Nemendur fara á einhvern stað úti við til að skrifa í vasabækur sem þeir hafa búið til sjálfir. Vasabókin er sérstök aðferð til að halda til haga minningum og hugmyndum um ýmislegt úti í náttúrunni. ofl. Í hana eru skráð hughrif, tilfinningar og athuganir en þar geta og varðveist mikilvægar upplýsingar. Verkefnið hentar vel 10 – 25 ára

Aldur:  10 – 25 ára

Markmið:

  • Að nemendur fái tækifæri til þess að upplifa og skynja náttúruna
  • Að nemendur þjálfist í skráningum á náttúrufyrirbrigðum sem koma þeim fyrir sjónir
  • Að nemendur tileinki sér aðferðarfræðina á bakvið það að skrá í vasabók
  • Að nemendur geti sett athuganir sínar og lýsingar fram í skrifuðu máli og myndrænt.

Efni og áhöld: blöð til þess að útbúa vasabók eða bækur sem hægt er endurnýta sem vasabók, skriffæri

Framkvæmd:

Nemendur fara á einhvern stað úti við til að skrifa í vasabækur sem þeir hafa búið til sjálfir. Mælt er með því að vasabókin sem búin er til í þessu verkefni sé notuð í öðrum verkefnum til að skrá upplýsingar, athuganir, hugleiðingar ofl.

Undirbúningur

Áður en farið er út er föndurpappír og ljósum vélritunarblöðum dreift og nemendur búa til vasabækurnar sínar. Pappírinn og blöðin eru brotin í tvennt og blöðin sett innan í pappakápu. Heftað er meðfram brotinu til að bókin haldist saman. Nemendur fá merkipinna og liti til að þeir geti teiknað á kápuna og skrifað þar nafn sitt og heiti bókarinnar. Einnig má búa til eða kaupa veglegri bækur en þær sem hér hefur verið lýst.

Rætt um gildi vasabókar. Í hana eru skráð hughrif, tilfinningar og athuganir en þar geta og varðveist mikilvægar upplýsingar sem hægt er að leita uppi. Þar má finna upplýsingar um breytingar á vistkerfum, gróðurfari og stofnstærðum dýra auk viðhorfs til ýmissa atriða. Hún getur geymt jafnt ímyndanir sem orð.

Útivinna

Farið er út á einhvern notalegan stað með bækurnar og ritföng. Staðurinn gæti verið á skólalóðinni þegar himinn er heiður og blár eða einhversstaðar þar sem nýtur útsýnis til fjalla, yfir vatn eða sjó, næstum hvar sem er frá skólalóð til óbyggða.

  • Nemendur eru beðnir að sitja hljóðir og leggja við hlustir eftir hverju hljóði. Þeim er sagt að horfa „út í bláinn“, þ.e. beina ekki sjónum að neinu sérstöku heldur skynja umhverfi sitt allt í senn.
  • Nemendur geta byrjað á að snúa höfði og renna augum yfir umhverfið þangað til þeir hafa vanist því að sjá án þess að horfa sérstaklega á eitthvað eitt. Þessi aðferð er gagnstæð því að hvessa augun á eitthvað, fylgja t.d. fugli á flugi nákvæmlega með augunum og skoða hann vel. Þegar horft er „út í bláinn“ sést allt, fjöll, himinn og jörð, dýr fara inn í myndina og út úr henni aftur og hlýja sólarinnar eða svali golunnar er hluti af skynjuninni.
  • Nemendur eru hvattir til að horfa á báða vegu og bera saman það sem þeir skynja og sjá. Báðar þessar aðferðir við að horfa eru gagnlegar.

Talað er við nemendurna um það sem þeir sjá, skynja og taka eftir. Þarna, þegar nemendur sitja hljóðir, getur verið gagnlegt að nota sjónsköpun og eru nemendur þá beðnir að loka augunum og gera sér í hugarlund það sem kennarinn lýsir, í þessu tilfelli eitthvað sem eykur næmni þeirra fyrir staðnum sem þeir sitja á.

Dæmi: „Þú ert bláberjalyng á þúfu. Finndu hvernig ræturnar grafa sig djúpt ofan í jarðveginn. Finndu hvernig regnið sem féll í nótt sytrar um jarðveginn í kring um þig. Finndu stóra steininn í moldinni sem þú hefur vafið rætur þínar um. Finndu hvernig golan leikur um lauf þín og sólin hitar þau þegar þú teygir þig í átt til hennar“ 

Einnig má lesa úr skrifum einhverra náttúruunnenda.

Nemendur fá nokkurn tíma, u.þ.b. 15 mínútur er ágætur tími í upphafi, til að byrja að venjast því að nota vasabók. Hægt er að leiðbeina nemendum með einhver verkefni eða hver og einn finnur sér rólegan stað til að teikna eitthvað sem hann eða hún sér. Hægt er að byrja á að skrifa stutta lýsingu eða ljóð um það hvernig þeim finnst að vera úti á þessum til tekna stað og tíma. Mikilvægt er að leggja áherslu á að þetta er þeirra vasabók, þau geta sett í hana það sem þau vilja. Hún er ekki eins og dagbók sem e.t.v. er skrifað í á hverjum degi heldur er þetta sérstök aðferð til að halda til haga minningum og hugmyndum um ýmislegt úti í náttúrunni. Nemendur eru hvattir til að taka vasabókina með sér, stinga henni í bakpoka eða tösku, stundum þegar þeir fara út og helst gera sér það að reglu. Það er sérstaklega mikilvægt þegar þeir eru einir úti, t.d. á leið í eða úr skóla, á gönguferð um helgi eða í tjaldútilegu með fjölskyldu sinni o.sfrv. Eitthvert þeirra er e.t.v. næsti Jónas Hallgrímsson.