Börn gera plöntuþrykk á endurunninn pappír sem þau búa sjálf til og læra þannig um endurvinnslu og mikilvægi skóga og trjáa. Verkefni fyrir 4-12 ára

Aldur: 4 -12 ára

Tími: 4 kennslustundir  

Markmið:

  • Að læra að endurvinna pappír
  • Að læra um mikilvægi trjáa og skóga
  • Að læra að þekkja mismunandi plöntur

Efni og áhöld: Niðurtættur pappír, vatn, töfrasproti, rammar fyrir pappírsgerð, plastbakkar, pappaspjöld, plöntur t.d. laufblöð, strá eða litlar greinar, grafíklitir og grafíkpressa.

Framkvæmd:

Undirbúningur: Kennarinn leggur niðurtættan pappír í bleyti og býr svo til pappamauk úr því (blandari eða töfrasprotinn eru góðir í þetta).

Umræður um hvaða efni er notað í pappírsframleiðslu. Talað um mikilvægi trjáa og skóga. Ræða hvers vegna menn eiga að endurvinna efnin sem mest og best. Hvert barn fær að búa til sína pappírsörk úr útþynntu pappamaukinu með  hjálp kennarans. Hin börnin fá aukaverkefni á meðan, t. d. að teikna eða mála tré.

Í næsta tíma þegar pappírsarkirnar eru tilbúnar kemur kennarinn með plöntur e.t.v. sem börnin hafa safnað úti (fer eftir árstímum, laufblöð eru fín og allskonar strá, en yfir vetrartíma eru litlar greinar af birki eða greni einnig mjög góðar ásamt njóla). Grafíklit er rúllað yfir plönturnar, þær settar á pappaspjald, handunninn pappír ofan á og allt í grafíkpressu.

Á meðan einn í einu er í þessu verkefni er gott að láta hin börnin teikna plönturnar sem eru í boði.