Grænþvottur á sér stað þegar þeirri ímynd er haldið á lofti að eitthvað sé umhverfisvænna en það raunverulega er. Þetta verkefni fær nemendur til þess að hugsa betur um hversu umhverfisvænar vörur eru raun og veru.

Hvað er umhverfisvænt í raun og veru?

 

Í kringum okkur eru allskyns upplýsingar um hitt og þetta sem á að vera umhverfisvænt. Það er nauðsynlegt að beita gagnrýnni hugsun á þessar upplýsingar.

Byrjum á því að kynna okkur grænþvott hér:

Skiptum nú bekknum upp í minni hópa þar sem allir gera eftirfarandi verkefni. 

Hafðu eftirfarandi spurningar í huga þegar þú fjallar um þá hluti sem nefndir eru hér að neðan.

 • Þarf ég á þessu að halda?
 • Er til umhverfisvænni hlutur sem þjónar sambærilegum tilgangi?
 • Á ég eitthvað nú þegar, sem ég get notað í staðinn fyrir þetta?

Hlutirnir eru:

 • Rafmagnsbíll
 • Flugmiði til London
 • Gasblaðra
 • Bambus nestisbox
 • Plaströr
 • Hakk úr nautakjöti og spagettí
 • Eplaskeri
 • Eggjasuðutæki
 • Föt
 • Kristall í dós

Vangaveltur eftir spjall nemenda

Gott að fá hópanna aðeins til þess að segja frá sínum niðurstöðum varðandi einstaka hluti. „Hvað sögðuð þið um rafmagnsbílanna? En um gasblöðrurnar?“

Rafmagnsbíll

Rafmagnsbílar eru vissulega umhverfisvænni en dísel eða bensínbílar. Það sem er þó enn umhverfisvænna en bílar eru annar samgöngumáti á borð við hjól, strætó eða að fara fótgangandi.

Flugmiði til London

Við viljum stundum gera vel við okkur og fara til útlanda. Stundum eru einnig viðburðir í öðrum löndum sem við viljum fara á, eða þurfum þess sökum vinnu. Það er þó gífurlega mengandi að fljúga og því ættum við ekki að gera það mjög oft. Gott ráð er að fara sjaldnar til útlanda og vera lengur í einu, í stað þess að fara í margar styttri ferðir á ári. 

Gasblaðra

Helíum, gastegundin sem notuð er í blöðrur er næstalgengasta frumefnið í alheiminum en er þó takmörkuð auðlind á jörðinni. Helíum þjónar mikilvægu hlutverki á sjúkrahúsum þar sem það er meðal annars notað sem kælivökvi á segulómunartæki á sjúkrahúsum. Við þurfum að forgangsraða því hvernig við notum helíum. Auk þess eru gasblöðrur almennt úr einnota plasti sem stuðlar að aukinni plastmengun. Nánari upplýsingar um málið má finna hér.

Bambus nestisbox

Bambus nestisbox geta verið mjög falleg og praktísk. Þau geta verið sniðug lausn EF mann vantar nestisbox. Ef það er til plastbox heima hjá manni er umhverfisvænast að nota það eins lengi og það þjónar tilgangi sínum.

Plaströr

Það eru til margar tegundir af fjölnota rörum, t.d. úr stáli og bambus. Auk þess er hægt að fá einnota papparör, sem eru skárri fyrir umhverfið en plaströr því þau eyðast í náttúrunni. Sumir þurfa rör til að drekka en flestir geta þó sleppt rörinu alfarið.

Hakk úr nautakjöti og spagettí

Nautakjöt er ein óumhverfisvænasta matvara sem hægt er að finna. Það er nauðsynlegt að borða en það er vel hægt að velja umhverfisvænna fæði en nautakjöt. Sumir vilja alls ekki sleppa því alfarið að borða nautakjöt en það er hægt að velja að borða það sjaldnar. Linsubaunir og sojahakk eru dæmi um mjög umhverfisvæn matvæli sem má nota í stað nautahakks.

Eplaskeri og eggjasuðutæki

Það eru til ýmis tæki og tól fyrir eldhúsið og sum þeirra þarftu alls ekki. Dæmi um það er eplaskeri, eggjasuðutæki, bananaskeri, kleinuhringjasteikjari og klakavél. Auðvitað er það persónulegt val hvers og eins hvað hann er með í eldhúsinu og í sumum tilfellum gæti einstaklingur talið t.d. að hann borði nógu marga banana til þess að það borgi sig að vera með bananaskera.

Er eitthvað sem ég á í eldhúsinu sem þjónar sama eða sambærilegum tilgangi? Ef svarið er já, þá er líklegt að þú þurfir ekki á nýja tólinu að halda.

Föt

Það þurfa allir að eiga föt, svo mikið er víst. Spurningin er fremur hve mikið af fötum við þurfum að eiga og hve oft við þurfum að endurnýja fataskápinn. Þegar við þurfum að kaupa okkur föt getum við reynt að kaupa þau notuð, það er umhverfisvænna en að kaupa ný föt. Þá er hægt að velja föt úr umhverfisvænum efnum. Umhverfisvænustu fötin verða þó alltaf fötin sem þú átt nú þegar í fataskápnum.

Kristall í dós

Við á Íslandi erum mjög heppin með gæði drykkjarvatnsins okkar. Það að vera með hreint vatn í krananum þýðir að við þurfum ekki að kaupa það í plasti eða dós. Áldósir eru örlítið umhverfisvænni en plastflöskur vegna þess að það er auðveldara að endurvinna ál. Um helmingur áldósa í heiminum eru endurunnar en einungis 10% af plastflöskum. Áliðnaðurinn er þó einn sá allra subbulegasti iðnaður í heiminum. Vatnið í krananum er alltaf umhverfisvænasti kosturinn.