Í verkefninu taka nemendur sig til, hafa áhrif og grípa til aðgerða. Komið þið auga á eitthvað vandamál í ykkar nærumhverfi sem þyrfti að leysa?

Loftslagsbreytingar og mengun af mannavöldum hafa mikil áhrif á lífríkið og hringrásir á jörðinni. Við þurfum því að taka málin í okkar hendur!

Í þessu verkefni eigið þið að hafa áhrif og grípa til aðgerða.
Komið þið auga á eitthvað vandamál í ykkar nærumhverfi sem þyrfti að leysa?

Tilvalið er að vinna verkefnin: Kryfjum vandamálið til mergjar, Bakrýni eða Draumaframtíðin mín áður en þetta verkefni er unnið, þó það sé ekki skylda.

Tími: 5-10 kennslustundir. Kennari metur hversu umfangsmikið verkefnið er og hve mikill tími fer í útfærslu afurða (skapandi skil).

Aldur: Öll. Verkefnið hentar öllum skólastigum. Yngri nemendur þurfa meiri leiðsögn og kennari getur valið vandamálið sem unnið er með, en nemendur velja leiðir. Það kallast hálfstýrt leitarnám.

Verkefnið er hópaverkefni. Hæfilegur fjöldi í hóp er 3-4 nemendur.
Er það í sjálfsvald kennara sett, hvort hán/hann/hún dragi í hópa, velji í hópa eða leyfi nemendum að ráða.

Markmið
Að nemendur:

  • öðlist færni, getu og þekkingu á því hvernig hægt sé að hafa áhrif.
  • skoði lausnir við loftslagsvandanum og tengi þær við fyrirtæki og stjórnvöld.
  • veki fólk til umhugsunar um loftslagsbreytingar.
  • þjálfist í að taka eigin ákvarðanir og vinni í heimabyggð.

Lykilspurningar
Hvernig getum við beitt áhrifum okkar?
Hvaða aðgerðir gagnast best til að hafa áhrif?
Hverjir bera mesta ábyrgð? Hverjir eiga að bregðast mest við?

Efni og áhöld
Verkefnarammi fyrir nemendur. Við verkefnavinnu er æskilegt að nemendahópar hafi aðgang að tölvu/spjaldtölvu.
Mælt er með því að í stofunni sé einhverskonar gagnabanki, t.d. með endurunnum pappírsafgöngum, málningu, límbyssu og fleiri hlutum sem má ganga í, við gerð afurðar.

Aðferð
Verkefnið er að hafa raunveruleg áhrif! Í verkefninu reyna nemendur að hafa áhrif – breyta sínum eigin neysluháttum eða hafa áhrif á fjölskyldur, skólann, á almenning, stjórnvöld eða fyrirtæki. Hér tala verkin sjálf.

Hafðu áhrif er nemendastýrt leitarnám. Það þýðir að nemandinn ræður ferðinni. Kennari metur hversu stýrt verkefnið er. Sumir nemendur þurfa aðstoð við að finna leiðarspurningu, aðrir geta gert hana sjálfir.

Mikilvægt er að nemendur velja sér viðfangsefni sem þeir hafa áhuga a eða langar að læra meira um. Kennarar ættu að hafa opinn huga og hjálpa nemendum að móta spurningar.

Hlutverk kennarans er að vera leiðbeinandi, eða verkstjóri og hvetja nemendur til sjálfstæðra vinnubragða. Í stað þess að mata nemendur með staðreyndum og þekkingu, aðstoðar kennarinn þá í þeirra eigin þekkingarleit.

1. Viðfangsefni og leiðarspurning

Hvað getum við gert til að hjálpa loftslaginu?
Hvernig getum við beitt áhrifum okkar til að hægja á loftslagsbreytingum?

Hverju getum við breytt hjá okkur sjálfum?
Hvernig getum við haft áhrif á fyrirtæki eða þau sem raða?

Getur þú valið einn afmarkaðan hlut sem þú vilt breyta eða hafa áhrif á? Hvað finnst þér mikilvægt?

Þið þurfið að nota hugarflugið og rökhugsun við verkefnið. Nauðsynlegt er að miðla til annarra og hafa áhrif.

2. Tilgáta og hugmyndir

Hverju getið þið breytt í háttum ykkar eða í samfélaginu sem gæti verið hjálplegt hafinu?
Hvað vitið þið um viðfangsefnið ykkar?
Hver eru skilaboðin ykkar? Hverju viljið þið koma á framfæri?

Aflið ykkur upplýsinga um efnið, t.d. með því að leita á vefnum, lesa bækur, safna gögnum, fara í vettvangsferð, spyrja fólk sem þekkir vel til o.s.frv.
Berið hugmyndir ykkar undir kennarann.

Gott að hafa í huga
Hverjum er verkefnið beint að?
Á að ná til samnemenda? allra í skólanum, fjölskyldunni, vina, allra í hverfinu, þorpinu eða landinu? Ætlið þið að reyna að hafa áhrif á verslanir? Framleiðendur? Ráðamenn?

Miðlun upplýsinga/ skapandi skil
Hvernig ætlið þið að segja frá og ná til fólks? Hvar? Hver á að fá skilaboðin?

3. Efni og áhöld

Hvað þurfið þið að nota í verkefninu?
Getið þið fundið eitthvað heima? eða í endurvinnslugámnum? Mikilvægt er að kaupa „ekki alltaf eitthvað nýtt” og skapa ekki meiri mengun með verkefninu.
Skiptið verkum. Hver í hópnum á að gera hvað?

4. Framkvæmd/ gagnasöfnun

Framkvæmið verkefnið. 

Nemendur ákveða með hvaða hætti þeir útfæra afurð verkefnisins, þeir geta gert ljósmynd, slagorð, ljóð, myndband, leikverk, tónlist, gjörning, auglýsingu, skrifað bréf eða grein í blað eða hvað sem þeim dettur í hug.

Sama hvað þið gerið, þá er lykilatriði að deila því með öðrum, t.d. á samfélagsmiðlum skólans, hengja upp veggspjöld í kjörbúðinni, hafa samband við KrakkaRúv, RúvNúll, tala við fjölskyldu og ættingja o.s.frv. Að auki er verkefnið kynnt á lokakynningu fyrir bekkinn.

Hvernig ætlið þið að hafa áhrif?

Hverjum er verkefnið beint að?

Hvernig ætlið þið að miðla upplýsingum?

 

5. Ályktanir og niðurstöður

Hvernig tókst til? Náðuð þið að hafa áhrif?
Tókst ykkur ætlunarverkið? Hverju komust þið að?
Vöknuðu einhverjar nýjar spurningar við verkefnavinnuna?
Hvernig væri hægt að vinna áfram með verkefnið?

Lokakynning
Verkefnin eru kynnt í munnlegri kynningu fyrir bekkinn/ samnemendur/ foreldra.
Hvernig hyggist þið kynna verkefnið á lokakynningu? Athugið að mikilvægt er að vanda kynninguna og grípa athygli áhorfenda. Hæfilegur tími kynningar er 5 mínútur. Góð ráð um munnlegar kynningar.

Þið hafið áhrif! Þið hafið völd!
Ef ekki þú hver þá?

Ítarefni

Nemendamiðað nám er eitt af einkennum menntunar til sjálfbærni. Þá er nemandinn í brennidepli og hann hefur áhrif á efnistök og þær leiðir sem farnar eru í náminu. Nemandinn er virkur í eigin þekkingarleit og kennarinn er leiðtogi, verkstjóri sem færir honum verkfæri og styður við hann. Kennarinn þarf ekki að vera sérfræðingur í öllu og spyr frekar spurningar en að svara. 

Skólar á grænni grein eru leiðandi í menntun til sjálfbærni á Íslandi. 

 

Verkefnið birtist fyrst í verkefnasafni rafbókarinnar Hreint haf sem var gefið út 2019 og 2020 af Landvernd og Menntamálastofnun. Höfundur er Margrét Hugadóttir 

 

Tengt efni