Dagur íslenskrar náttúru #DÍN 2021

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur þann 16. september ár hvert, landvernd.is
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert. Í tilefni af deginum fá skólar send verkefni til að vinna að.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru einstaklingar, skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að hafa daginn í huga í starfsemi sinni.

Þau sem nýta sér samfélagsmiðla í tengslum við daginn eru minnt á myllumerkin #íslensknáttúra og #DÍN.

Skólafólk er hvatt til að gera sér dagamun á Degi íslenskrar náttúru og vinna verkefni með nemendum.

 

Höldum Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan!

Kirkjufellsvatn við Kirkjugil og Illakamb. Vestur af vatnajökli og norður af Torfajökli. Ljósmynd: Chris Burkard.
Kirkjufellsvatn við Kirkjugil og Illakamb. Vestur af vatnajökli og norður af Torfajökli. Ljósmynd: Chris Burkard.

Verkefnalýsingar og leiðbeiningar

Í ár er sjónum beint að tengslum okkar við náttúruna. Forsenda þess að við virðum náttúruna og verndum er að við kynnumst henni, skiljum mikilvægi hennar og finnum fyrir henni.

Við erum náttúra!

Við erum náttúra! er þema verkefnisins í ár og er það útfært sérstaklega fyrir hvert aldursstig grunnskóla. 

Fólk að leiðast við foss. Seljalandsfoss. Dagur íslenskrar náttúru. Við erum náttúran.
Við Seljalandsfoss

Verkefnið er hægt að vinna á skólalóð eða í næsta umhverfi skólans. Um er að ræða einfalt og lifandi verkefni sem krefst lítils undirbúnings og lágmarks skólagagna. 

Yngsta stig: Við erum náttúra

Nemendur búa til mynd af sér í náttúrunni og nota til þess náttúrulegan efnivið.

Miðstig: Ég og náttúran erum eitt

Nemendur taka ljósmyndir þar sem myndefnið eru þeir sem hluti af náttúrunni.

Unglingastig: Hagsmunir náttúrunnar eru hagsmunir mínir

Nemendur búa til lýsingu af stað í náttúrunni sem stendur þeim nærri með það að markmiði að hrífa bekkjarfélaga með sér í að skynja mikilvægi hans.
Miðað er við að vinnsla verkefnanna taki tvær kennslustundir

Miðað er við að verkefnin taki tvær kennslustundir og það er í höndum hvers og eins skóla að ákveða hópaskiptingu. 

Verkefnin krefjast almennt ekki mikils undirbúnings af hálfu kennara en mælt er með að kennarar kynni sér þau vel.

Fögnum Degi íslenskrar náttúru 16. september

Kennarar eru hvattir til þess að nota verkefnið á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september. Hafi skólinn/bekkurinn þegar gert aðrar ráðstafanir til að halda upp á daginn er sjálfsagt að nýta verkefnið síðar og/eða endurtaka það, til dæmis næsta vor þegar umhverfi skólans tekur mið af annarri árstíð.

Eftirfarandi spurningar er gott að hafa í huga í vinnu við verkefnið:

  • Hvað er náttúra?
  • Nefnið dæmi um náttúru
  • Hvernig náttúrulegt umhverfi viljið þið hafa í kringum ykkur?
  • Hvað þurfum við frá náttúrunni til að geta lifað?

Að útgáfu námsefnisins standa Landvernd í samstarfi við Reykjavíkurborg og Miðstöð útivistar og útináms , Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Áður útgefið námsefni fyrir
Dag íslenskrar náttúru