Nemendur fræðast um mismunandi búsvæði og lífverur innan þeirra. Valið er búsvæði einhverrar lífveru og fundinn staður innan þess. Nemendur þurfa að komast í nána snertingu við búsvæði dýrs eða plöntu sem þeir ímynda sér. Nemendur telja upp einkenni og eiginleika lífverunnar og úr verður einhverskonar ljóð. Verkefnið fyrir 8-12 ára

Aldur:  8 -12 ára

Tími: 1 kennslustund

Markmið:

Að nemendur læri um mismunandi búsvæði lífvera

Að nemendur átti sig á mismunandi einkennum og eiginleikum lífvera

Að nemendur njóti og skoði náttúruna í kring

Efni og áhöld: Skriffæri og blað

Framkvæmd:

Valið er búsvæði einhverrar lífveru og fundinn staður innan þess. Nemendur þurfa að komast í nána snertingu við búsvæði dýrs eða plöntu sem þeir ímynda sér. Þeir gætu legið á bakinu og horft upp í himininn um stund, hlustað og þefað. Þeir mega ekki skemma neitt á búsvæðinu og þurfa að vera nógu nálægt kennaranum til að heyra fyrirmæli hans. Hver nemandi skrifar eitt orð sem segir til um hvers konar lífvera hann hefur kosið að vera. Í næstu línu eru skrifuð tvö orð sem útskýra hvernig lífveran lítur út. Í þriðju línu eru þrjú orð sem lýsa hvernig lífveran hreyfir sig eða hvar hún lifir. Í fjórðu línu koma tvö orð sem lýsa hver áhrif lífveran hefur á búsvæði sitt eða hvernig hún lifir. Í síðustu línuna kemur eitt orð sem segir hver lífveran er.

Dæmi:

Fugl

stór, sterkur

sveimar, steypist, grípur

rænir, veiðir

haförn

Til viðbótar

Ímyndið ykkur að þið getið farið um Ísland eins og það var áður en fólk settist þar að. Skrifið um það sem þið sjáið, landslag, gróður og dýralíf. Lýsið tilfinningum ykkar.