Gamalt máltæki segir að öskudagur eigi sér 18 bræður í veðri sem kallast "öskudagsbræður". Þar er átt við að veður haldist eins og á öskudaginn næstu 18 daga á eftir. Börnin gera athugun á þessari tilgátu og fylgjast með veðrinu 18 daga á eftir öskudeginum. Verkefni fyrir 4-10 ára

Aldur:  4-10 ára

Tími: Veðurathuganir eru gerðar í 18 daga.

Markmið:

  • Efla samstarf heimili og skóla
  • Vekja áhuga barnanna á veðri og hvernig veður getur haft áhrif á náttúruna.
  • Auka orðaforða barnanna.

Efni og áhöld:

Einfaldur vindmælir, hitamælir, veðurtákn, myndavél.

Framkvæmd:

Gamalt máltæki segir að öskudagur eigi sér 18 bræður í veðri sem kallast “öskudagsbræður”. Þar er átt við að veður haldist eins og á öskudaginn næstu 18 daga á eftir.

Á hverjum degi eru eitt til tvö börn valin sem veðurfræðingar dagsins. Veðurfræðingar hafa það hlutverk að skoða veðurspána heima í sjónvarpi/tölvu og einhverju dagblaðanna, klippa veðurspána úr blaðinu og koma með í skólann næsta dag. Kennari fer út með veðurfræðingum og athugar með veðrið. Fylgst er með vindátt/vindstyrk á vindmæli, trjám hvort þau hreyfist og skýjafar skoðað. Þegar inn er komið skoða veðurfræðingar hitamæli og athuga hitastigið úti. Kennari og veðurfræðingar segja öðrum börnum frá hvernig veðrið er þann daginn og skoða síðan hvaða veðri hafi verið spáð. Taka myndir til að nota við skráningu.