Hugsanir okkar hafa áhrif á líðan og hegðun, hugsanir geta valdið líkamlegum viðbrögðum. Leikur sem fær okkur til þess að velta því fyrir okkur hvernig við finnum fyrir kvíða. Hentar öllum aldri

Loftslagskvíði er að mörgu leyti sambærilegur öðrum kvíða. Við eigum það til að finna fyrir kvíða þegar okkur finnst eitthvað ógna okkur. Það merkilega við kvíða er að hann kemur þegar okkur er ógnað en líka þegar við upplifum eða hugsum um ógn. Að upplifa kvíða er ekki hættulegt en getur verið óþægilegt. Kvíði er náttúrulegt viðbragð líkamans sem er til staðar akkúrat á þeirri  stundu sem við skynjum ógn. Það er mikilvægt að tala um það ef þessi tilfinning bankar oft upp á.  

Loftslagskvíði er mjög raunverulegur og þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem ógnar okkur er ekkert skrítið að við verðum kvíðin, vonlaus, döpur, pirruð eða jafnvel reið. Allskonar tilfinningar geta látið á sér kræla og þá er gott að muna að tilfinningar eru ekki hættulegar þó þær geti verið óþægilegar. 

Mikilvægt er að muna að tilfinningin kvíði kemur í bylgjum, ræsist, nær hámarki og fjarar síðan út. Þegar við upplifum kvíða þá eykst blóðflæði til stórra vöðva og minnkar til handa og fóta. Stundum sér fólk hendur og fætur fölna eða finnur fyrir máttleysi, kulda og doða. Hjartsláttur verður hraður og við öndum örar, sumir finna jafnvel fyrir svima og óraunveruleikatilfinningu. Við getum upplifað magaverki og sjóntruflanir á meðan kvíðinn stendur yfir. 

 

Hugsanir okkar hafa áhrif á líðan og hegðun. 

Lokaðu augunum og ímyndaðu þér að þú haldir á safaríkri sítrónu sem búið er að skera í tvennt. Taktu hana upp og smakkaðu!  

Hver eru viðbrögð líkamans?  
Finnur þú hvað sítrónan er súr? 
Fékkstu vatn í munninn?  

Hugsanir geta valdið líkamlegum viðbrögðum. Það gerist sjálfkrafa, jafnvel þó að þú vitir að þú ætlir ekki að borða sítrónu í alvörunni.