Loftslagskvíði er algengur. Getum við lært um loftslagsmál en tæklað loftslagskvíða í leiðinni? Hér er verkefni frá Landvernd.

Hvað getur þú gert gegn loftslagsvánni?

Enginn getur allt, en allir geta eitthvað!
Þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem ógnar okkur er ekkert skrítið að við verðum kvíðin, vonlaus, döpur, pirruð eða jafnvel reið. Allskonar tilfinningar geta látið á sér kræla og þá er gott að muna að tilfinningar eru ekki hættulegar þó þær geti verið óþægilegar.

Hóflegar áhyggjur af einhverju geta verið gagnlegar til að bregðast við og gera eitthvað í málunum en ef við höfum mjög miklar áhyggjur getur okkur farið að líða illa og farið að einangra okkur, draga okkur í hlé eða gera alltof mikið og allt fullkomlega. 

Við þurfum að sætta okkur við að við getum ekki haft áhrif á allt

Ef við ætlum okkur að taka hverja einustu ákvörðun á þann hátt að hún sé fullkomlega rétt fyrir umhverfið er hætta á að við verðum örþreytt og gefumst upp. Við verðum að veita okkur svigrúm upp að einhverju marki.

Stjórnvöld og fullorðnir bera ábyrgðina

Við þurfum að sætta okkur við að við getum haft áhrif á sumt en ekki allt. Loftslagsváin er til dæmis ekki bara einstaklingsins að leysa heldur samfélaga í heild. Til dæmis þurfa stjórnvöld í hverju landi að bera ábyrgð.

Setjum okkur markmið til skamms tíma

Oft getur verið gott að setja sér markmið til skamms tíma. Það getur reynst minna yfirþyrmandi en að huga að verkefnum fyrir alla ævina. Við getum kannski ekki gert allt, en við skulum velja að gera eitthvað!

Hægt er að endurskoða markmiðin sín reglulega og vinna að nýjum markmiðum þegar árangur hefur náðst.

Verkefnið:

Hvaða loftslagsvæn markmið þú gætir sett þér fyrir næsta árið?

Það er ótal margt sem hægt er að gera í þágu loftslagsins. Hér að neðan er listi með fjölmörgum hugmyndum.
Lykilatriðið er að velja sér nokkur atriði og setja þau í forgang. Jörðin þarf nefnilega ekki á 10 manns að halda sem gera hlutina fullkomlega, heldur sjö milljörðum sem eru að gera sitt besta.

Veldu nokkur atriði af listanum sem þú ætlar að einbeita þér að næstu vikuna. 

Veldu nokkur atriði af listanum sem þú ætlar að einbeita þér að næsta mánuðinn.

 

Fróðleikur

Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til þess að leggja loftslagsmálunum lið er að vera meðvituð um loftslagsvána og stöðuna á loftslagsmálum í samfélagi okkar. Við getum einnig lagt lið með því að þekkja fjölbreytta hugmyndafræði umhverfismála.

Lestu þér til um eitthvað af eftirfarandi:
1. Mínímalismi

2. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

3. Stöðu hafsins

4. Umhverfisvænt uppeldi
5. Ruslfrír lífstíll


Endurhugsaðu venjur þínar:
þú getur t.d.
1. Tekið oftar strætó
2. Hjólað eða gengið frekar en að keyra eða fá far
3. Borðað umhverfisvænni fæðu
4. Fækkað flugferðum
5. Minnkað plastnotkun
6. Flokkað meira
7. Farið út og plokkað rusl
8. Minnkað neysluna – settu þér t.d. markmið um að láta símann og tölvuna endast lengur og keyptu þér minna af nýjum fötum

Gríptu til aðgerða!
Hér má lesa sér til um það sem gott er að hafa í huga í aktívisma.
1. Mættu á loftslagsverkföllin og láttu í þér heyra

2. Skrifaðu greinar um umhverfistengt málefni sem þér þykir mikilvægt
3. Fáðu skólann þinn til þess að gera meira í umhverfismálunum

4. Hvettu fjölskylduna þína til þess að gera meira í umhverfismálunum
5. Ræddu loftslagsmálin við fólk í kringum þig
6. Deildu upplýsingum um stöðu loftslagsmála á samfélagsmiðlum
7. Fylgstu með starfi Landverndar á samfélagsmiðlum, Facebook eða Instagram

8. Taktu virkan þátt í starfi umhverfissamtaka, t.d. Ungra umhverfissinna eða Landverndar