Hlutverkaleikur sem opnar augu nemenda á þeim áhrifum sem aukin hnattvæðing kann að hafa á matvælaframleiðslu. Nemendur eiga að átta sig á mismunandi hagsmunum og ígrunda hvernig núverandi hagkerfi ýtir undir núverandi framleiðsluhætti. Nemendur ræða síðan hvaða lög og reglur þurfi til þess að breyta slíkum framleiðsluháttum með umhverfið, dýravelferð og hnattrænt réttlæti í huga. Verkefni fyrir 16 – 100 ára.

Aldur: 16-100 ára

Tími: 120 -160 mín

Markmið:  

  • Að nemendur átti sig á ýmsum áhrifum hnattvæðingarinnar
  • Að nemendur setji sig í spor mismunandi hagsmunaaðila til að skilja ólík sjónarmið
  • Að nemendur efli getu sína til aðgerða með því að ræða hvaða kerfisbreytingar þurfa að eiga sér stað og með hvers konar lögum og reglum, til þess að breyta ósjálfbærum framleiðsluháttum

Framkvæmd:

Í byrjun er lesin eftirfarandi texti:

Lífsstíll vestrænna ríkja er einungis mögulegur vegna þess að við erum að nýta náttúrulegar auðlindir og mannafla annara landa okkur til hagsbóta. Hnattvæðingin hefur stóraukið þennan framleiðslu- og viðskiptamáta þar sem fyrirtæki eru að úthýsa kostnaði til annara landa (externalisation). Tökum sem dæmi verksmiðjuframleiðslu á svínakjöti í Þýskalandi. Þar eru svín eru fóðruð á soja sem er flutt inn frá Suður-Ameríku. Þar er verið að eyðileggja regnskóga og grasland í stórum stíl til að rækta soja. Í Þýskalandi er síðan framleitt meira kjöt en þarf fyrir innanlandsmarkað og er það kjöt selt mjög ódýrt til annara landa. Bændur í þeim löndum geta síðan ekki lengur selt sitt kjöt nema ef þeir eru einnig að nota soja frá Suður-Ameríku sem fóður. Kostnaðarhagræðið fyrir þýskan svínakjötsframleiðenda sem verður til vegna skaða á einum stað (eyðileggingu regnskóga) leiðir til viðbótar af sér næsta skaða í öðru landi þar sem bændur þar verða undan í þessu samkeppni. Hér er verið að aftengja orsakir og afleiðingar og dreifa þeim yfir allan hnöttinn og úthýsa ekki bara kostnaði heldur einnig öðrum neikvæðum afleiðingum til annara landa.

Hnattvæðingin eins og hún er stunduð í dag í gegnum óheft markaðshagkerfið gerir okkur í ríkum löndunum kleift að taka það sem við þurfum hvaðan sem er og að úthýsa því sem er óþægilegt og óhagkvæmt fyrir okkur. Ríku löndin eru einnig að flytja út úrgang í stórum stíl. Hvort sem við erum að tala um plast, raftæki eða föt þá fer stór hluti af þessum úrgangi til fátækra landa t.d. í Asíu eða Afríku. Við úthýsum líka hlut af kolefnislosun vegna lífsstíls okkar þar sem hvert land ber einungis ábyrgð á losun sem verður til í eigin landi samkvæmt Parísasamkomulaginu. Þar með bera t.d. ýmis fátæk lönd sem framleiða vörur handa okkur í ríku löndunum ábyrgð á þeirri kolefnislosun sem verður til við þessa framleiðslu.

Umræður um málið:

Kennarinn leiðir umræður til þess að dýpka skilningin um málið. Hér er m.a. hægt að ræða af hverju það er svo ódýrt að kaupa soja frá Suður-Ameríku, af hverju er erfitt að stoppa eyðileggingu regnskóga þar, hvar liggur óréttlætið, hvaða kjöt mynduð þið velja að kaupa – ódýra svínakjötið frá Þýskalandi eða dýrara svínakjöt frá Ungverjalandi o.s.frv.

Hlutverkaleikur:

Hér bregða nemendur sér í hlutverkaleik undir eftirfarandi formerkjum: Evrópusambandið er að skipa nefnd sem á að endurskoða lög og reglur um kjötframleiðslu innan sambandsins með heimsmarkmið Sameinuðu Þjóða að leiðarljósi. Til þess kallar nefndin saman mismunandi hagsmunaaðila. Á þessum fundi kallar nefndin saman hagsmunaaðila sem eru tengdir svínakjötsframleiðslu. Á fundinum eru (hægt að breyta eftir aðstæðum):

  1. Formaður nefndarinnar (leiðir umræður og horfir til heimsmarkmiða)
  2. Annar nefndaraðili (sérfræðingur um alþjóðaviðskipti)
  3. Þriðji nefndaraðili (sérfræðingur um sjálfbæra þróun)
  4. Hagfræðingur
  5. Eigandi svínaverksmiðjubús í Þýskalandi
  6. Bóndi sem stundar lífrænni framleiðslu á svínakjöti í Þýskalandi
  7. Eigandi svínaverksmiðjubús í Ungverjalandi
  8. Neytandi í Þýskalandi
  9. Neytandi í Ungverjalandi
  10. Aðili í umhverfisverndarsamtökum
  11. Aðili í samtökum um mannréttindi
  12. Aðili í neytendasamtökum

Formaður nefndarinnar gerir grein fyrir stöðu mála samanber textanum að ofan og þeirri tilskipun um að ræða málin m.t.t. heimsmarkmiða. Síðan er farið skipulega í gegnum heimsmarkmiðin (hægt að ræða nokkur markmið í einu) og hver og einn fær að segja sína skoðun á málinu. Síðan á að ræða hvað þarf að gera og breyta til þess að stuðla betur að heimsmarkmiðum. Í lokin eiga fundaraðilar að koma sér saman um hverju þarf að koma í framkvæmd og hvernig.

Verkefnið er hluti af óútgefinni handbók eftir Guðrúnu Schmidt um menntun til sjálfbærni sem gefin verður út af Skólum á grænni grein, Landvernd og Menntamálastofnun.