Nemendur velta því fyrir sér hvernig við getum unnið með neysluþríhyrninginn í tengslum við jólahátíðina og stuðlað að grænum umhverfisvænum jólum. Verkefnið hentar nemendum á öllum aldri.
Neyslujólatré Landverndar, landvernd.is

 

Í þessu verkefni er sjónum beint að neyslu okkar í kring um jólin. Þó að jólin séu oftast gleðileg, þá fylgja þeim oft mikil neysla og sóun. Það sem við getum gert er að endurhugsa hlutina, án þess að það komi niður á jólaskapinu.

Hugleiðingar

Við getum endurhugsað áður en við kaupum hlut handa okkur sjálfum eða til gjafar.

 • Er hluturinn nytsamlegur?
 • Þarf ég eða viðtakandinn á hlutnum að halda?
 • Er hægt að kaupa hlutinn notaðan eða væri betra að að gefa upplifun?
 • Er hægt að gefa hluti sem hverfa sem að mestu eins og matvæli, kerti og sápur?
 • Get ég frekar valið vörur sem eru framleiddar á umhverfisvænan hátt og vörur sem skaða ekki umhverfið?
 • Get ég valið vörur sem eru með engar eða umhverfisvænar umbúðir?

Við nýtum hluti mislengi og á endanum þurfum við að losa okkur við þá.

Oft sjást svartar yfirfullar ruslatunnur eftir jólin þar sem glittir í jólapappír, umbúðir og matarafgangar sem fólk vill losa sig við. Það minnir okkur á hversu mikil neyslan er. Í svörtu tunnunum er óflokkað rusl sem fer í urðun, sem þýðir að það er grafið ofan í jörðina, það er eitthvað sem við viljum ekki.

 • Hvernig getum við endurhugsað jólin þannig að þau verði umhverfisvænni?
 • Getum við sleppt einhverju sem við erum vön að kaupa?
 • Getum við afþakkað gjafir eða beðið um gjafir sem eru umhverfisvænar?
 • Getum við gefið gjafir sem við vitum að nýtist vel og menga ekki umhverfið? Hvernig gjafir eru það?
 • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir matarsóun á jólunum?
 • Á hvern hátt er hægt að endurnýta hluti þegar við höldum jól, varðandi gjafir, mat, jólaföt og skraut?
 • Nefndu dæmi um gjöf sem er ekki umhverfisvæn, af hverju er hún það ekki?
 • Stundum er talað um að bílskúrar landsins séu fullir af fótanuddtækjum, af hverju er það, hvað er átt við með því?
 • Hvernig jólatré er umhverfisvænust?
 • Hvernig getum við á bestan hátt endurflokkað hlutina sem við viljum losna við sem tengist jólum? T.d. mat, jólapappír, umbúðir, jólatré, mandarínukassa, gjafir sem hittu ekki í mark o.fl.?

Aðferð

Nemendur kynna sér málin og velta fyrir sér lausnum.

Hvernig getum við haldið græn jól?

Nemendur velja sér nokkrar spurningar til þess að vinna með og finna svörin.
Það má líka vinna verkefnið í hópvinnu. Hver hópur tekur fyrir eina eða fleiri spurningar.
Nemendur gera einn hlut til að stuðlar að grænni jólum og segir frá því hvað það er.
Nemandinn velur einn hlut sem hann ætlar að koma til skila til fjölskyldunnar og segir frá hvað það er.

Afrakstur

Hægt er að gera glærukynningu, Instagramsíðu, TikTok, myndband eða nýta sér aðra möguleika.
Verkefnin eru kynnt fyrir öllum bekknum.

Nemendur velta því fyrir sér hvernig við getum unnið með neysluþríhyrninginn í tengslum við jólahátíðina og stuðlað að grænum umhverfisvænum jólum. Í þessu verkefni er sjónum beint að neyslu okkar í kring um jólin. Þó að jólin séu oftast gleðileg, þá fylgja þeim oft mikil neysla og sóun. Það sem við getum gert er að endurhugsa hlutina, án þess að það komi niður á jólaskapinu

Tengt efni

torfbæir í vetrarbúning, landvernd.is

Gömlu góðu jólin

Í þessu verkefni lesum við texta um jólin á fyrri tímum. Textinn skiptist í stutta kafla. Þegar búið er að lesa textann á að finna ...
Skoða verkefni
Mynd af púsli, landvernd.is

Jólaleg púsluspil

Það er skemmtileg þraut að púsla, stundum gerist það að eitt og eitt púsl týnist og púsluspilið er ekki lengur nothæft, því geta ónothæf púsluspil ...
Skoða verkefni