Verkefni um rostunga og vistheimt fyrir unglingastig og framhaldsskóla. Verkefnið er hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar og tilheyrir Vistheimt með skólum

Listin að segja frá

Við mannfólkið höfum sagt hvert öðru sögur í þúsundir ára. Allar sögur hafa söguþráð og atburðarás og þær geta verið á ólíku formi; rituðu máli, myndir, dans, myndbönd, ljóð og fleira. Sögur geta verið góð leið til að koma upplýsingum á framfæri því fólk sem fær upplýsingar í gegnum sögu á auðvelt með að tengja við og muna efnið. Góð saga þarf þó að hafa ákveðna uppbyggingu  til að halda athygli hlustandans. Í þessu verkefni lærið þið um rostunga og segið svo frá því sem þið lærðuð.

Rostungar á Íslandi

Rostungar sjást nú sjaldan við Ísland en skemmtileg undantekning á því er rostungurinn Valli (eða Valla) sem heimsótti Höfn í Hornafirði í september 2021. Nýlegar rannsóknir staðfesta að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á landnámsöld, á tímabilinu 800–1200. Á Náttúruminjasafni Íslands er fjallað um þessar niðurstöður, um líffræði rostunga almennt og hvernig landnámsfólkið nýtti rostunga og rostungatennur. Einnig hefur hvarf norrænna manna frá Grænlandi á 15. öld verið tengt ofveiði á rostungum.
Víkingaskip á hafi úti. Rannsóknir benda til að rostungar hafi búið á Íslandi á landnámsöld.
Nýlegar rannsóknir staðfesta að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á landnámsöld, á tímabilinu 800–1200

Verkefni

Samband landnámsfólks við íslenska rostunga. Finnið heimildir, skoðið myndir og myndbönd og segið frá eins og þið viljið. Hér eru nokkrar hugmyndir og vangaveltur sem þið getið skoðað.

  • Hver er rostungurinn Valli?
  • Af hverju dó íslenski rostungastofninn út?
  • Hvað eiga rostungar og fílar sameiginlegt?
  • Hvernig tengdust rostungar norrænu byggðinni á Grænlandi sem hvarf?
  • Finnið heimildir um tengsl landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns við rostunga.
  • Finnið upplýsingar um stöðu rostunga í heiminum í dag. Hvernig eru búsvæði rostunga í dag og væri hægt að fara í vistheimtaraðgerðir til að stækka stofninn? Gætu rostungar lifað á Íslandi í dag?
  • Hvernig er staðan á þeim sjávarspendýrum sem nú lifa við Ísland (selir og hvalir)? Gætu þessar tegundir dáið út eins og íslenski rostungastofninn?
  • Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að fleiri tegundir sjávarspendýra deyi út?

Kennsluleiðbeiningar

Þetta verkefni er hugsað fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla og er hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar . Það ættu allir nemendur að geta tekið þátt í þessu verkefni þrátt fyrir mismunandi lesskilning og getu. Nemendur með lítinn lesskilning geta einfaldað verkefnin, skoðað myndbönd frekar en lesa texta og hægt er að hjálpa þeim við að finna viðfangsefni sem þeim finnst áhugaverð. Nemendur sem ekki hafa náð færni í íslensku gætu fundið dæmi og skoðað heimildir á sínu móðurmáli. Nemendur ákveða með hvaða hætti þeir útfæra afurð verkefnisins, þ.e. skapandi skil.

Þetta verkefni krefst þess að nemendur leiti sjálfir heimilda. Lykilatriði er að þeir læri að lesa allt efni með gagnrýnu hugarfari. Áður en hafist er handa skuluð þið fara yfir einkenni falsfrétta með nemendum og hvernig hægt er að þekkja þær frá raunverulegum fréttum.

Verkefnið birtist áður í bókinni Náttúra til framtíðar.