Nemendur læra um kolefnisspor og vistspor og nota reiknivélar til að finna eigið kolefnisspor og vistspor. Verkefni fyrir 12-20 ára.

Nemendur læra um kolefnisspor og vistspor og nota reiknivélar til að finna eigið kolefnisspor og vistspor.

Aldur: 12-20 ára

Tími: 2 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur kynnist hugtökunum vistspor og kolefnisspor og átti sig hvað er líkt og hvað er ólíkt með þeim
  • Að nemendur horfi með gagnrýnum augum á lifnaðarhætti sína
  • Að nemendur þjálfist í lausnaleit við að minnka bæði vistspor og kolefnisspor sitt

Efni og áhöld: Tölva eða snjalltæki.

Aðferð:
Nemendur fá meðfylgjandi texta (sjá neðst) um skilgreiningar á hugtökunum kolefnisspor og vistspor. Einnig er möguleika að útbúa glærukynningu upp úr honum.
Nemendur greina muninn á þessum tveimur hugtökum í stuttum texta og fara síðan inn á reiknivélar sem reikna kolefnisspor (sjá lista um áreiðanlega kolefnisreikna hér að neðan).
Nemendur prófa sig áfram á mismunandi reiknivélum bæði fyrir vistspor og kolefnisspor og svara svo eftirfarandi spurningum:

Hver er munurinn á vistspori og kolefnisspori?

Sérð þú möguleikann á því að minnka kolefnissporið/vistsporið þitt?

Ef já þá hvernig ?

Ef nei þá af hverju ekki?

Sérð þú möguleikann á því að fá fólkið í kringum þig til þess að minnka kolefnissporið/vistsporið þeirra?

Ef já hvernig?

Ef nei þá af hverju ekki?

Ert þú að gera eitthvað nú þegar sem þú veist að hefur jákvæð áhrif á vistsporið þitt? Ef svo er hvað er það?

Eftir að nemendur hafa lokið við að svara er tilvalið að taka umræðu um spurningar með bekknum, nemendur geta þá deilt sínum hugmyndum og fengið nýjar hugmyndir.

Reiknivélar og upplýsingar um kolefnisspor og vistspor
Vistspor: Ecological Footprint Calculator, Global Footprint Network
Kolefnisspor: Kolefnisreiknir, Efla og Orkuveita Reykjavíkur

Kolefnisspor: Kolefnisreiknir Sameinuðu þjóðanna. 
Kolefnisspor: WWF Footprint Calculator , World Wildlife Fund.

Kolefnisspor ríkja heims: Listi yfir losun kolefnis í ríkjum heimsins.

Athugið að þó að flestar reiknirvélanna séu á ensku þá má stilla vafrann, t.d. Chrome þannig að hann þýði fyrir nemendur. Sjá nánar um þýðingar í Chrome hér. 

 

Kolefnisspor

Kolefnisspor er mælikvarði á magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar út í andrúmsloftið við mannlegar athafnir. Það vísar, með öðrum orðum, til þess magns koltvísýrings sem losað er, beint eða óbeint, vegna daglegra athafna, s.s. samgangna, neyslu, heimilishalds, matarsóunar og annars. Lífsstíll hefur því mikil áhrif á stærð kolefnisspors hvers og eins. Til að jafna út kolefnisspor sitt má græða land eða planta trjám sem binda sambærilegt magn kolefnis og losunin segir til um. Góð leið til að minnka kolefnisspor sitt er að minnka neyslu (t.d. keyra og fljúga minna og kaupa minna).

Vistspor

Vistspor er annar mælikvarði á þau áhrif sem mannfólkið hefur á jörðina. Kolefnisspor er ólíkt vistspori að því leyti að kolefnisspor mælir eingöngu áhrif lífsstíls á magn kolefnis í andrúmslofti á meðan vistsporið tekur til mun fleiri þátta. Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum jarðar fólk nýtir við neyslu sína og hve miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Því meiri sem neyslan er því stærra er vistsporið.