Í þessum hlutverkaleik setja nemendur sig í spor mismunandi fólks í heiminum sem hefur ólíka hagsmuni og tækifæri þegar kemur að landnýtingu (landbúnaði, ferðamennsku og fleira). Út frá þessum hlutverkum þurfa þeir að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ákveðinn ágreining með sjálfbæra landnýtingu að leiðarljósi. Verkefni fyrir 16 til 100 ára.

Verkefnið er stórt og samanstendur af hlutverkaleik, úrvinnslu með svokallaðri „fullyrðinga-aðferð“ (thesis-method) og sýningu.

Tími:

 • Hlutverkaleikur og úrvinnsla: 10-12 kennslutímar
 • Undirbúningur og sýning: 6-8 kennslutímar (ef ekki nægur tími er fyrir verkefnið er hægt að sleppa þennan hlut verkefnisins)

Markmið:

 • Að nemendur geta safnað upplýsingum um eitt þema og skoðað þau með gagnrýninni hugsun.
 • Að nemendur geta greint frá hvaða þýðingu jarðvegshnignun hefur á fólk í fátækum löndum.
 • Að nemendur geta rökrætt þær áskoranir sem innlend og hnattræn jarðvegshnignun hefur m.t.t. heimsmarkmiða.
 • Að nemendur geta skilið flóknar staðreyndir hnattvæðingar með hjálp ákveðinna dæma.
 • Að nemendur geta metið eigin hegðun, m.t.t. auðlindar jarðvegs og gróðurs, og gert sér grein fyrir eigin ábyrgð.
 • Að nemendur geta fundið hugsanlegar lausir fyrir mótsagnarkennda hagsmuni jarðvegs- og gróðurverndar og geta rökrætt þær.

Undirbúningur:

Fyrir þetta verkefni er mikilvægt að nemendur hafa áður fengið góðan grunn í fræðslu um jarðveg og landlæsi, hafa lært að þekkja ástand lands og hvað felst í sjálfbærri landnýtingu. Tilvalið er að taka nokkur verkefni úr námsefni Náttúra til framtíðar. Gott er að hafa handbækurnar Vistheimt á gróðursnauðu landi og Að lesa og lækna landið til hliðsjónar í undirbúningi fyrir leikinn.  

Verkefnið snýst um jarðveg, sem er ein af okkar dýrmætustu auðlindum, og tengingu jarðvegs við okkur sjálf, þá ábyrgð sem við berum, þau áhrif sem við höfum og þær aðgerðir sem við getum farið í til að gera heiminn sjálfbærari og sanngjarnari fyrir alla. „Að undirbúa jarðveginn“ er myndræn samlíking bæði fyrir betri jarðveg og að undirbúa nemendur fyrir það mikilvæga hlutverk að stuðla að sjálfbærri þróun samfélaga.

Framkvæmd lýst fyrir nemendum: 

 1. Undirbúningur: Skiptið ykkur í þrjá hópa og hver hópur fær mismunandi aðstæður til að fjalla um. Einn hópur mun fjalla um aðstæður á ákveðnu svæði á Íslandi, annar um aðstæður á ákveðnu svæði í Gana og þriðji hópurinn um aðstæður á ákveðnu svæði á Borneó. Þið fáið í hendur nánari skýringu á aðstæðum á hverjum stað og á mismunandi hlutverkum (sjá í viðauka neðst á síðunni). Í hverjum hópi eru sex mismunandi hlutverk. Ef það hentar ekki miðað við stærð bekkjar þá er einnig hægt að sleppa einhverju hlutverki, bæta við eða hafa t.d. tvo sem skiptast á að leika sama hlutverk. Það er mjög mikilvægt að þið séuð öll virkir þátttakendur í leiknum. Einnig er möguleiki á því að bæta við fjórða dæminu (t.d. aðstæður í kringum bómullarframleiðslu á Indlandi eða sojaframleiðsla í Brasilíu) eða hafa bara tvo hópa.
 1. Upplýsingartímabilið: Eftir að þið hafið skipt ykkur niður í þessa þrjá hópa og fengið ykkar hlutverk byrjar upplýsingatímabilið. Gangið út frá þeim forsendum sem ykkar persóna stendur fyrir og finnið svo fleiri heimildir sem styðja mál ykkar. Hér er leit að upplýsingum á netinu afar mikilvæg og mikilvægt er að leita að traustum og áreiðanlegum heimildum. Til að þið áttið ykkur betur á náttúrufari í hverju landi getið þið m.a. farið inn á Google-Earth og skoðað svæðin. Einnig gæti verið gagnlegt að taka viðtal við sérfræðing í landgræðslu og leita til viðkomandi héraðsfulltrúa Landgræðslunnar. Aðrir aðilar sem mætti leita til eru m.a. sérfræðingar hjá Landvernd, Umhverfisstofnun og Landbúnaðarháskólanum. Ef fjarlægðin er of mikil er hægt að biðja um viðtal í gegnum síma eða fjarfundarmiðil.
 1. Ígrundun og mat: Á meðan þið leitið að upplýsingum og einnig á meðan hlutverkaleikurinn stendur yfir hafið í huga eftirfarandi spurningar og skoðið þær með gagnrýninni hugsun:
  • Hverjir eru hagsmunir mismunandi aðila?
  • Hvaða hagsmunir eru með skammtímamarkmið og hvaða hagsmunir eru með langtímamarkmið?
  • Ríkir jafnrétti milli mismunandi aðila?
  • Í hvaða ástandi eru jarðvegur og gróður?
  • Hvaða áhrif geta hagsmunirnir hver um sig haft á jarðveg og gróður?
  • Hvaða umhverfisvandamál geta mismunandi nýtingarmöguleikar haft í för með sér?
  • Hvaða tenging er til staðar milli hvers dæmis og hnattrænna umhverfisvandamála eins og tapi á líffræðilega fjölbreytni og loftslagshamfara?
  • Hvað er líkt með þessum þremur dæmum?
  • Hvað er ólíkt með þessum þremur dæmum?
  • Hvaða þýðingu og áhrif hefur neysla okkar í samhengi við vandamálin í hverju dæmi?
  • Hvernig getur lausn á hagsmunaárekstrunum litið út, sem allir gætu sætt sig við og setti umhverfi og mannréttindi í forgrunn en væri samt efnahagslega ásættanlegt?
  • Væri þessi lausn raunhæf? Af hverju?
  • Hvaða tilfinningar koma upp hjá ykkur þegar þið hugsið um fólkið og náttúruna í þessum þremur dæmi?
  • Hvaða skilaboðum viljið þið koma á framfæri í gegnum þennan hlutverkaleik?
  • Hvaða ályktanir getið þið dregið á ykkar eigin hegðun í daglegu lífi vegna þessara dæma?
 1. Hlutverkaleikurinn og fullyrðingaaðferð. Hann snýst m.a. um það að gera sér grein fyrir hagsmunaárekstrum við landnýtingu á ákveðnu svæði og ræða þá. Verið búin að undirbúa öll gögn og tæki vel svo leikurinn geti átt sér stað án þess að það verði truflun. Kennarinn ykkar verður í hlutverki fundarstjórans og passar upp á að allir komist að og að engin dragi til sín alla athyglina.
 2. Allir þátttakendur á fundinum halda 2-3 mínútna ræðu þar sem þeir kynna sig og segja frá aðstæðum frá sínu sjónarhorni. Þið þurfið að rökstyðja ykkar mál og setja fram fullyrðingar (sjónarmið) sem eiga við ykkar hlutverk. Dæmi um fullyrðingu er að x (nýtt fyrirtæki) hafi jákvæð/neikvæð áhrif á y (þorpsbúa).
 3. Þegar einn hópur leikur sinn hlutverkaleik þá hlusta allir nemendur úr öðrum hópum á og fá það hlutverk að finna og skrifa niður aðalfullyrðingar hvers hlutverks.
 4. Hver þátttakandi spyr a.m.k. tvo aðra þátttakendur spurninga. Allir reyna að setja sig í spor þeirra sem eru með aðra skoðun og sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Er hægt að finna lausn sem flestir eru sáttir við? Reynið að koma að sameiginlega niðurstöðu.
 5. Lokaorð þátttakenda, 1-2 mínútur
 6. Fundarstjóri tekur við öllum tillögum að fullyrðingum og skrifar þær í einn dálk á töfluna. Svipaðar fullyrðingar eru sameinaðar.
 7. Þátttakendur fara úr sínum hlutverkum og nú fá allir í bekknum tækifæri til að mynda sína eigin skoðun og koma henni nafnlaust fram á límmiða sem eru settir í línurnar við hlið fullyrðinganna. Ef þú ert er mjög sammála fullyrðingunni skrifar þú ++, ef þú ert að mestu sammála skrifar þú +, ef þú ert með enga skoðun skrifar þú 0, ef þú ert ekki sammála skrifar þú – og ef þú er alls ekki sammála skrifar þú –.
 8. Þegar allir hafa sett sína límmiða á sinn stað þá stýrir fundarstjóri umræðum um þessar niðurstöður.

5. Sýningin: Sýningin er hugsuð fyrir alla nemendur og kennara í skólanum ásamt fjölskyldum þeirra en gæti einnig verið fyrir allt sveitarfélagið, sveitarstjórnarmenn og aðra skóla. Það ætti að auglýsa sýninguna vel, m.a. væri gott ef þið mynduð skrifa um hlutverkaleikinn í héraðsblöð og senda sveitarstjórn formlegt boðsbréf. Ákveðið í sameiningu hvað þið viljið sýna og hvaða markmið sýningin hefur og ykkur frjálst að ákveða sjálf uppsetningu og innihald á sýningunni. Hér á eftir fer tillaga sem þið getið nýtt ykkur. Aðaluppistaðan á sýningunni eru veggspjöld. Sem niðurstaða úr hlutverkaleiknum verður fullyrðingataflan sett upp á einu veggspjaldi. Til viðbótar munuð þið vinna „röksemdarkort“ á veggspjöldum. Á hverju veggspjaldi verður ákveðnu vandamáli lýst í fáeinum orðum í miðju spjaldsins. Núverandi ástandi verður lýst í hægra horninu uppi, óskastöðu eða framtíðarsýn verður lýst í hægra horninu niðri, í vinstra horninu niðri verður lýst stuttlega af hverju það á að færa ástandið frá núverandi stöðu yfir í óskastöðu og í vinstra horninu uppi verða sett fram skilaboð og lýst hvað þarf og á að gera. Skilaboðin geta verið til allra eða til ákveðinna einstaklinga eins og stjórnmálamanna eða annarra sem geta haft áhrif á þetta tiltekna vandamál.

Á meðan á sýningunni stendur er æskilegt að a.m.k. einn nemandi sé við hvert veggspjald til að svara spurningum gesta og ræða við þá.Einnig er hægt að hafa aðra viðburði á sýningunni auk veggspjaldanna. Þið gætuð verið með kaffihús þar sem tekið er tillit til þess að vörurnar séu framleiddar í heimabyggð, séu lífrænt ræktaðar, merktar sanngjörnum viðskiptaháttum (e. Fair trade) og/eða innihaldi ekki pálmaolíu. Til að ná enn betur til samfélagsins væri mikilvægt að fá fjölmiðla til að fjalla um sýninguna og verkefnin og að skrifa um þetta á vefsíðu sveitarfélagsins og í héraðsblöðum.

Jarðvegurinn og ég

Nokkur orð til kennara: Þennan hlutverkaleik er hægt að vinna innan veggja skólans, hlutverkaleikinn sjálfan í bekkjarstofu og sýninguna í sal. Nemendur þurfa að hafa aðgang að nokkrum tölvum með nettengingu, auk þess þarf miða og penna, tússtöflu, límmiða og veggspjöld. Að minnsta kosti einn kennari ætti að sinna þessu verkefni með nemendum en það væri mikill kostur ef fleiri kennarar tækju þátt, sérstaklega ef verkefnið er tekið fyrir í fleiri en einni námsgrein.

Það er mjög mikilvægt að nemendur fái kennslu um hvernig þeir geta fundið út hvaða miðlum þeir geta treyst og kennarar þurfa að vera til taks til skrafs og ráðagerða. Verkefnið býður upp á ýmsa möguleika í notkun eftir aðstæðum hverju sinni. Rammi þess og kennsluaðferðir eru gefnar upp en í framkvæmd er m.a. hægt að fara misdjúpt í málefnin og flækjustig þess, hægt er að fækka eða fjölga hlutverkum eða setja t.d. tvo nemendur í eitt hlutverk.

Verkefnið höfðar til mismunandi námsgreina, eins og náttúrufræði, íslensku, ensku og dönsku (m.a. við að lesa greinar og netsíður á viðkomandi tungumáli), samfélagsfræði og upplýsingatækni. Einnig væri hægt að vinna að þessu verkefni í list- og handverksgreinum, sérstaklega í tengslum við sýninguna.

Sýningin ætti að fara fram á eftirmiðdegi til þess að gefa vinnandi fólki tækifæri til þess að mæta. Hún þarf ekki endilega að fara fram strax eftir hlutverkaleikinn. Hlutverkaleikurinn og fullyrðingaaðferðin mættu fara fram t.d. að hausti en sýningin ekki fyrr en um vorið. Það gæti jafnvel verið kostur þar sem þá þyrfti að rifja upp námsefnið og dýpka þar með vonandi lærdóminn.

Þetta verkefni var þróað af Guðrúnu Schmidt í meistaraverkefni hennar. Það er einnig hluti af óútgefinni handbók eftir Guðrúnu Schmidt um menntun til sjálfbærni sem gefin verður út af Skólum á grænni grein, Landvernd og Menntamálastofnun.