Skemmtilegt verkefni sem fær börnin til þess að átta sig á hægt er að endurvinna pappír og skapa úr honum eitthvað nýtt. Hentar 4-12 ára

Aldur: 4-10 ára

Tími: 2-4 kennslustundir

Markmið:

  • Að nýta afgangspappír og að börnin verði sér meðvituð um að hægt sé að skapa eitthvað úr því sem áður fór í ruslið.

Efni og áhöld: Stór bali, vatn, plastfata, töfrasproti, afgangspappír, rammi með fíngerðu vírneti, svampar, flónelstuskur, snúrur og klemmur.

Framkvæmd:

Börnin rífa niður afgangspappír og setja í stóran bala. Pappírinn má vera hvernig sem er, en dagblaðapappír skilur eftir mikið af prentsvertu, sem gerir endurgerða pappírinn dökkan.

Börnin hella vatni yfir (hálffylla balann) og pappírinn þarf að liggja i bleyti í nokkra sólarhringa.

Að því loknu er notaður töfrasproti til að tæta pappírinn þar til hann lítur út eins og þunnur grautur. Eftir því sem grauturinn er þynnri, þeim mun þynnri verða endurgerðu pappírsarkirnar. Til að skreyta pappírinn er hægt að bæta ýmsu út í grautinn, eins og t.d. pappírssnifsum, glimmer, þurrkuðum blómum, pallíettum og efnisbútum.

Grauturinn er þynntur með vatni þar til hann er kominn í ásættanlega þykkt. Ramminn er settur ofan í grautinn í balanum og tekinn hægt upp. Vatnið er látið renna af pappírnum sem settist á netið. Til að ná vatninu betur úr, er ágætt að þerra pappírinn mjög varlega með svampi. Síðan er rammanum hvolft á flónelstusku (sem er aðeins stærri en pappírsörkin) og þrýst varlega með svampinum til að losa örkina af netinu. Því næst er tuskan með pappírnum hengd upp á snúru.

Þegar pappírinn er orðin þurr er tuskan fjarlægð varlega af. Þá eru arkirnar settar í pressu til að slétta þær. Útbúa má pressu úr tveimur  tréplötum og  þvingum.