Verkefni sem eykur meðvitund nemenda um mismunandi möguleika og aðstæður fólks. Hlutverkaleikur þar sem nemendur tilheyra ákveðnum hópi sem getur haft áhrif á möguleika fólks varðandi lífsgæði og annað. Verkefni fyrir 13-30 ára

Aldur: 13-30 ára

Tími: 1-2 kennslustundir

Markmið:

  • Að auka meðvitund um mismunandi möguleika og aðstæður fólks
  • Að auka meðvitund um að það að tilheyra ákveðnum hópi getur haft áhrif á möguleika fólks
  • Að höfða til umhyggju og virðingar fyrir fólki

Efni og áhöld: Hlutverkaspjöld og mikið gólfpláss

Framkvæmd:

Hver þátttakandi fær eitt hlutverkaspjald sem hann les af en hvorki segir né sýnir öðrum.

Dæmi um hlutverk:

Atvinnulaus einstæð móðir á Íslandi

Afrísk fyrirsæta í Bretlandi

Heimilislaus 27 ára gamall maður í Noregi

24 ára gamall sýrlenskur maður á flótta

Dóttir bankastjóra, nemi í Háskóla Íslands

Dóttir bandaríska sendiherrans á Íslandi

Múslímsk stúlka sem býr heima hjá strangtrúuðum foreldrum sínum í Saudi-Arabíu

Hver þátttakandi er beðinn að hugsa um persónuna á spjaldinu og ímynda sér að þetta sé hann/hún sjálf/ur. Hægt er að auðvelda þeim verkið með því að spyrja eftirfarandi spurninga:

Hvernig  var barnæska þín?

Í hvernig húsi bjóstu?

Hvað gerðirðu í frítímanum?

Gekkstu í skóla? Hvernig skóla?

Hvað gerðu foreldrar þínir?

Hvernig fólk umgengstu?

Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?

Þegar allir hafa komið sér í sitt hlutverk raða þeir sér í beina línu

Kennari les upp nokkrar staðhæfingar og þátttakendur færa sig fram um eitt skref ef staðhæfingin á við þeirra persónu, annars standa þeir í stað

Þegar allar staðhæfingarnar hafa verið lesnar upp fara fram umræður, sjá umræðupunkta hér að neðan, án þess að þátttakendur færi sig úr stað

Fyrir lok umræðanna opinbera þátttakendur hlutverk sín

 

Staðhæfingar:

Þú hefur aldrei átt í peningavandræðum

Ég bý nálægt fjölskyldunni minni 

Ég get farið til læknis þegar ég er veik(ur) 

Mér er ekki kalt á veturna 

Þú átt íbúð, síma og tölvu

Það er borin virðing fyrir tungumálinu þínu í landinu sem þú býrð í

Þú getur haft áhrif á samfélagið sem þú býrð í

Þú ert oft spurð/ur ráða um álitamál í samfélaginu

Þú ert aldrei hrædd/ur um að vera tekin/n af lögreglunni

Þú átt fullan rétt á heilsugæslu í landinu sem þú býrð í

Þú kemst til útlanda a.m.k. einu sinni á ári

Þú getur boðið vinum þínum heim til þín þegar þú vilt

 

Undirbúningur kennara – Búa til hlutverkaspjöld (hér að ofan eru dæmi um hlutverk)