Náttúruvernd og Hálendisþjóðgarður

Verndum hálendið, landvernd.is
Málþing um náttúruvernd á miðhálendinu, áherslur og sjónarmið varðandi Hálendisþjóðgarð.

Föstudaginn 31. janúar sl stóðu Landvernd, Náttúrverndarsamtök Suðurlands og Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi að Málþingi með yfirskriftinni: Náttúran og Hálendisþjóðgarður. Málþingið var haldið í fundarsal Landgræðslunnar í Gunnarsholti. 

Vel sótt málþing

Málþingið sóttu rúmlega 80 manns og tóku þátttakendur virkan þátt í opnum umræðum að loknum erindum framsögumanna. 

Sem innlegg í góðar og þarfar umræður á Suðurlandi um Hálendisþjóðgarð var viðfangsefni málþingsins náttúruvernd á miðhálendinu, áherslur og sjónarmið varðandi Hálendisþjóðgarð. Í fyrri hluta málþingsins voru framsögumenn Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps; Brita Berglund hjá Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta ráðgjöf. Að kaffihlé loknu tóku þar við Árni Bragason, landgræðslustjóri og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins. Í framhaldi tóku við opnar umræður milli framsögumanna og gesta í sal. 

Samvinna og samráð við hagaðila nauðsynleg

Margvísleg áhersluatriði einkenndu bæði erindi og góðar umræður málþingsins en þá bar mest á því að stofnun Hálendisþjóðgarðs byggir á nánu samstarfi og samráði við hagaðila. Þar t.a.m. segir Halldóra Hreggviðsdóttir í lokaorðum sínum: 

Í máltæki frá Afríku segir: Viljirðu fara hratt ferðu einn en viljirðu komast langt ferðu með fleirum og með fleirum mótum við þjóðgarð á okkar forsendum...

Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafi  og framkvæmdastjóri Alta ráðgjöf
Halldóra Hreggviðsdóttir svarar fyrirspurnum í fundarlok (Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson)
Halldóra Hreggviðsdóttir svarar fyrirspurnum í fundarlok. Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Samskipti skapa ávinning fyrir alla

Brita Berglund greindi þar einnig frá því hvernig samræður og samskipti í náttúruvernd geta skapað ávinning fyrir alla hagaðila og fjallaði hún um raundæmi um náttúrvernd frá Svíþjóð þar sem hagaðilum tókst að fara úr átökum yfir í samvinnu þeirra á milli. 

Á öðrum nótum fjallaði Eva Björk um reynslu íbúa bændasamfélagsins í Skaftárhreppi af Vatnajökulsþjóðgarði þar sem hún snerti m.a. á ýmsum þáttum varðandi afréttarnýtingu og byggðaþróun. Árni Bragason fjallaði í erindi sínu um núverandi ástand lands og landgræðsluaðferðir á landi sem falla munu undir Hálendisþjóðgarð. Árni lagði einnig fram hugleiðingar um hvað þurfi að leggja til grundvallar í verndaráætlun þjóðgarðsins. 

Víðernin eru helsta auðlind Íslendinga

Styrmir Gunnarsson greindi þá frá sinni eigin sýn á Hálendisþjóðgarði en hann telur hin ósnortnu víðerni Íslands á miðhálendinu og önnur víðerni s.s. viðernin á Drangajökulssvæðinu séu ein helsta auðlind okkar Íslendinga og setti hann verndun þeirra í samhengi við verndun fiskimiða þjóðarinnar á sínum tíma. 

Fundarstjóri málþingsins var Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, og stýrði Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, umræðum í fundarlok. 

Landvernd þakkar framsögumönnum, fundar- og umræðustjórum og starfsfólki Landgræðslunnar innilega fyrir vel heppnað Málþing. 

Málþingið var hið fyrsta af fjórum um málefnið. Seinni málþing er fyrirhugað að halda með stuttu millibili á Norðurlandi og Austurlandi og verða auglýst nánar bráðlega.

Málefnalegar og uppbyggilegar umræður áttu sér stað í fundarlok, hér má sjá framsögumenn hlusta af athygli á fyrirspurnir gesta og fundarstjóra (Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson)
Málefnalegar og uppbyggilegar umræður áttu sér stað í fundarlok. Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top