Aldur: 13-30 ára
Tími: Styttri útgáfan tekur um 1-2 kennslustundir. Lengri útgáfan tekur um 4-6 kennslustundir.
Markmið: Þetta verkefni er hlutverkaleikur þar sem þið setjið ykkur í spor ýmissa hagsmunaaðila á náttúrusvæði sem er í hættu. Þið stýrið leiknum sjálf og hafið þannig áhrif á framvindu og niðurstöðu leiksins. Unnið er með lýðræði, samvinnu og að læra að skilja sjónarmið annarra sem geta verið ólík ykkar sjónarmiði.
Efni og áhöld: Upplýsingar um þann stað sem í hlut á. Búningar fyrir mismunandi hlutverk.
Fræðsla
Það getur verið umdeilt þegar breyta á svæði eða skipulagi og skoðanir á því geta verið jafn margar og fólkið sjálft. Hvað er þá til ráða? Hvernig er best að komast að niðurstöðu í málinu sem flestir geta verið sammála um? Á t.d. að fara í ákveðna framkvæmd, á ekki að fara í framkvæmdina eða er hægt að breyta skipulaginu þannig að framkvæmdin fari betur með náttúruna? Lykilatriði í slíkum samningsviðræðum er að kynna sér málin vel, setja fram vel ígrundaðar tillögur og tala saman á málefnalegan hátt en það þýðir að hver og einn
fær að segja sína skoðun á kurteisan hátt. Það getur verið erfitt að finna lausn sem allir eru 100% sammála en með því að tala saman á þennan hátt þá er hægt að finna leið, á lýðræðislegan hátt, sem hentar flestum.
Undirbúningur
Þið eruð íbúar í sveitarfélaginu Grænubyggð. Skóli sveitarfélagsins er staðsettur í fallegum dal sem kallast Grænidalur. Í Grænadal er mikil náttúrufegurð, þar er m.a. votlendissvæðið Kötlumýri með gæsavarpi, birkiskógur, falleg á rennur eftir dalnum auk þess sem hverasvæði er að finna í botni dalsins. Skólinn nýtur þess sem dalurinn hefur uppá að bjóða og hefur skólamenningin og skólabragurinn þróast í samræmi við það.
Í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins Grænubyggðar á að flytja skólann úr dalnum á svæði sem er inni í sjálfri byggðinni, nokkuð langt frá dalnum. Í staðinn á að byggja upp ferðamannasvæði í dalnum með hótelum og heilsuböðum. Hætta er á að votlendið í Grænadal raskist við framkvæmdirnar.
Það má líka taka fyrir málefni sem tengist annars konar náttúrusvæði í nágrenni skólans, t.d. rask á birki skógi, fuglabúsvæði eða strandsvæði, stíflu í fljóti eða þverun fjarðar.
Verkefnavinna – styttri útgáfan
Þar sem lýðræði er í hávegum haft í Grænubyggð hefur verið ákveðið að halda fund með aðilum sem að skólanum koma til að ræða þessa tilhögun og segist sveitarstjórnin taka til athugunar þær niðurstöður sem út úr fundinum koma.
Það eru sex hlutverk í hverjum hóp: nemandi, kennari, skólastjórnandi, foreldri, ferðaþjónustuaðili, meðlimur sveitarstjórnar. Skrifið hlutverkin á miða og dragið hver fær hvaða hlutverk. Þið eruð öll hluti af skólasamfélagi skólans. Nú skuluð þið setja ykkur í þau hlutverk sem ykkur hefur verið úthlutað og velta fyrir ykkur neðangreindum atriðum.
1. Hugleiðið eftirfarandi hvert og eitt:
- Hvernig manneskja ertu? Veltu fyrir þér hlutverki þínu og ímyndaðu þér hvernig manneskja þú ert og hvað skiptir þig máli. Lýstu persónunni í nokkrum orðum. Hvað skoðun hefurðu á málefninu? Það þarf ekki að vera þín eigin skoðun heldur setur þú þig í hlut
verk. - Ræðið (í hlutverkum) þessa ákvörðun sveitarfélagsins. Passið að allir fái að segja sína skoðun, beitið virkri hlustun. Reynið að koma ykkur saman um niðurstöður. Setjið saman nokkra punkta þar sem fram kemur sameiginleg niðurstaða frá ykkar hóp
Verkefnavinna – lengri útgáfan
Skiptið ykkur í sex hópa og lesið lýsinguna fyrir ykkar hóp. Lesið líka lýsingar fyrir hina hópana til að undir búa fyrir hlutverkaleikinn. Það getur verið gaman að vera í búningum í hlutverkaleik en það er ekki nauðsynlegt.
Hópur 1. Framkvæmdaraðili og verktaki. Framkvæmdaraðilinn (í þessu tilfelli er það sveitarfélagið Grænabyggð) ræður verktaka til að sjá um framkvæmd á byggingum sem hann vill byggja. Fyrirtæki sem taka að sér að byggja mannvirki t.d. hótel, brýr, virkjanir, íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði o.fl. kallast verktakafyrirtæki. Öll fyrirtæki þurfa að skila hagnaði, annars gætu þau ekki verið til. Í sumum fyrirtækjum er mikil áhersla lögð á hagnaðinn en mörg fyrirtæki taka aðra þætti líka inn í eins og að hafa sem minnst áhrif á náttúruna og að starfsfólki líði sem best. Búningur: Hjálmur.
Hópur 2. Náttúruverndarsamtök. Samtök sem hafa það að markmiði að vernda náttúruna. Þau vilja að plöntur, maðurinn og önnur dýr geti lifað í sátt og samlyndi. Náttúruverndarsamtök geta verið mjög ólík og með mismunandi áherslur. Mikilvægt er fyrir náttúruverndarsamtök að skoða málin frá ýmsum hliðum og að ekki þurfa allar framkvæmdir að vera slæmar. Þau þurfa samt að
hafa í huga að þau eru rödd náttúrunnar sem annars hefur ekki rödd. Ef ákveðið hefur verið að fara í framkvæmd sem hefur mjög slæm áhrif á náttúruna, þá geta náttúruverndar samtök hvatt til þess að framkvæmdin sé gerð í meiri sátt
við umhverfið. Búningur: Græn skikkja.
Hópur 3. Grágæsir. Grágæs er stór gæs sem verpir í Evrópu og Asíu og er ein algengasta fuglategundin á svæðinu. Hún verpir aðallega nálægt vatni, t.d. í mýrum eins og Kötlumýri. Gæsir lifa aðallega á grasi og eru þess vegna stundum í nábýli við manninn. Gæsir, líkt og aðrar lífverur, hafa ekki rödd sem mannfólk skilur og geta því ekki varið sig þegar þær missa búsvæði sín. Í þessum hlutverkaleik geta gæsirnar þó tjáð sig á manna máli og tekið þátt í fundinum.
Búningur: Goggur.
Hópur 4. Íbúar. Fólk sem býr í Grænubyggð. Íbúar geta haft miklar skoðanir
á því sem gert er í þeirra hverfi og geta haft áhrif á það sem gert er, t.d. með því að koma með tillögur við bæjaryfirvöld að því sem þeir vilja hafa í sínu hverfi eða jafnvel með því að mótmæla fyrirhuguðum framkvæmdum. Sumum íbúum er nokkuð sama um breytingar í byggðinni þeirra en aðrir hafa miklar áhyggjur. Búningur: Treflar og sjöl.
Hópur 5. Ferðafólk. Fólk sem fer til annarra svæða en það býr á vill upplifa eitt hvað nýtt. Það er mjög misjafnt hvað ferðafólk vilja sjá og upplifa, sumir vilja upplifa óspillta náttúru, aðrir menningu og enn aðrir vilja skoða byggingar. Oft ræðst uppbygging á svæðum af því sem haldið er að ferðafólk vilji. En ferðafólk vill líka geta gist á fallegu hóteli á fallegum stað. Búningur: Bakpoki.
Hópur 6. Vísindafólk. Vísindafólk á ólíkum sviðum, m.a. náttúrufræði, umhverfisfræði, verkfræði, félagsfræði, sálfræði, ferðamálafræði, viðskiptafræði og hagfræði hefur rannsakað fólk, samfélag, náttúru og umhverfi Kötlumýrar. Vísindafólk beitir vísinda legum aðferðum við mælingar og rannsóknir og þarf að vera hlutlaust við rannsóknina. Niðurstöður vísindafólksins geta gefið vísbendingar um mikilvægi svæðisins fyrir fólk og náttúru og kosti og galla þess að fara í framkvæmdir. Búningur: Stígvél eða hvítur sloppur.
1. Byrjið á því að ræða málin í hópnum ykkar, lesið ykkur til um málefnið, takið afstöðu til þess (út frá
ykkar hlutverki) og svarið spurningunum sem fylgja lýsingunni á hópnum ykkar. Mikilvægt er að þið
sem hópur myndið ykkur sameiginlega skoðun á málefninu. Veltið fyrir ykkur neðangreindum at
riðum.
* Hvaða fólk/dýr eru í hópnum?
* Hvaða tengingu hefur hópurinn við framkvæmdina og mýrina?
* Hverjir eru kostir og gallar þess að byggja hótelið í Kötlumýri?
* Hvaða áhrif hefur framkvæmdin á hópinn?
* Getur náttúruvernd og hótelbygging farið saman?
* Hver er tillaga hópsins í þessu máli?
* Hversu líklegt er að þessi hópur muni/geti hafa áhrif á málið?
2. Kennarinn ykkar verður í hlutverki fundarstjórans og passar upp á að allir komist að og að engin dragi til sín alla athyglina
3. Allir hópar kynna niðurstöður sínar (gæsirnar líka) þar sem afstaða til málefnisins kemur fram (2-3 mínútur á hóp). Eftir hverja kynningu geta skapast umræður þar sem meðlimir annarra hópa geta komið með spurningar og vangaveltur um niðurstöðuna.
4. Ef niðurstaðan verður sú að allir hóparnir eru annaðhvort með eða á móti má opna fyrir umræður um aðra möguleika. Hér er hægt að hafa umræðu um gildi. Hvaða gildi tengjast rökunum sem þau gefa? Af hverju tóku þau þessa afstöðu?
5. Í lokin fara allir úr hlutverkum sínum og fram fara lýðræðislegar kosningar. Skrifið niður allar mögu legar niðurstöður á töfluna og kjósið svo öll eftir eigin sannfæringu í málinu. Þetta mega vera opnar eða leynilegar kosningar. Niðurstöðurnar geta verið á ýmsa vegu því þið ráðið ferðinni sjálf.
Verkefnið birtist áður bókinni Náttúra til framtíðar.