Aldur: hentar öllum aldri
Markmið: Að nemendur
- endurvinni og flokki pappír
- læri um hvaðan tilbúinn pappír kemur
- læri handverk
- tileinki sér nægjusemi
- geri sér grein fyrir þeirri orku sem þarf til pappírsgerðar í verksmiðju og þeirri mengun sem af henni skapast
- hugi betur að umhverfinu
Efni og áhöld: Endurvinnanlegan pappír, pappírstætara (má líka rífa niður í höndunum), stóran bala
Vatn, töfrasprota, ramma og net til pappírsgerðar, svampa, tuskur/efni til að þurrka pappírinn á, snúrur til að þurrka á
Framkvæmd: Þegar hafist er handa við pappírsgerð er byrjað að safna saman áður notuðum pappír til pappírsgerðar. Möguleiki er á því að börnin komi með pappír að heiman í verkefnið. Best er að nota gæðapappír (t.d. ljósritunarblöð) Hann er sterkari til endurvinnslu þar sem hann er minna unninn en t.d. dagblöð.
Ef pappírinn er ekki tættur, þarf að byrja á því að rífa hann í litlar ræmur/búta (ca. 2×2 cm)
Leggið pappírinn í bleyti í volgt vatn þar til hann verður gegnsósa og mjúkur t.d. yfir nótt.
Setjið massann í fötu ásamt miklu vatni og tætið með töfrasprota. Passið að hafa lítið í einu til að ofgera ekki sprotanum.
Hægt er að bæta við pappírsblönduna 1-2 matskeiðum af veggfóðurslími eða kartöflumjöli til að styrkja pappírsarkirnar sem búa á til en einnig hefur verið notað Arabic gumi sem er hægt að fá í apótekum. Setjið slatta af pappírsmassanum í stóran bala og bætið vatni út í . Eftir því sem líður á pappírsgerðina er pappamassa bætt úr í balann. Það sést fljótt hvort blandan sé passleg, of þykk eða þunn. Þá eru nýju arkirnar mátulegar, of þykkar eða þunnar.
Hrærið vel í blöndunni með hendinni eða einhverju áhaldi, rammi með strengdu neti yfir og annar laus rammi sem hafður er ofan á er dýfður sem mest láréttum ofan í balann og færður láréttur upp úr þannig að pappamassi og vatn fljóta á netinu. Vatnið er látið seytla niður úr netinu aftur niður í balann. Því næst er lausi ramminn tekinn frá og rammanum hvolft á tusku þannig að pappamassinn snúi að tuskunni. Takið svamp og þerrið eins vel og hægt er alla bleytu. Ramminn er tekinn frá og þá situr nýja pappírsörkin á tuskunni og hægt að hengja hana til þerris.
Þegar pappírsarkirnar hafa þornað eru þær teknar af tuskunum og pressaðar undir einhverju þungu eða jafnvel straujaðar.
Ef vilji er til að setja hluti saman við er það sett út á pappamassann áður en allt vatnið seytlar niður úr rammanum. Það er hægt að bæta t.d. spottum, garni, sagi, laufblöðum lituðum pappír, myndum og ýmsu öðru út í rammana á þessu stigi. Þá er hægt að bæta við massann með því að ausa blöndu úr balanum yfir og láta vatnið seytla niður um netið.
Þegar gengið er frá eftir pappírsgerð er nauðsynlegt að sigta pappírinn frá vatninu áður en er hellt niður. Mótið kúlur úr pappamassanum sem eftir verður til að geyma til seinni tíma notkunar.