Neysla og úrgangur

Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? Við þurfum að endurhugsa framtíðina. Úrgangur og neysla er eitt af þemum Skóla á grænni grein, landvernd.is
Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? Við þurfum að endurhugsa framtíðina. Úrgangur og neysla er eitt af þemum Skóla á grænni grein.

Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? Hvað felur það í sér? Minnka lífsgæðin um leið og við minnkum neysluna? Hvaða hlutir skipta okkur raunverulegu máli í lífinu? Hvað er úrgangur? Hvaðan kemur hann? Getum við takmarkað úrganginn sem fer frá okkur? Hvernig getum við gert það? Hvernig getum við endurnýtt og endurunnið? Af hverju er mikilvægt að takmarka það rusl sem fer frá okkur? Hvaða áhrif hefur það ef við gerum það ekki? 

Hvað er úrgangur?

Stutt svar:

Hráefni eða auðlind á villigötum.

Lengra svar:

Skilgreina má úrgang sem aukaafurð sem fellur til við neyslu eða framleiðslu vöru. Þó mörgum finnist úrgangur vera óæskileg aukaafurð þá er réttara að líta á hann sem hráefni á villigötum, eða jafnvel auðlind, enda hafa eiginleikar hráefnisins ekkert breyst þó það kallist úrgangur. Timbur sem hefur verið hent hefur í flestum tilvikum alveg sömu eiginleika og áður en því var hent og það sama má segja um plast og pappír sem endar í ruslinu. Það er fyrst og fremst viðhorfið til vörunnar sem hefur breyst þegar hún er komin í ruslið. Þetta á einnig við um mat sem endar í ruslinu en í mörgum tilvikum er mat hent sem er fullkomlega í lagi. Samkvæmt forrannsókn sem Landvernd lét gera á matarsóun Reykvíkinga er um 5.800 tonnum af vel ætum mat hent í ruslið á hverju ári í Reykjavík. Þetta gera tæp 50 kg á hvern Reykvíking á ári (Andrea M. Burgherr o.fl., 2015). Í heiminum öllum fara á ári hverju um 1300 milljónir tonna af fullkomlega ætum mat í ruslið (FAO, 2013)!

Úrgangur er ein stærsta 

umhverfisáskorun heimsins

Hugmyndir og tengt efni

Gjafabréf samverustund

Gjafabréf

Hvernig getum við dregið úr neyslu og kaupum á óþarfa í kringum jólin? Gjafabréf eru ein leið til þess! Samvera og ljúfar stundir.
dót í kassa

Litlu jól leikfangaskipti

„Betra er að gefa heldur en að þiggja“ verkefni þar sem þátttakendur öðlast skilning á því að gjafir þurfa ekki alltaf að koma beint ...

Loftslagsrall – stöðvaleikur

Stöðvaleikur þar sem nemendur vinna í hóp og leysa saman hugtakaverkefni tengd loftslagsmálum. Verkefni fyrir 13-100 ára
Ég get, hugleiðingar um loftslagsmál

Ég get, hugleiðingar um loftslagsmál – leikur

Í þessum stutta leik hugleiða nemendur sínar skoðanir á nokkrum málum tengdum loftslagsbreytingum og ræða þær við aðra nemendur. Verkefni fyrir 14 - 100 ára
Loftslagsmálin skoðuð

Loftslagsmálin skoðuð

Í þessum stutta leik hugleiða nemendur nokkrar yfirlýsingar um loftslagsmál, sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin og ákveða hvort þeir eru sammála þeim eða ekki með því ...
Auðlindarverkefni

Hversu mikil er þín auðlindaneysla?

Í þessum stutta leik eru nemendur að velta fyrir sér hegðun sína í daglegu lífi og hversu auðlindafrek hún er. Verkefni fyrir 12-100 ára

Hvaðan kemur allur þessi úrgangur?

Skýringin er fyrst og fremst nútímalifnaðarhættir sem einkennast af mikilli og oft óhóflegri neyslu. Fylgifiskur neyslunnar er gríðarlegt magn úrgangs. Eins og staðan er í dag eykst magn úrgangs í réttu hlutfalli við hagvöxt en neysla er ein forsenda hagvaxtar í nútímahagkerfi. Árið 1995 var heildarmagn úrgangs hér á landi tæp 400.000 tonn en árið 2014 var heildarmagnið komið upp í 800.000 tonn! Úrgangurinn tvöfaldaðist því á tæpum 20 árum (Hagstofa Íslands, 2016).

Úrgangur er ein stærsta umhverfisáskorun sem mannkyn stendur frammi fyrir í dag og leita þjóðir heims lausna í þessum efnum. Stefna Evrópusambandsins er að rjúfa tengslin á milli hagvaxtar og úrgangs þannig að hagvöxtur geti aukist án þess að úrgangur aukist að sama skapi. Í því samhengi er að sjálfsögðu best að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Þann úrgang sem óhjákvæmilega myndast ber jafnframt að líta á sem auðlind og breyta þannig viðhorfinu til hans (Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, 2013).

Best er að koma í veg fyrir myndun úrgangs

 

Hvað verður um allan þennan úrgang?

Á vef Hagstofu Íslands (e.d.) kemur fram að árið 2014 fór um helmingur heimilisúrgangs á Íslandi í urðun, um 10% voru brennd og um 40% fóru í endurvinnslu. Stór hluti úrgangs endar þó úti í náttúrunni og er því ekki inni í þessum tölum. Sem dæmi má nefna að mörg þúsund tonn af rusli enda í Norðursjó á hverju ári og er plast þar eitt stærsta vandamálið. Það er raun ekki vitað með vissu hvort plast brotni til fulls niður í náttúrunni og ef það gerist getur það tekið mörg þúsund ár! Því hefur ekkert af því plasti sem framleitt hefur verið í heiminum náð að brotna niður til fulls. Plastið molnar í örsmáar plastagnir sem valda ekki síður skaða fyrir umhverfið en stærri plasteiningar. Plastagnirnar enda í lífverum, hlaðast upp ofar í fæðukeðjunni og geta haft alvarlegar afleiðingar á heilsu manna og dýra.

Allt plast sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn til, nema að það hafi verið brennt

 

Hverjar eru afleiðingarnar?

Framleiðsla neysluvara skilur í flestum tilvikum eftir sig gífurlegt vistspor m.a. vegna orkunnar sem fer í framleiðslu hennar, flutning til neytanda auk annarra auðlinda sem nýttar eru. Orkan er oft fengin með bruna kola eða olíu sem losa mikið magn koltvísýrings út í andrúmsloftið. Þetta leiðir til aukinna loftslagsbreytinga og hnignunar lífbreytileika, að ekki sé minnst á mannréttindin sem hugsanlega eru brotin í öllu ferlinu. Þetta hljómar nú ekki vel… Öll þurfum við jú að lifa og nærast þannig að það er ómögulegt að sneyða hjá allri neyslu.

VISTSPOR (e. ecological footprint)

Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum Jarðar fólk nýtir við neyslu sína og hve miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Því meiri sem neyslan er því stærra er vistsporið. Vistsporið er mælt í jarðarhekturum en jarðarhektari er reiknuð meðalgeta allra svæða á Jörðinni til að gefa af sér það sem nýtt er og taka við úrgangi á hverju ári. Meðalvistspor heimsins er um 2,7 jarðarhektarar á mann, en geta Jarðarinnar um 1,7 jarðarhektarar á hvern Jarðarbúa. Vistspor mannsins rúmast því ekki lengur innan þeirra marka sem Jörðin getur uppfyllt á sjálfbæran hátt heldur göngum við sífellt á gæði Jarðar án þess að þau nái að endurnýja sig (Global footprint network, 2012).

Vistspor er mælikvarði á hversu mikið af gæðum Jarðar fólk nýtir til að uppfylla neyslu sína og hversu miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér

Munur á vistspori þjóða er afar mikill og endurspeglar ójöfnuð heimshluta. Meðalíbúi á Vesturlöndum hefur til að mynda mun stærra vistspor en meðalíbúi í fátækari löndum og spilar lífstíllinn þar stærstan þátt. Þannig er vistspor Bandaríkjanna og Norðurlandanna um 8 jarðarhektarar á mann á meðan fátækustu lönd heims eru með vistpor nokkuð undir einum jarðarhektara á mann. Samkvæmt útreikningi á vistspori Íslendinga sem Sigurður Eyberg, umhverfis- og auðlindafræðingur gerði árið 2010, er vistspor okkar það allra hæsta sem gerist í heiminum, eða um 12,7 jarðarhektarar! Samkvæmt þeim útreikningum tróna Íslendingar á toppnum sem neyslufrekasta þjóð í heimi, sem er vissulega vafasamur heiður.

Það er því mikilvægt að við horfumst í augu við hvaða áhrif lífstíll okkar hefur á náttúruna og stefnum í átt að sjálfbærari lífstíl!

Hér er hægt að reikna út vistspor einstaklinga.

Getum við gert eitthvað?

Til þess að lágmarka skaðann er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim afleiðingum sem neyslan hefur í för með sér og byrja strax að huga að eigin neyslu. Ein leiðin er að stunda eftir fremsta megni ábyrga og sjálfbæra neyslu.

Sjálfbær neysla er sú neysla sem er umhverfis- og samfélagslega ábyrg. Þegar við neytum einhvers er mikilvægt að gera sér grein fyrir, eftir því sem frekast er kostur, hvaðan afurðin kemur, hvernig hún varð til og hverjir komu að gerð hennar. Oft vinnur fátækt fólk í fjarlægum löndum við framleiðsluna sem býr og vinnur við aðstæður sem aldrei væru samþykktar á Vesturlöndum. Með þessum hætti tengist neysla okkar mannréttinda- og jafnréttismálum annars staðar í heiminum. Ef sem flestir huga að umhverfis- og siðferð- islegum þáttum þess sem þeir neyta eykst eftirspurn eftir vörum þar sem að þessu er gætt í framleiðsluferlinu. Það setur pressu á verslanir og framleiðendur að huga einnig að þessum þáttum. Þannig geta neytendur haft jákvæð áhrif.

Það er því ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga áður en vara er keypt: Hvar og hvern- ig var varan framleidd? Þurfti varan að ferðast víða í framleiðsluferlinu? Hverjir unnu við framleiðsluna? Hvernig eru aðstæður þeirra?

Hvaðan kemur varan? Hvernig varð hún til? Hverjir unnu við framleiðsluna?

Ein mikilvægasta leiðin til að minnka magn úrgangs og stuðla að ábyrgari neyslu er að meta hvort við þurfum raunverulega á vörunni að halda áður en við kaupum hana. Hversu oft þurfum við að skipta um síma, raftæki, bíla, föt og húsmuni? Getum við í staðinn nýtt það sem við eigum eða keypt notaða hluti? Er hægt að nýta það sem við hendum með öðrum hætti? Önnur einföld atriði eru að kaupa umbúðalausar vörur eða vörur í fyrirferðarlitlum umbúðum, fara með fjölnotapoka út í búð, kaupa vörur í stærri einingum, molta lífrænar matarleifar, rækta eigið grænmeti, minnka hlut dýraafurða í fæðunni, sóa ekki mat og kaupa vörur úr heimabyggð svo fátt eitt sé nefnt.

Hversu mikið þurfum við?

 

Af hverju er þetta mikilvægt?

Þó við reynum eftir fremsta megni að minnka þann úrgang sem til fellur við neyslu okkar er erfitt að koma í veg fyrir allan úrgang. Því sem óhjákvæmilega til fellur er best að koma í farveg endurnýtingar eða endurvinnslu. Þannig fer hráefnið sem úrgangurinn sam- anstendur af í hringrás og nýtist sem nýtt hráefni í nýja vöru. Líftími hráefnisins lengist þannig og við komum í veg fyrir að það endi úti í náttúrunni sem mengun. Pappír, plast, málm og gler má endurvinna án þess að gæði vörunnar breytist mikið. Auk þess er yfirleitt notuð mun minni orka við endurvinnslu en við framleiðslu á nýrri vöru.

Helst ætti ekkert sem til fellur að fara í urðun. Við urðun á lífrænum úrgangi myndast t.d. metangas sem er afar öflug gróðurhúsalofttegund, mun öflugri en koltvísýringur. Metanið er þó hægt að nýta sem eldsneyti, t.d. á bíla og er það betra en að það endi í andrúmsloftinu. Sé það ekki gert er lykilatriði að koma í veg fyrir myndun lífræns úrgangs með því að sóa ekki mat og molta það litla sem til fellur.

Endurhugsa, afþakka, einfalda og kaupa minna, endurnýta – endurvinna

Myndin hér að neðan lýsir því hvernig er best að haga úrgangsmálum. Það sem í okkar valdi stendur er að minnka neyslu, endurhugsum hvort að við þurfum á hlutnum að halda, afþökkum það sem við viljum ekki, einföldum og kaupum minna, endurnýtum eins og við getum. Endurvinnsla er okkar sísti valkostur og neyðarúrræði og urðun er ekki einusinni inni í myndinni.  

Við þurfum að endurhugsa neysluna og endurhugsa framtíðina, afþökkum, einföldum og kaupum minna, endurnýtum. Okkar sísti valkostur ætti að vera að endurvinna, landvernd.is
Þarfaþríhyrningurinn úr bókinni Hreint haf.
flokkunar ruslatunnur í skólastofunni

Góð ráð fyrir árangursríka flokkun

Fyrsta verkefni nýrra Grænfánaskóla er oft að koma á flokkun. Hér eru nokkur góð ráð sem hjálpa skólum að ná árangri.
Lesa

Þemað fellur vel að öllum grunnþáttum aðalnámskrár

Hvað getum við gert?

Leikskólar og yngstu bekkir grunnskóla:

  • Endurnota og endurnýta eins og frekast er kostur
  • Nota endingargóða hluti og gera við það sem skemmist
  • Hafa grænmetisgarð við skólann
  • Hafa fataskiptamarkað og/eða flóamarkað í skólanum
  • Hafa skólann plastpokalausan (eða hreinlega plastlausan)
  • Hafa helst ekkert almennt rusl og senda ekkert í förgun eða urðun 
  • Nota taubleiur
  • Molta lífrænar matarleifar
  • Fá neysluvörur úr, eða sem næst, heimabyggð
  • Neyta árstíðabundins matar
  • Lágmörkun úrgangs Endurnotkun, Endurvinnsla
  • Gera átak í matarsóun
  • Hafa kjötlausa daga í hverri viku
  • Hafa fáar ruslatunnur
  • Kaupa í magninnkaupum
  • Reikna og ræða vistspor og finna leiðir til að minnka það • Kanna hvað verður um það sem sent er til endurvinnslu • Fara í vettvangsferð á endurvinnslustöð

Eldri bekkir grunnskóla og framhaldsskólar:

  • Gera myndbönd/verkefni sem hvetja til sjálfbærari lífstíls og ábyrgari neyslu
  • Finna út eigið vistspor og vistspor skólans, ræða það og finna leiðir til að minnka það
  • Huga að þörfum okkar, hverju þurfum við virkilega á að halda og hverju gætum við mögulega sleppt?
  • Taka fyrir tískusóun og ræða um umhverfismál og mannréttindi í því samhengi
  • Gera úttekt á vinsælli verslun, kanna hvort hún hafi stefnu í umhverfis- eða mannréttindamálum og koma með tillögur að úrbótum.
  • Greina hvernig verslanir eru settar upp og af hverju
  • Greina og kanna áhrif auglýsinga og hvort þær séu mismunandi eftir markhópum
  • Skrá neyslu sína í eina viku og reyna að minnka neysluna yfir ákveðið tímabil
  • Greina lífsferil vöru t.d. fatnaðar, raftækis
  • Kynna sér íslenskan landbúnað s.s. áburða- og eiturefnanotkun
  • Kynna sér velferð dýra í landbúnaði, s.s. aðbúnað, fóður og lyfjagjöf
  • Kynna sér framleiðslu á pálmaolíu og þann fórnarkostnað sem hún hefur í för með sér
  • Sýna myndir og myndbönd á netinu um ofantalda hluti

REYNSLUSÖGUR ÚR SKÓLUM:

Nemendur í Dalvíkurskóla upplifðu plastmengun á eigin skinni

Nemendur í Dalvíkurskóla unnu áhugavert verkefni með íþróttakennurum um plast í hafi. Verkefnið fjallaði meðal annars um svokallaða plasteyju í Kyrrahafi sem samanstendur af gífurlegu magni plastúrgangs sem endað hefur í hafinu. Nemendum blöskraði magnið af plasti í hafinu og var þeim gert kleift að upplifa plastmengunina á eigin skinni. Forsvarsmenn sundlaugar Dalvíkur tóku vel í það verkefni að útbúin yrði útgáfa af plasteyjunni í lauginni og var miklu magni af ýmiss konar hreinu plastrusli, flöskum, pokum, umbúðum o.fl. komið fyrir í sundlauginni. Nemendur fengu svo að synda í plastinu sem bæði flaut á yfirborðinu og var ofan í vatninu. Að lokum sáu þeir svo um að hreinsa þetta litla „haf“. Auk þess að læra um plast og plastúrgang fengu nemendur raunverulegri upplifun af þessu gífurlega vandamáli sem steðjar að heimshöfunum. Með þessum hætti varð málefnið enn raunverulegra og áhugaverðara í hugum nemendanna en ella. Verkefnið sýnir einnig hvernig vinna má með sjálfbærni í ólíkum fögum, hér í íþróttum, og tengist þannig grunnþættinum heilbrigði og velferð.

Börnin á Kvistaborg léku sér með rusl í tvær vikur

Leikskólinn Kvistaborg í Reykjavík vann skemmtilegt verkefni þar sem umbúðir fengu nýtt hlutverk. Börnin komu með umbúðir að heiman í leikskólann á mánudegi, aðallega plast-, málm- og pappírsumbúðir. Starfsfólk leikskólans hafði þá fjarlægt öll leikföng af deildunum og áttu börnin að leika eingöngu með umbúðirnar þá vikuna og vinna verkefni um neyslu og úrgang samhliða. Þetta gekk svo vel að ákveðið var að halda áfram að leika með umbúðirnar næstu viku á eftir. Börnunum fannst mjög skemmtileg tilbreyting að leika með „öðruvísi dót“ í leikskólanum. Þegar seinni vikan var á enda bjó hver deild til ruslalistaverk úr umbúðunum sem fékk að standa í dágóðan tíma til sýnis fyrir starfsmenn, börn, foreldra og aðra sem leið áttu um leikskólann. Þetta er skemmtileg leið til að vinna að þemanu með yngstu börnunum og sýnir vel hvernig virkja má heimilin með, sem tengist einmitt einnig skrefi sex, að upplýsa og fá aðra með! Einnig tengist verkefnið grunnþættinum sköpun.

Nemendur í Hrafnagilsskóla verðlögðu óskilamuni

Nemendur í 6. bekk í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðasveit tóku saman alla óskilamuni sem safnast höfðu í skólanum á einum vetri og skráðu verðgildi þeirra. Í ljós kom að samanlagt verðgildi hljóp á hundruðum þúsunda og voru nemendur sammála um að ýmislegt nytsamlegra mætti gera við þann pening en að hann endaði sem óskilamunur engum til gagns. Sem framhald af slíku verkefni væri hægt að rekja lífsferil varanna, þ.e. hvar þær voru framleiddar, hvaðan kom hráefnið, hverjir sáu um framleiðsluna og við hvaða aðstæður. Einnig mætti verðleggja þann fatnað sem hver nemandi er í, ásamt fylgihlutum og gera sambærilegt verkefni. Þetta fellur einnig vel að þemanu hnattrænt jafnrétti og grunnþáttunum jafnrétti og lýðræði og mannréttindi.

Leikskólinn Holt átti frumkvæði að stofnun efnisveitu fyrir allt nærsamfélagið

Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ átti frumkvæði að því að koma á stofn efnisveitu í Rammahúsinu að Fitjum þar í bæ. Í efnisveitu er nothæfum hlutum safnað sem annars hefðu endað sem úrgangur og þeim gefið framhaldslíf af öðrum í samfélaginu sem finna hlutunum nýtt notagildi. Hlutirnir geta verið óseldar birgðir frá verslunum, úrkast frá iðnaði og framleiðslu, gallaðar vörur eða umbúðir. Efniviðurinn þarf að vera hreinn og laus við eiturefni. Efnisveitan byggir á þeirri sýn að með samvirkni ólíkra aðila sé hægt að finna hlutum sem til falla nýja notkun og merkingu og breyta þeim þannig í auðlind í stað úrgangs. Starfsmenn og börn leikskólans hvöttu samfélagið allt til samstarfs í efnisveitunni og er hún nú nýtt af öðrum skólum, heimilum og fyrirtækjum í Reykjanesbæ. Þannig geta allir komið með efni og nýtt það sem er að finna í veitunni. Um áhugavert framtak er að ræða sem einnig tengist skrefi sex, að upplýsa og fá aðra með. Einnig tengist framtakið grunnþáttunum lýðræði og mannréttindi og sköpun.

Leikskólinn Norðurberg notar taubleiur á öll bleiubörn

Leikskólinn Norðurberg í Hafnarfirði er einn þeirra skóla sem hefur verið með í verkefninu frá upphafi þess hér á landi. Leikskólinn hefur verið einstaklega metnaðarfullur í því að draga úr úrgangi og er öðrum skólum fyrirmynd í þeim efnum. Þar sem hluti af stefnu leikskólans er að senda allt í endurvinnslu þannig að helst ekkert fari í urðun var ákveðið strax fyrsta árið hans sem grænfánaleikskóli að vera eingöngu með taubleiur. Hugmyndin kom frá leikskólakennurum sem sáu um börnin á yngstu deildinni. Tekið var mjög vel í hugmyndina af öðru starfsfólki enda almennt ekki hægt að flokka bleiur svo þær enda yfirleitt í urðun. Taubleiurnar eru settar á börnin þegar þau mæta í leikskólann og svo er skipt yfir í þeirra eigin bleiur áður en þau fara heim. Börnin eru því með taubleiur þann tíma sem þau eru í leikskólanum. Að sögn kennara við leikskólann finnst þeim ekki meiri vinna fólgin í því að vera með taubleiur samanborið við aðrar bleiur og mæla þeir heilshugar með þessu.

Verkefnavefir/ námsefni

Úrgangsforvarnir – Nemendahefti

Úrgangsforvarnir – Kennsluleiðbeiningar 

Norðurlöndin í skólanum (Norden i skolen) 

Jörð í hættu!?

Í þínum höndum, námsefni frá Úrvinnslusjóði

Finndu mig í fjöru – strandhreinsunarnámsefni frá Umhverfisstofnun

NaNo – Náttúrufræði á nýrri öld – sorp í framtíðinni

Hreint haf – Ógnvaldar hafsins – Plast

Ruslaeyjan