Flest sveitarfélög bjóða íbúum og stofnunum, eins og skólum að flokka plast, pappír og lífrænan úrgang. Það sem ekki er flokkað kallast almennt rusl og það er í flestum tilfellum urðað eða brennt. Í þessu verkefni rannsaka nemendur hvað verður um almenna ruslið þeirra. Hvert fer það?

Markmið
Að nemendur:
• geri sér grein fyrir því að það sem lendir í ruslinu hverfur ekki heldur skilar sér á urðunarstað eða í brennslu.
• átti sig á mikilvægi þess að minnka magn þess sem er sett í almennt rusl.
• læri um urðunarstaði.

Lykilspurningar
Hvað verður um ruslið sem er ekki flokkað?
Hvert er farið með það?
Hvar verður það eftir 100 ár?
Notaðir þú einnota bleyjur? Hvað ætli þú hafir notað margar bleyjur á ævinni? Hvar eru þær núna?

Aðferð
Flest sveitarfélög bjóða íbúum og stofnunum, eins og skólum að flokka plast, pappír og lífrænan úrgang. Það sem ekki er flokkað kallast almennt rusl og það er í flestum tilfellum urðað eða brennt.

Urðun er að grafa rusl í jörðina. Ólífrænt rusl eins og plast eyðist ekki heldur brotnar niður í smærri einingar líkt og örplast. Allt plast sem framleitt hefur verið og ekki verið brennt er ennþá til. Líklega eru allar einnota bleyjur sem þú notaðir ennþá til á þeim ruslahaugum sem farið var með almenna ruslið á í æsku þinni.

Hvert fer ruslið sem fer í almenna ruslið í þínum skóla?

Farið á stúfana og kannið hvar ruslatunnurnar eru.
Hvað er í þeim?

Ræðið við umsjónarmann fasteigna, húsvörð, skólaliða, skólastjóra eða skrifstofustjóra um hvert ruslið fer eftir að það fer frá ykkur.

Ef þau geta ekki svarað ykkur þurfið þið að hringja í það fyrirtæki sem þjónustar skólann og flytur ruslið frá skólanum.

Ræðið þetta við fjölskylduna.

Getur skólinn/fjölskyldan gert eitthvað til að draga úr magni almenna ruslsins?

Birtist áður hér: Margrét Hugadóttir. (2020) Hreint haf. Menntamálastofnun.