Aldur: 5-12 ára
Framkvæmd
Lesið textann, finnið eina til tvær setningar í hverjum kafla sem ykkur finnst áhugaverðar og myndskreytið.
Einnig er hægt að gera samanburð á jólum fyrri tíma og dagsins í dag. Það er hægt að gera með myndum t.d. teikna mynd af jólagjöf á fyrri tímum og svo dæmigerði jólagjöf sem tíðkast í dag.
Neysla á jólum
Fyrr á tímum var almenn neysla fólks annars konar en við þekkjum í dag og efnahagur fólks afar misjafn. Margir voru fátækir og vöruúrval takmarkað. Þeir sem minna höfðu milli handanna létu sér nægja einfalda umgjörð, kerti og spil. Þeir sem bjuggu við betri kjör gátu gert vel við sitt fólk, keypt bæði fínan mat, gjafir og jólaskraut. Allir reyndu að halda hátíðleg jól burt sé frá efnahag.
Jólaskraut
Skraut á heimilum var fyrst og fremst handgert og fólk skreytti með músastigum og spýtujólatrjám. Kramarhús voru einnig búin til og stundum fyllt með rúsínum. Flestir keyptu kerti en heimagerð kerti þekktust líka. Þeir sem áttu aura gátu keypt jólatré og glitrandi jólakúlur.
Gjafir
Gjafakaup voru hófstilltari heldur en þekkist í dag. Á tímum gamla bændasamfélagsins voru jólin fyrst og fremst haldin hátíðleg með betri mat og hvíld. Sérstakar jólagjafir tíðkuðust varla, fólk fékk þó kerti og nýja flík fyrir jólin til að forðast jólaköttinn. Nú til dags fara fáir í jólaköttinn.
Meira var um jólagjafir í þéttbýlinu, kepptust kaupmenn við að auglýsa tilvaldar og hentugar jólagjafir af ýmsu tagi. Bækur voru t.d. algengar jólagjafir. Óhætt er að segja að það jólagjafaflóð sem við þekkjum í dag var nánast óþekkt fyrirbæri fyrir 1960.
Jólaföt
Ný flík gat verið margt, prjónaðir sokkar eða leppar í skóna, kannski ný svunta eða treyja. Jólaföt í okkar skilningi komu seinna og yfirleitt átti fólk ekkert sérlega mikið af fötum. Sérstök jólaföt urðu ekki algeng fyrr en eftir 1960, nema kannski á fínustu heimilum.
Jólamatur
Maturinn sem borðaður var á jólunum var fremur ólíkur því sem við eigum að venjast í dag, en boðið var upp á það besta sem til var á heimilinu hverju sinni. Stundum var soðið kindakjöt sett í askana, sem var þá kærkomin tilbreyting frá súrmeti og graut. Með batnandi efnahag, aukinni verslun og frystingu matvæla breyttust siðir landsmanna.
Um 1960 var lambakjöt víða á borðum um jólin, kótelettur, læri eða hryggur. Þá urðu rjúpur einnig vinsæll jólamatur. Meðlætið var brúnaðar kartöflur, grænar baunir og rauðkál, og svo náttúrulega malt og appelsín. Með fjölbreyttari matvælaframleiðslu varð fjölbreytnin meiri, hamborgarhryggurinn varð vinsæll og meðlætið fjölbreyttara.
Afrakstur
Myndskreytt frásögn.