Neysla er allt sem við notum, það sem við kaupum og borðum. Með óhóflegri neyslu hefur mannfólkið í gegnum tíðina skapað gríðarlegt magn úrgangs. Það er mikil sóun að auðlindum, orku og handafli sé varið í vörur sem er svo hent eftir stutta stund, svo ekki sé minnst á þau skaðlegu áhrif sem það hefur fyrir náttúru og samfélög fólks.
Það er mikilvægt að skoða hvernig við getum haft áhrif – hvernig við getum breytt okkur sjálfum og samfélaginu.
Valdeflandi aðferðir - Höfum áhrif
Við getum breytt heiminum og haft áhrif á samferðafólk okkar með því að vera góð fyrirmynd.
Við getum gengið í skólann ef við eigum kost á því, notað almenningssamgöngur eða sameinast um bíla. Við getum hætt að nota einnota umbúðir og borðbúnað og afþakkað óþarfa plast. Í raun þurfum við að endurhugsa neyslu okkar. Getum við sleppt einhverju? Með því að afþakka allan óþarfa, eyðum við minna, þurfum að endurnýta minna og minna fellur til endurvinnslu en áður. Endurvinnsla ætti að vera sísti valkosturinn og í raun neyðarúrræði og lágmarksmengunarvörn.
Notum neysluþríhyrninginn
Í stuttþáttaröðinni Hvað getum við gert? Endurhugsum framtíðina með Landvernd er sjónum beint að neysluþríhyrningnum. Þáttaröðin sýnir á gamansaman hátt hvað við getum gert til að breyta neysluháttum okkar.