Í þessu verkefni lesum við texta um jólin á fyrri tímum. Textinn skiptist í stutta kafla. Þegar búið er að lesa textann á að finna eina til tvær setningar úr hverjum kafla og myndskreyta. Þá verður til stutt myndskreytt saga um jólin á fyrri tímum.

Aldur: 5-12 ára

Framkvæmd

Lesið textann, finnið eina til tvær setningar í hverjum kafla sem ykkur finnst áhugaverðar og myndskreytið.

Einnig er hægt að gera samanburð á jólum fyrri tíma og dagsins í dag. Það er hægt að gera með myndum t.d. teikna mynd af jólagjöf á fyrri tímum og svo dæmigerði jólagjöf sem tíðkast í dag.

Neysla á jólum

Fyrr á tímum var al­menn neysla fólks ann­ars kon­ar en við þekkj­um í dag og efna­hag­ur fólks afar mis­jafn. Margir voru fátækir og vöru­úr­val takmarkað. Þeir sem minna höfðu milli hand­anna létu sér nægja ein­falda um­gjörð, kerti og spil. Þeir sem bjuggu við betri kjör gátu gert vel við sitt fólk, keypt bæði fín­an mat, gjaf­ir og jóla­skraut. All­ir reyndu að halda hátíðleg jól burt sé frá efnahag.

Jólaskraut

Skraut á heim­il­um var fyrst og fremst hand­gert og fólk skreytti með músa­stig­um og spýtujóla­trjám. Kramar­hús voru einnig búin til og stundum fyllt með rúsínum. Flest­ir keyptu kerti en heima­gerð kerti þekkt­ust líka. Þeir sem áttu aura gátu keypt jóla­tré og glitrandi jóla­kúl­ur.

Gjafir

Gjafa­kaup­ voru hófstilltari held­ur en þekk­ist í dag. Á tímum gamla bænda­sam­fé­lag­sins voru jól­in fyrst og fremst hald­in hátíðleg með betri mat og hvíld. Sér­stak­ar jóla­gjaf­ir tíðkuðust varla, fólk fékk þó kerti og nýja flík fyr­ir jól­in til að forðast jólaköttinn. Nú til dags fara fáir í jólaköttinn.
Meira var um jólagjafir í þéttbýlinu, keppt­ust kaup­menn við að aug­lýsa til­vald­ar og hent­ug­ar jóla­gjaf­ir af ýmsu tagi. Bækur voru t.d. algengar jólagjafir. Óhætt er að segja að það jóla­gjafa­flóð sem við þekkj­um í dag var nán­ast óþekkt fyr­ir­bæri fyr­ir 1960.

Jólaföt

Ný flík gat verið margt, prjónaðir sokk­ar eða lepp­ar í skóna, kannski ný svunta eða treyja. Jóla­föt í okk­ar skiln­ingi komu seinna og yf­ir­leitt átti fólk ekk­ert sér­lega mikið af föt­um. Sér­stök jóla­föt urðu ekki al­geng fyrr en eft­ir 1960, nema kannski á fín­ustu heim­il­um.

Jólamatur

Mat­ur­inn sem borðaður var á jól­un­um var frem­ur ólík­ur því sem við eig­um að venj­ast í dag, en boðið var upp á það besta sem til var á heim­il­inu hverju sinni. Stund­um var soðið kinda­kjöt sett í ask­ana, sem var þá kær­kom­in til­breyt­ing frá súr­meti og graut. Með batn­andi efna­hag, auk­inni versl­un og fryst­ingu mat­væla breytt­ust siðir lands­manna.

Um 1960 var lamba­kjöt víða á borðum um jól­in, kótelett­ur, læri eða hrygg­ur. Þá urðu rjúp­ur einnig vin­sæll jóla­mat­ur. Meðlætið var brúnaðar kart­öfl­ur, græn­ar baun­ir og rauðkál, og svo náttúrulega malt og app­el­sín. Með fjöl­breytt­ari mat­væla­fram­leiðslu varð fjöl­breytn­in meiri, ham­borg­ar­hrygg­ur­inn varð vin­sæll og meðlætið fjöl­breytt­ara.

Afrakstur

Myndskreytt frásögn.

Tengd verkefni

Jarðvegurinn og ég

Í þessum hlutverkaleik setja nemendur sig í spor mismunandi fólks í heiminum sem hefur ólíka hagsmuni og tækifæri þegar kemur að landnýtingu (landbúnaði, ferðamennsku og fleira). Út frá þessum hlutverkum þurfa þeir að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ákveðinn ágreining með sjálfbæra landnýtingu að leiðarljósi. Verkefni fyrir 16 til 100 ára.

Skoða verkefni
jörðin sem jólakúla

Öðruvísi jólaóskir

Í þessu verkefni hugleiða þátttakendur hvað væru stærstu óskir þeirra fyrir Jörðina, lífríkið og mannkynið og skoða hvað þyrfti að gera til þess að þessir óskir gætu orðið að veruleika. Verkefni fyrir 8-100 ára

Skoða verkefni
Scroll to Top