Kolefnisspor mælir áhrif lífsstíls manna eða ríkja á magn kolefnis í andrúmslofti. Húsnæði, samgöngur og fæðuval hafa mikil áhrif á kolefnisspor okkar.
Kolefnisspor er því mælikvarði á magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar út í andrúmsloftið við mannlegar athafnir. Það vísar, með öðrum orðum, til þess magns koltvíoxíðs sem losað er, beint eða óbeint, vegna daglegra athafna, s.s. samgangna, neyslu, fæðuvals, heimilishalds, matarsóunar og annars. Lífstíll hefur því mikil áhrif á stærð kolefnisspor hvers og eins.
Reikna má út sitt kolefnisspor í nýjum íslenskum kolefnisreikni, kolefnisreiknir.is. Reikna má út kolefnisspor út frá samgöngumáta á mapmyemissions.com
Minnkum kolefnissporið
Góð leið til að minnka kolefnisspor sitt er að endurhugsa eigin neyslu, t.d. fljúga minna, aka minna og kaupa minna. Einnig er árangursríkt að velja umhverfisvænni fæðu úr heimabyggð, notast við vistvæna samgöngumáta, sleppa flugferðum og hafna óhóflegri neyslu og stóriðju.
Stefnum að kolefnishlutleysi
Stefna Landverndar í loftslagsmálum er að Ísland verði kolefnishlutlaust ríki sem allra fyrst.
Samtökin telja einnig að ganga megi lengra og borga til baka kolefnisskuldarinnar með því að binda kolefni umfram kolefnishlutleysi (net negative emissions). Til þess að það geti gerst þarf að binda kolefni umfram það sem er losað.
Á Íslandi má einnig binda kolefni með því að styðja við Kolvið, Græðum Ísland – öðru nafni CARE sem er landgræðsluverkefni Landverndar, Vistheimt með skólum og Votlendissjóð.
Lesa meira um kolefnisbindingu hér.