Óskilamunir í skólanum eru skoðaðir og greindir - hvað kosta þeir? Nemendur skoða virði hlutanna og finna vonandi í leiðinni eitthvað sem þeir hafa týnt - eða geta komið merktum hlutum til skila. Verkefni fyrir 8-16 ára.

Óskilamunir í skólanum eru skoðaðir og greindir – hvað kosta þeir? Nemendur skoða virði hlutanna og reikna út og sýna kostnaðinn við óskilamuni. Vonandi finna þeir eitthvað í leiðinni sem þeir hafa týnt – eða geta komið merktum hlutum til skila.

Aldur: 8 – 16 ára

Tími: 2 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur geti unnið skipulega við að rannsaka, greina, túlka, setja fram tilgátur, finna lausnir og alhæfa um hvers kyns viðfangsefni með hjálp stærðfræðinnar.
  • Að nemendur átti sig á mikilvægi þess að hugsa vel um hlutina sína og forðast það að þurfa að kaupa alltaf nýtt.
  • Að nemendur geri sér grein fyrir hvað þarf til að framleiða eina flík og hvernig það ferli hefur áhrif á umhverfi okkar.
  • Að nemendur átti sig á að því meiri neysla því stærra vistspor
  • Að vonandi einhver finni áður glataða flík

Efni/áhöld

Óskilamunir, tölvur, bæklingar, karton, litir, vasareiknar.

Undirbúningur kennara

Kennari safnar saman öllum óskilamunum úr skólanum og viðar að sér bæklingum sem sýna verð á fatnaði og finnur heimasíður sem hægt er að vísa á. Kennari útbýr vinnuferli fyrir nemendur sem þeir geta fylgt og ákveður hvernig kynningu á niðurstöðum er háttað.

Virkja má nemendur í þessum undirbúningi þ.e.  við að safna saman óskilamunum og upplýsingum um verðgildi þess fatnaðar sem finnst.

Framkvæmd

Óskilamunum í skólanum er safnað saman og þeir flokkaðir eftir gerð. T.d. allar húfur saman, allir vettlingar o.s.frv.

Verðgildi hvers hlutar er áætlað og samanlagt verðgildi hlutanna reiknað út.

Vinna má með tölurnar með ýmsum hætti, s.s. finna meðaltap hvers nemenda við skólann o.fl. Sýna má heildarkostnað á bak við óskilamuni á stöplariti.

Útfærsla

Berum saman kostnað
Bera má saman kostnað sem hlýst af óskilamuni við hluti sem nemendur þekkja vel, sýna t.d. týndar húfur í skólanum kosta jafn mikið og x iphone/ x ferðir í bíó / x hamborgaratilboð/bragðarefi. 

Ferðlag fatanna

Hægt er að útfæra verkefnið enn frekar, t.d. geta nemendur valið sér flík og fundið út hvar hún er framleidd? hvaða fólk saumaði fötin? hvaðan efnið í hana kemur (hver bjó til efnið), hverjir stóðu að framleiðslunni. Hvernig var hún flutt til landsins o.fl. Þannig má tengja verkefnið við þemað hnattrænt jafnrétti.

Er flíkin merkt?
Komdu henni til skila.

Höfum áhrif!

Í þessu verkefni gefst nemendur tækifæri til þess að hafa áhrif. Hengja má upp veggspjöld með þeim upplýsingum sem safnast ásamt því að fá nemendur til þess að skrifa skilaboð til samnemenda um að hugsa betur um hlutina sína.
Einnig gætu nemendur sett saman litla grein um verkefnið, hvað þau lærðu á því o.fl. og deilt á heimasíðu skólans eða í fréttablaði til foreldra.