Verkefnið er hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar fyrir unglingastig og framhaldsskóla og tilheyrir Vistheimt með skólum
Verkefnalýsing:
Í þessu verkefni er unnið með birkifræ og gerðar tilraunir með spírun og vöxt við mismunandi aðstæður. Tilgangur verkefnis er að þið lærið um lífsferil birkisins og hvað þarf að gerast í lífi fræjanna svo þau spíri.
Áætlaður tími fyrir verkefni: Þessi tilraun hefst að hausti þegar fræin eru tínd (eða að vori ef fræ fást gefins) og lýkur að hausti ári síðar þegar fræ hafa spírað og vaxið yfir sumarið. Ef vilji er fyrir hendi þá má halda þessu verkefni gangandi í nokkur ár.
Fyrir hvern? Verkefnið er hugsað fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla en auðvelt er að aðlaga það að yngri nemendum líka.
Fræðsla: Það eru ekki öll birkifræ sem verða að birkitrjám og fyrir því eru margar ástæður. Sum fræ lenda út í sjó, sum grafast of djúpt í jörðu, sum ná að spíra en ekki að róta sig, sum eru étin og sum einfaldlega vakna ekki þrátt fyrir fullkomnar aðstæður. Og það er nú ástæðan fyrir því að hvert birkitré framleiðir svona mörg fræ, í voninni að a.m.k. hluti fræjanna verði að trjám. Birkifræ þurfa líka að lenda á heppilegum stað svo þau nái að dafna.
Birkihnúðmý er örlítil mýfluga sem verpir í rekla birkis í byrjun sumars. Lirfa birkihnúðmýs lifir inni í fræinu. Næsta vor hefur lirfan myndað púpu og síðan skríður birkihnúðmý úr púpunni.
Fræ sem er smitað af lirfum er ónýtt og spírar ekki. Hægt að þekkja þessi fræ frá heilbrigðum fræjum því þau eru bólgin og vængirnir eru litlir og skrýtnir í laginu. Smádýr sem lifa í gróðri eru mikilvæg fæða fyrir fugla og hluti af heilbrigðu vistkerfi.
Undirbúningur: Útvegið birkifræ eða finnið birkitré eða birkiskóg í nágrenni skólans sem hægt er að ná fræjum af að hausti. Í samráði við skólann, sveitarfélagið og jafnvel Landgræðsluna eða Skógræktina, finnið svæði í nágrenni skólans sem gæti hentað fyrir sáningu á birkifræjum og tilraunir. Munið að birkitré geta orðið ansi há og þau þurfa pláss.
Skoðið www.birkiskogur.is til að finna upplýsingar, leiðbeiningar og myndbönd um fræsöfnun og dreifingu.
Verkefnavinna
- Tilraun: Til eru fræ.
Skoðið fræin vel með stækkunargleri eða í víðsjá. Af hverju haldið þið að þau séu svona í laginu? Prófið að láta eitt og eitt fræ falla til jarðar á meðan þið blásið létt á þau. Hvað gerist? Hvað haldið þið að séu mörg fræ á einum rekli? Hvað haldið þið að mikið hlutfall þessara fræja spíri? (Þetta er tilgátan ykkar). Eru einhver fræ sem eru afmynduð og með litla vængi? Hvað gæti verið að þessum fræjum? - Tilraun: Spírun birkifræja.
Setjið nokkur birkifræ í raka bómull á bakka eða disk. Setjið glært lok yfir, t.d. lok af jógúrtdós. Hafið smá bil á milli fræjanna og passið að það sé alltaf raki í bómullinni. Það er gott að vökva á hverjum degi og lofta reglulega. Gerið tilraunina á björtum stað en þó ekki í beinu sólarljósi. Tilraunin tekur 7-15 daga, jafnvel lengur, við herbergishita. Fylgist með því þegar fræin byrja að spíra og skráið niður tímasetningar, mælið vöxtinn og kannið svo í lokinn hversu mikið hlutfall fræjanna spíraði. Voru einhverjar óvæntar uppákomur, t.d. birkihnúðmý? - Tilraun. Vöxtur birkis.
Hér verður skoðað hvort birki vaxi hraðar ef fræjum er annars vegar sáð beint út eða hins vegar sáð inni og síðar sett út. Athugið að einhverjir í bekknum gætu þurft að taka birki í pottum í fóstur heima hjá sér í sumarfríinu og vökva af og til svo plönturnar þorni ekki upp. Það má bæta við og gera tilraunir með fleiri meðferðir á fræjunum, t.d. að sá fræjum strax að hausti, nota áburð og fleira. Athugið að einhverjir í bekknum gætu þurft að taka birki í pottum í fóstur heima hjá sér í sumarfríinu og vökva þær af og til svo þær þorni ekki upp. Það má bæta við og gera tilraunir með fleiri meðferðir á fræjunum.-
- Skiptið þeim fræjum sem þið eruð með í tvo hluta og áætlið hve mörg fræ eru í hverjum hluta.
- Sáið helming fræsins á staðinn sem þið völduð úti. Merkið svæðið vel og afmarkið svo það sé auðvelt að fylgjast með vextinum.
- Sáið hinum helming fræsins í mold í nokkra potta (t.d. eggjabakka eða mjólkurfernur) og setjið á bjartan stað, t.d. vesturglugga. Passið að moldin þorni ekki.
- Yfir sumartímann þá gæti verið áhugavert að hluti pottanna verði áfram inni og hluti þeirra úti á skjólsælum stað, í garði eða á svölum. Haldið vel utan um þessar upplýsingar.
- Fylgist með vextinum í þessum mismunandi tilraunum og skráið hjá ykkur hvernig þeim gengur að vaxa. Hve mikill hluti fræjanna spíraði (var tilgátan ykkar rétt?) og hvenær spíra þau? Mælið spírun og hæð plantna í lok maí og september. Hvaða fræjum gengur best að vaxa, þeim sem sáð var úti eða þeim sem sáð var í potta? Af hverju haldið þið að það sé?
-
Mynd með grein: Birki við Þjófafoss. Rannveig Magnúsdóttir
Verkefnið birtist áður í bókinni Náttúra til framtíðar.