Í þessum stutta leik hugleiða nemendur nokkrar yfirlýsingar um loftslagsmál, sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin og ákveða hvort þeir eru sammála þeim eða ekki með því að staðsetja sig á ákveðnum stað í skólastofunni. Rætt verður um niðurstöðurnar. Verkefni fyrir 16-100 ára

Tími: 20 mín 

Markmið:  

 • Að kveikja áhuga nemenda á loftslagsmálum 
 • Að nemendur átti sig á því hvað þeir vita um málið og hvað vantar  
 • Að nemendur mynda sér skoðanir og eru óhræddir við að deila þeim 

 

Framkvæmd: 

Allir eru í stofu þar sem heil lína milli veggja er laus. Kennarinn leggur niður blað þar sem stendur á sammála í vinstra hornið á stofunni, blað þar sem stendur á veit ekki í miðjuna og blað þar sem stendur á ósammála í hægra hornið. Síðan kemur kennarinn fram með eina og eina yfirlýsingu og eiga nemendur að fara á þann stað í stofunni sem er í samræmi við svar þeirra við yfirlýsingunni sem kennarinn setti fram. Dæmi um yfirlýsingar:  

 • Ég skil hvað sjálfbær þróun þýðir 
 • Ég hef kynnt mér Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun 
 • Réttlæti innan og milli kynslóða er lykillinn til þess að ná fram sjálfbærri þróun 
 • Ég skil af hverju loftslagsbreytingar verða og hvaða orsakir liggja að baki 
 • Loftslagsbreytingar munu ekki hafa áhrif á mitt líf 
 • Loftslagsbreytingar hafa nú þegar áhrif, sérstaklega á fólk í fátækum löndum 
 • Afleiðingar loftslagsbreytinga gætir nú þegar hér á Íslandi 
 • Lífsstíllinn í ríkum löndum eins og á Íslandi þarf að breytast og til þess að ná árangri í losun gróðurhúsalofttegunda þarf hver og einn að vera virkur í aðgerðum og taka ábyrgð. 
 • Ég er búin að gera breytingar á lífsstílnum mínum til þess að minnka umhverfisáhrif og er tilbúin í að taka fleiri skref 
 • Stjórnvöld alls staðar í heiminum þurfa að gera meira til að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda 
 • Íslensk stjórnvöld eru nú þegar að vinna á metnaðarfullan hátt að loftslagsmálum 
 • Ég er með loftslagskvíða 

 

Þegar þessu er lokið leiðir kennarinn nemendur í gegnum stutt spjall. Dæmi um spurningar:  

 • Hvaða skoðanir eru oftast til staðar varðandi umhverfismál og af hverju? 
 • Hafa orðið breytingar á skoðunum í gegnum þennan leik? 
 • Hvað vitið þið mikið um loftslagsvána og um aðgerðamöguleika? 

Verkefnið er hluti af óútgefinni handbók eftir Guðrúnu Schmidt um menntun til sjálfbærni sem gefin verður út af Skólum á grænni grein, Landvernd og Menntamálastofnun