Tilgangur þessa verkefnis er að styðja vinnuskólana við að eyða alaskalúpínu og skógarkerfli, bæði með fræðslu um þessar tegundir og með praktískum ráðum við eyðingu.

Áætlaður tími fyrir verkefni

Þetta verkefni verður að vinna yfir sumarmánuðina. Kortlagning á útbreiðslu tegundanna getur átt sér stað yfir allt sumarið. Sláttur á lúpínu þarf að eiga sér stað frá miðjum júní til miðs júlí en slá þarf skógarkerfil þrisvar sinnum yfir sumarið.

Fræðsla og undirbúningur

Einhver gæti litið svo á að innflutningur nýrra og framandi tegunda til Íslands stuðli að aukinni líffræðilegri fjölbreytni eða einfaldlega lífbreytileika en það er ekki réttur skilningur. Það er ekki nóg að telja tegundir því ef framandi tegund verður ágeng þá geta aðrar tegundir horfið á móti. Sem betur fer verða fæstar framandi tegundir ágengar en ef tegundin verður ágeng, eins og raunin er með lúpínu og skógarkerfil, þá geta þær valdið tapi á lífbreytileika og miklum skaða á íslenskri náttúru. Ef framandi lífvera er orðin ágeng á einum stað, þá eru líkur á að hún verði ágeng á fleiri stöðum.

Alaskalúpína er flokkuð sem ágeng framandi tegund á Íslandi og er ein umdeildasta plöntutegund landsins.

 • Hvaðan kemur hún? Þessi fjölæra belgjurt er upprunnin í Norður-Ameríku og var fyrst flutt til Íslands árið 1895. Hún var notuð í góðri trú til landgræðslu frá og með miðri 20. öldinni, þangað til skaðsemi hennar varð ljós.
 • Af hverju er hún ágeng: Alaskalúpína er fjölær belgjurt sem myndar sambýli við örverur í rótunum sem vinna næringarefnið nitur úr andrúmslofti. Alaskalúpínan myndar þéttar breiður, breytir eiginleikum jarðvegs og gjörbreytir gróðurfari, m.a. getur hún útrýmt lyngi og öðrum lágvaxnari gróðri.
 • Fræ og útbreiðsla: Hver planta með 25 stöngla getur myndað meira en 2000 fræ árlega. Þannig myndast fræbanki í jarðveginum sem enst getur í mörg ár. Fræ dreifast yfirleitt ekki langar leiðir, eða um 1-3 m frá móðurplöntunni, nema þar sem halli er á landi eða rennandi vatn nálægt. Vísbendingar eru um að fræ geti borist langar vegalengdir með vatni, sterkum vindum og fuglum en aðal dreifingarleiðin er samt sem áður sáning manna. Fræin geta verið mjög langlíf og því mikil hætta á að langlífur fræforði myndist í jarðvegi.

Skógarkerfill er einnig flokkaður sem ágeng framandi tegund á Íslandi.

 • Hvaðan kemur hann? Hann er upprunninn í Evrópu og Asíu og barst til Íslands sem garðaplanta.
 • Af hverju er hann ágengur? Skógarkerfillinn er stórvaxinn, vex hratt, myndar stórar breiður og skyggir á annan gróður. Skógarkerfill hefur ekkert landgræðslugildi og sækir sérstaklega í nærringarríkan jarðveg. Hann hefur m.a. náð bólfestu í og jafnvel tekið yfir gamlar lúpínubreiður.
 • Fræ og útbreiðsla: Skógarkerfill dreifir sér bæði með fræjum og rótarskotum. Fræ þroskast frá lokum júní og til loka júlí en móðurplantan drepst venjulega að lokinni blómgun. Ein planta getur myndað 800-10.000 fræ en þau dreifast yfirleitt ekki langt frá móðurplöntunni. Aðal dreifingarleið plöntunnar hérlendis er með mönnum. Fræin eru yfirleitt tiltölulega skammlíf en flest þeirra lifa aðeins í einn vetur og því er ekki hætta á að langlífur fræforði myndist í jarðvegi.

Kortlagning og aðgerðaráætlun

Áður en hafist er handa við aðgerðir þarf að kortleggja svæðið og gera aðgerðaráætlun.

 • Kortleggja þarf staðsetningu tegundanna og meta þekju þeirra.
 • Forgangsraða þarf svæðunum eftir hættu sem villtum íslenskum gróðri stafar af þeim. Svæði nálægt vatni þarf að setja efst á forgangslistann.
 • Í aðgerðaráætlun þarf að horfa til þess að:
  • Fækka svæðum þar sem þessar tegundir vaxa
  • Minnka þekju svæða sem hafa mikla þekju (stórir flákar) og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu þeirra.

Aðgerðir við að hefta og eyða alaskalúpínu og skógarkerfil

Til að tryggja árangur þarf að slá bæði lúpínu og kerfil í nokkur ár í röð og vakta svæðin a.m.k. næsta áratuginn. Gömlu plönturnar drepast margar við sláttinn en lúpína getur sprottið aftur upp vegna mikils fræforða í jarðveginum og kerfill er afar lífseigur vegna rótarskota. Það er óþarfi að fjarlægja þær plöntur sem slegnar eru því þær rotna og örva grasvöxt. Sláið plönturnar eins neðarlega og hægt er.

 • Alaskalúpína. Slá þarf lúpínu þegar hún er í fullum blóma og áður en hún myndar fræ því þá er minnstur kraftur í rótarkerfinu. Gott er að miða við tímabilið frá miðjum júní til miðs júlí því þá eru góðar líkur á að plantan drepist við slátt.
 • Skógarkerfill. Til að hemja útbreiðslu tegundarinnar þarf helst að slá kerfilinn 3-4 sinnum á hverju sumri en stinga upp plöntur sem eru á stangli. Ef einungis er slegið að vori getur slátturinn aukið rótarskot og valdið því að fleiri fræplöntur komast á legg.

Vangaveltur fyrir nemendur

 • Hvað er ágeng framandi tegund?
 • Verða allar framandi tegundir ágengar?
 • Hver eru helstu einkenni tegunda sem geta orðið ágengar?
 • Hvaða skaða geta ágengar framandi tegundir valdið?
 • Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir skaða?
 • Hvernig er hægt að fylgjast með árangri aðgerðanna?

Heimildir og ítarefni

Ágengar framandi lífverur

Náttúra til framtíðar námsefni fyrir unglingastig og framhaldsskóla

Ágengar plöntur í Stykkishólmi. Útbreiðsla Alaskalúpínu, skógarkerfils, spánarkerfilsog bjarnaklóar og tillögur um mótvægisaðgerðir. Stykkishólmsbær og Náttúrustofa Vesturlands, 2009.

Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar. Náttúrufræðingurinn, 2016

Aðgerðaáætlun gegn skógarkerfil og alaskalúpínu í Bolungarvík 2018-2022.

Er hægt að koma í veg fyrir að lúpína vaxi með því að slá hana? Vísindavefurinn.