Kryfjum vandamálið til mergjar – þankahríð og hugarkort

8 manns sitja við borð sem á er blað í laginu eins og ský. Þankahríð og hugarkort til að greina vandamál
Nemendur greina vandamál, fara í þankahríð og gera hugarkort þar sem þeir velta upp mörgum hliðum og greina svo hversu auðvelt eða erfitt er að leysa vandamálið. Aðferðinni má beita á flest vandamál.

Nemendur skilgreina vandann með þankahríð, gera hugarkort og meta svo hve auðvelt eða erfitt er að leysa verkefnin sem framundan eru.

Unnið er með eitt vandamál tengt loftslagsmálum sem nemendur velja og þá langar að vinna með.

Athugið að loftslagsbreytingar hafa víðtæk áhrif. Þær felast ekki einungis í breytingum á veðri heldur einnig á lífríkinu, vistkerfum, samfélögum, menningu fólks, pólitík o.fl.

Aldur: Allur aldur. Yngri nemendur fá aðstoð við að gera hugarkort.

Tími: 2-4 kennslustundir.

Markmið: Að nemendur skoði vandamál frá ýmsum hliðum í hóp og greini hve auðvelt eða erfitt er að leysa vandamálin.

Aðferð:
Veljum vandamál
Nemendur velja eitt vandamál tengt loftslagsmálum sem þeir hafa áhuga á.

Útfærsla
Hópar velja viðfangsefni saman
Kennari skiptir nemendum í 3-4 manna hópa. Nemendur velja sér viðfangsefni í sameiningu.

Að velja í hópa eftir áhugasviði
Allir nemendur skrifa eitt vandamál sem þeir vilja vinna með á lítinn miða og nafnið sitt með. Kennari flokkar svo vandamálin í flokka og skiptir nemendum upp í hópa eftir viðfangsefnum.

Skilgreinum vandamálið
Fyrsta verkefni hópsins er að skilgreina vandamálið. Hvað þýðir þetta nákvæmlega?

Nemendur reyna að skilgreina vandamálið að bestu getu. Kennarinn sér til þess að allir í hópnum séu virkir, með því að spyrja óvirka leiðandi spurninga. Svarið þarf ekki að vera 100% rétt. Það er mikilvægara að allt sem nemendur vita um málið fari á blaðið án þess að dæma það.

Hugarkort
Nemendur fara í þankahríð og gera einfalt hugarkort þar sem vandamálið er í miðjunni.

Þeir velta fyrir sér: Af hverju er þetta vandamál? Hverjar eru orsakir og afleiðingar? Nota má örvar til að sýna fram á tengsl hluta. 

Er auðvelt eða erfitt að breyta?
Nemendur skoða hugarkort sín og vega og meta hversu erfitt eða auðvelt er að breyta þáttunum á kortinu. Þau lita rautt það sem er mjög erfitt að breyta, gult það sem hægt er að breyta en vantar gjarnan smá hjálp við, og grænt það sem er tiltölulega auðvelt að fara strax í að hafa áhrif á og breyta.

Veljum okkur viðfangsefni
Nemendur velja núna einn þátt sem er litaður grænn eða gulur. Þau halda áfram að vinna með þennan þátt, þannig að það er mikilvægt að þau velja þátt sem þau hafa áhuga á að takast á við.

Næstu skref.
Nú hafa nemendur valið sér viðfangsefni sem þeir vilja vinna að. Hægt er að vinna áfram með það í verkefnunum: SkelinHafðu áhrif o.fl.

Ítarefni
Gætið þess að leiðbeina nemendum í eigin þekkingarleit þannig að þeir velji sér viðfangsefni sem þeir hafa áhuga á án þess að stjórna beint hvað þeir velja.

Í þankahríð er mikilvægt að leyfa öllum röddum að heyrast og skrifa allt niður á blaðið – þó það sé kannski ekki 100% rétt. Mikilvægt er að allir fái að hafa áhrif. Í áframhaldandi vinnu er svo unnið úr upplýsingunum. 

Vandamálin geta verið af öllum stærðum og gerðum.

Dæmi um vandamál:

Í skólanum okkar er mikið af mat hent í ruslið.

Kjötframleiðsla hefur meiri áhrif á umhverfið en ræktun grænmetis.

Bruni jarðefnaeldsneytis veldur hlýnun jarðar.

Stórfyrirtæki sem menga mikið eyða milljónum í kynningarefni sem lætur fólk halda að það sé ábyrgð einstaklingsins að leysa loftslagsvandann.

Eitt af 100 mest mengandi fyrirtækjum í heiminum er með rekstur á Íslandi og mengar einnig hér.

Stjórnvöld leyfa stórum fyrirtækjum að menga en láta alla ábyrgðina yfir á einstaklinga að draga úr sinni persónulegu losun koltvíoxíðs.Í skólanum okkar er mikið af mat hent í ruslið.

Tengd verkefni