Tími: 80 – 120 mín
Markmið:
- Að nemendur átta sig á mismunandi ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda
- Að nemendur skilja að loftslagshamfarir hafa mismikil áhrif á fólk, bæði eftir búsetu og margra annarra þátta og aðstæðna
- Að nemendur geti sett sér í spor annarra og efli hæfni til samkenndar
- Að nemendur finni saman á lausnaðamiðaðan hátt hvað þarf að gera til þess að stuðla að loftslagsréttlæti
Framkvæmd:
Undirbúningur: Nemendur lesa sér til um loftslagsréttlæti hér. Einnig eru skoðuð gögn á https://ourworldindata.org/ um sögulega, uppsafnaða losun gróðurhúsalofttegunda mismunandi landa og um núverandi losun á íbúa í hverju landi.
Hlutverkaleikurinn: Í leiknum eru 6 hlutverk. Nemendum er skipt niður í þessa hópa, nokkrir nemendur eru í hverjum hópi (hægt er að fækka hópum ef það hentar betur nemendafjölda eða öðrum aðstæðum):
- Ungmenni úr hópi frumbyggja í Brasílíu sem berjast gegn eyðingu regnskógarins í landinu
- Ungmenni úr hópi Pacific climate worriers sem berjast fyrir réttlátum loftslagsaðgerðum
- Ungmenni frá Mósambík, Malaví og Madagaskar sem þurfa að neyðaraðstoð að halda eftir að hitabeltislægðin Ana olli gríðarlegu tjóni á heimili þeirrar og ræktarlandi
- Ungmenni sem eru fremstir í röð hjá FridaysForFuture, hafa mikinn áhuga á loftslagsmálum, góðan skilning á loftslagsréttlæti og eru mjög virkir í baráttu samtakanna
- Ungmenni í íslenskum grunnskóla sem hafa hingað til ekki hugsað mikið um loftslagsréttlæti en eru opin fyrir að læra um það og velta málunum fyrir sér
- Ungmenni í íslenskum skóla sem hafa lítinn áhuga á loftslagsmálum og eru ekki tilbúnir til þess að breyta lífsstílnum sínum mikið
Hóparnir ræða stuttlega saman hvar þeir standa í umræðunni um loftslagsréttlæti.
Síðan byrjar hlutverkaleikurinn með fiskibúrs-aðferðinni.
8 stólum raðað í hring í miðju stofuna. Hver hópur velur sér einn talsmann sem tekur sæti í þessum hring. Fundarstjórinn (kennarinn eða eftir aðstæðum einn nemandi) tekur sæti á einum stól og einn stóll er auður. Hinir nemendur raða sínum stólum í hring í kringum 8 stóla hringinn. Ungmennin eru kominn saman til þess að ræða um loftslagsréttlæti. Byrjað er á því að talsmenn hvers hóps koma í stuttu máli sínum sjónarmiðum á framfæri um stöðu sína og skoðun varðandi loftslagsréttlæti. Síðan byrja umræður sem fundarstjórinn stjórnar með það að markmiði að koma sér í lokin saman um sameiginlegar áherslur í loftslagsaðgerðum sem geta stuðlað að auknu loftslagsréttlæti. Vilji nemandi sem situr í ytra hringnum leggja eitthvað til málsins getur hann sest á auða stólinn í innra hringum og sagt frá sinni skoðun. Þegar hann er búinn með mál sitt fer hann til baka á stólinn sinn í ytri hringnum og aðrir geta komið inn í umræðuna með því að setjast á auða stólinn. Þannig geta orðið líflegar umræður þar sem allir hafa möguleikar á að taka til máls á skipulagðan hátt.
Heimild um fiskibúrs-aðferðina er héðan.
Verkefnið er hluti af óútgefinni handbók eftir Guðrúnu Schmidt um menntun til sjálfbærni sem gefin verður út af Skólum á grænni grein, Landvernd, Menntamálastofnun og Rannís.