Hvað á að gera við einhleypa sokka?
Öll þekkjum við þann dularfulla atburð að sokkur úr pari hverfur eftir ferð í þvottavélina. Ástæðan fyrir fjölda stakra sokka er okkur hulin ráðgáta en flest þekkjum við tilvist þeirra á heimilum. Sumir segja að álfur sé að verki og það eina sem hann taki af hverju heimili sé einstaka fallegur sokkur. Aðrir segja að stakir sokkar eigi það hreinlega til að birtast á heimilum fólks. Má þar mögulega kenna huldufólki, stríðnum nágrannaköttum, nú eða sameindaflutningum um!
Allt í einu eru stöku sokkarnir orðnir óskiljanlega margir. Þó að sokkarnir séu stakir þá eru þeir oft úr prýðilegu efni. Á bak við hverja spjör er umtalsverður kostnaður fyrir umhverfið og því um að gera að nota staka sokka til sköpunar og föndurs.
Við viljum auðvitað ekki henda heillegum, fallegum sokkum, svo hvað er í stöðunni?
Tíu ráð fyrir eigendur stakra sokka
1. Búðu til leikfang fyrir hundinn
Búðu til einfalt og ódýrt leikfang fyrir hundinn sem elskar að mega allt í einu leika sér með sokkana þína. Sjá hér.
2. Notaðu stakan sokk sem afþurrkunarklút
Það hentar til dæmis einstaklega vel til að þurrka af rimlagluggatjöldum
3. Búðu til leikfang
Til dæmis sokkabrúðu, bangsa eða dúkkuföt, sjá hér.
4. Þurrkaðu töfflutúss með sokknum
Svo má henda honum í þvottinn og nota aftur. Það er – ef hann skilar sér úr þvottavélinni!
5. Saumaðu litríkan trefil
Búðu til litríkan trefil handa barninu með nokkrum stökum sokkum. Sjá hér.
6. Notaðu staka sokka við flutninga
Hægt er að klæða rúmfætur, borðfætur og fleira í sokka svo að gólfið rispist ekki. Svo má geyma ýmsa smámuni í sokknum svo þeir týnist ekki í flutningunum.
7. Búðu til hárteygjur úr sokknum
Hárteygjur úr sokkum og nælonsokkabuxum skemma ekki hárið og eru endingargóðar. Sjá hér.
8. Skreyttu blómapotta
Klæddu blómapotta á heimilinu í fallegan stakan sokk. Sjá hér.
9. Búðu til sokkapar á barn úr stökum sokki
Hví ekki að búa til nýtt par úr stökum sokki? Sjá hér.
10. Vertu í sitt hvorum sokknum, það er auðvitað auðveldasta lausnin!
Athugið að listinn er ekki tæmandi! Notið hugmyndaflugið!
Tengt efni
No products were found matching your selection.