverjum skóla en hér á eftir fer dæmi um það hvernig vinnuskólar geta stigið skrefin sjö:

  1. Umhverfisnefnd: Mikilvægt er að nemendur/ungmenni vinnuskólans séu þungamiðja nefndarinnar, t.d. gæti einn flokkur innan vinnuskólans séð um verkefnið og myndað umhverfisnefnd. Séu nokkur tímabil gæti þessi ábyrgð skipst á milli nokkurra flokka þannig að það sé alltaf ein „umhverfisnefnd“ í gangi á hverju tímabili. Formaður umhverfisnefndar er þá sá leiðbeinandi sem sér um flokkinn.
  2. Mat á stöðu umhverfismála: Hægt er að nota umhverfisgátlista Skóla á grænni grein til að meta stöðu umhverfismála, en það er þó engin krafa. Hér gæti umhverfisnefndin ákveðið í sameiningu hvaða þema/þemu hún vilji leggja áherslu á og metið hvað þurfi að bæta innan þemans.
  3. Áætlun um aðgerðir og markmið: Út frá matinu setur nefndin sér markmið. Þar sem eingöngu er um að ræða 2-3 mánaða tímabil er hægt að miða við að sett séu þrjú markmið yfir sumarið. Séu fleiri en eitt tímabil er t.d. hægt að hafa eitt markmið á hverju tímabili og skilgreina aðgerðir í átt að því markmiði. Hægt er að nýta markmiðssetningareyðublað Skóla á grænni grein í þessa vinnu.
  4. Eftirlit og endurmat: Mat á árangri er í höndum umhverfisnefndar, hún sér um fylgja markmiðum og aðgerðum eftir og meta hvernig til hefur tekist
  5. Námsefnisgerð:Í þessu skrefi er mikilvægt að allir nemendur vinnuskólans vinni einhver verkefni sem tengjast starfi Skóla á grænni grein. Þetta geta verið einhvers konar leikir, fræðsla eða önnur verkefni sem tengjast þeim þemum og markmiðum sem hafa verið valin.
  6. Að upplýsa og fá aðra með: Í þessu skrefi skiptir miklu máli að allir innan vinnuskólans sem og nærsamfélag vinnuskólans séu upplýstir og helst virkir þátttakendur í einhverju sem tengist þema og markmiðum skólans. Hægt er að hafa viðburð þar sem allur vinnuskólinn og nærsamfélag er virkjað, dreifa efni á ýmiskonar miðlum eða í bæjarblöðum o.s.frv. Dæmi um slík verkefni sem hafa verið gerð er t.d. plokkdagur og umhverfisdagur þar sem gestum og gangandi í sveitarfélaginu er boðið að taka þátt í umhverfistengdum viðburðum t.d. fataskiptamarkaður, grænmetismarkaður, flokkunarkennsla o.fl.
  7. Umhverfissáttmáli: Mikilvægt er að skólinn hafi umhverfissáttmála. Sáttmálinn má halda sér á milli ára en flestir vinnuskólar virkja sína nemendur í að finna nýjan sáttmála á hverju sumri. Sáttmálinn er þá grípandi slagorð sem allir nemendur vinnuskólans (eða umhverfisnefndin) ákveða í sameiningu og læra og tileinka sér 😊

Greinargerð, úttekt og afhending

Í lok sumars er umsókn um grænfána og greinargerð skilað inn þar sem starfsemi sumarsins er útlistuð, þ.e. hvernig skrefin sjö voru stigin. Í kjölfarið kemur starfsmaður Skóla á grænni grein í úttekt og metur hvort skólinn fái að flagga grænfánanum fyrir tímabilið. Oftast fer grænfánaafhending þó ekki fram fyrr en sumarið á eftir þar sem ansi fámennt er í vinnuskólum eftir lok tímabilsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að hver og einn vinnuskóli finni þá leið sem þeim hentar best í verkefninu, þetta eru bara tillögur og dæmi um hvernig hægt er að vinna verkefnið. Mikilvægast er að nemendur séu sem virkastir í allri vinnu við verkefnið.

Nánari upplýsingar

Hægt er að hafa samband á graenfaninn@landvernd.is ef skólar óska eftir nánari leiðbeiningum fyrir vinnuskóla í verkefninu. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd