Verkefni sem stuðlar að minni notkun á plastpokum, nemendur hafa áhrif á nærumhverfið sitt og hvetur aðila innan þess til þess að huga að náttúruauðlindum og umhverfi. Verkefnið hentar 10-20 ára

Aldur: 10 – 20 ára

Tími: 2-4 kennslustundir

Markmið:

  • Að minnka notkun plastpoka í sveitarfélaginu.
  • Að vekja nemendur og samfélagið í heild til umhugsunar um mikilvægi þess að draga úr plastnotkun.
  • Að efla virðingu nemenda fyrir náttúruauðlindum og umhverfi.
  • Að nemendur átti sig á mikilvægi sjálfbærrar nýtingar auðlinda

Efni og áhöld: Gamlar flíkur, gömul rúmföt, gamlir fánar, efnisafgangar, saumavél, tvinni og nál.

Framkvæmd:

Nemendur senda sveitarstjórn bréf þar sem farið er fram á að sveitarfélagið komi að verkefninu, til að mynda með fjárveitingu fyrir efniskostnaði vegna töskusaumsins sem ætti þó að vera hægt að halda í lágmarki með endurnýtingu á ýmiskonar efni. Tilvalið er að nýta tækifærið til að kynna nemendum hvernig mál eru tekin fyrir og afgreidd á vettvangi stjórnsýslunnar.

Nauðsynlegt að áætla tíma fyrir kennara (handmenntarkennara) til að hafa yfirumsjón með verkefninu. Þegar fjárveiting liggur fyrir er tekið til við að hanna, sníða og sauma töskurnar. Sniðugt getur verið að láta nemendur teikna myndir sem síðan eru saumaðar út í töskuna, skreyta þær með þar til gerðum pennum, skrifa á þær texta um mikilvægi umhverfisverndar eða óð til náttúrunnar . Útfærsla á þessum þætti er í höndum hvers skóla.

Í minni skólum er auðveldara að allir nemendur skólans komi að verkefninu, við að sníða, teikna, sauma út mynd og sauma töskuna saman. Að lokum er ein taska afhent á hvert heimili í sveitarfélaginu. Í stærri skólum væri líklega einfaldara að einn árgangur sjái um töskusauminn og fái sínar töskur afhentar.

Það er ágætt að taka fram að þetta verkefni hentar líklega betur í litlu sveitarfélagi, þar sem stjórnsýslan er nálæg og samskipti einföld. Þar sem ekki fæst fjárveiting fyrir efniskostnaði kæmi til greina að selja töskurnar til að hafa upp í kostnað. Enn fremur má nota þetta verkefni í fjáröflunarskyni.

Hægt er að vera í samstarfi við „Pokastöðvar á Íslandi“ en það er samfélagsverkefni sem snýst um að búa til hringrás taupoka í samfélaginu.