Krossfiskurinn er núvitundaræfing fyrir fólk á öllum aldri. Við rákumst fyrst á krossfiskinn í heilsuleikskólanum Króki í Grindavík, en þar er mikil hefð fyrir lýðheilsu og núvitundarvinnu með börnum.
Skólinn er einn af tvö hundruð Skólum á grænni grein en á Íslandi vinna skólar á öllum skólastigum að innleiðingu menntunar til sjálfbærni. Lýðheilsa er eitt af þeim þemum sem tekin eru fyrir í verkefninu.
Lýðheilsa tekur til fjölmargra þátta sem allir miða að því að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu fólks með almenna vellíðan og langlífi að markmiði.
Krossfiskurinn
Komdu þér fyrir, annað hvort úti eða inni. Lokaðu augunum. Þegar bjallan ómar þá skaltu fylgja fingrum annarrar handar með vísifingri hinnar handarinnar. Í hvert skipti sem þú ferð út með fingri, andarðu inn, og þegar þú ferð inn með fingri, andar þú út. Beindu athyglinni að andardrættinum, snertingu fingranna. Þú ert, hér og nú. Þegar bjallan ómar aftur er æfingunni lokið.
Landvernd fer með umsjón verkefnisins á Íslandi. Lesið meira um verkefnið hér http://graenfaninn.is
Tengt efni
Grænfáninn – Hvað táknar myndin á fánanum?
Hvað tákna myndirnar á grænfánanum? Græni liturinn minnir á græna gróðurinn sem er forsenda alls lífs á jörðinni.
Lýðheilsa
Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið?
Þemu Skóla á grænni grein
Fyrir hvert grænfánatímabil velja skólar sér eitt eða fleiri þemu til að vinna að. Öll þemu byggjast á menntun til sjálfbærni og eru tengd grunnþáttum menntunar. Mikilvægt er að allir í skólanum þekki til þemans.