Lýðheilsa

Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið? Lýðheilsa er eitt af þemum Skóla á grænni grein, landvernd.is
Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið?

Hvað er lýðheilsa?

Stutt svar:

Heilsuvernd og forvarnir fyrir alla.

Lengra svar:

Lýðheilsa tekur til fjölmargra þátta sem allir miða að því að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu fólks með almenna vellíðan og langlífi að markmiði. Innan lýðheilsu rúmast þættir eins og hreyfing, næring, geðrækt, áfengis- og vímuvarnir, tóbaksvarnir og tannvernd. Í lýðheilsu felst því bæði heilsuvernd, þar sem markmiðið er að viðhalda sem bestri heilsu, og forvarnir til að koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma eða aðra áunna þætti sem fela í sér verri heilsu og minni lífsgæði (Velferðarráðuneytið, e.d.).

Lýðheilsa snýst um að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu

 

Hvernig er best að stuðla að lýðheilsu?

Öll viljum við lifa sem lengst og líða sem best ævina á enda. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á eigin heilsu og líðan og því er mikilvægt að tileinka sér lífsstíl snemma á lífsleiðinni sem leiðir til andlegrar og líkamlegrar vellíðunar og minnkar líkur á hvers kyns líkamlegum og andlegum kvillum.

Flestum okkur eru vel kunnug þau atriði sem nauðsynleg eru til að bæta og viðhalda góðri heilsu. Þetta eru atriði eins og að stunda reglulega og fjölbreytta hreyfingu, borða holla og fjölbreytta fæðu, eiga í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við fólk, fá nægan svefn og hvíld, stunda almennt hreinlæti og takmarka (eða sleppa alveg) neyslu ávana- bindandi efna, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir það hefur undanfarin ár orðið aukning í lífsstílstengdum sjúkdómum s.s. offitu og stoðkerfisvandamálum. Þetta á ekki síst við á Vesturlöndum þar sem lífskjörin eru að jafnaði með þeim bestu sem gerast í heiminum.

Regluleg hreyfing Hollur matur Samskipti við fólk Nægur svefn Hreinlæti

Áskorunin í átt að aukinni heilsu og vellíðan felst því frekar í framkvæmdinni og þurfa skólar að finna leiðir sem stuðla að því að allir einstaklingar skólans, bæði nemendur og starfsfólk, nái að lifa sem heilsusamlegustu lífi. Með því að byrja snemma að kynna nem- endum fyrir þeim jákvæðu þáttum sem heilbrigður lífsstíll hefur í för með sér aukast líkur á að þeim lífsstíl sé viðhaldið.

Hvernig tengjast sjálfbærni og lýðheilsa?

Sjálfbærni og lýðheilsa eru nátengd fyrirbæri en líkt og sjálfbærni tekur lýðheilsa til félags-, umhverfis- og efnahagsþátta sem tengjast velferð einstaklinga í samfélaginu. Þar sem sjálfbærni snýst um velferð og vellíðan allra Jarðarbúa má sjá að án virkrar lýðheilsu, þ.e. heilsuverndar og forvarna, er tæplega hægt að ná fram sjálfbærni.

Flest það sem er gott fyrir okkur er gott fyrir umhverfið

Því má bæta við að flest það sem er gott fyrir okkur sjálf er líka gott fyrir umhverfið. Hreyfing er góð fyrir líkamann en það er líka gott fyrir umhverfið ef við komum okkur gangandi og hjólandi á milli staða í stað þess að nota farartæki sem brenna jarðefnaelds- neyti. Að borða mat sem framleiddur er í nánasta umhverfi án eiturefna og ofgnóttar tilbúins áburðar er hollt fyrir okkur sjálf og gott fyrir umhverfið. Að minnka kjötneyslu er bæði gott fyrir heilsu okkar og umhverfið. Andleg vellíðan er grundvallaratriði góðrar heilsu okkar sjálfra en er einnig mikilvæg fyrir það umhverfi og samfélag sem við búum í, enda minni líkur á að við vinnum umhverfi og samfélagi spjöll ef við erum í góðu andlegu jafnvægi.

Þemað fellur sérstaklega vel að grunnþættinum heilbrigði og velferð auk sjálfbærni

Hvað getum við gert?

Leikskólar og yngri bekkir grunnskóla:

 • Gera samgöngukönnun þar sem samgöngumáti nemenda og starfsmanna er skráður í viku (viðmið), í kjölfarið er gert átak til að auka hlut vistvænna samgangna og staðan síðan tekin aftur að átakinu loknu.
 • Hafa fjölbreytta hreyfingu og útivist a.m.k. einu sinni á dag.
 • Hafa kennslustundir úti (t.d. í útikennslustofu) í ólíkum fögum og jafnvel í stundatöflu.
 • Ræða um andlega líðan nemenda við nemendur.
 • Hafa samskiptaæfingar/vinaæfingar sem stuðla að bættum samskiptum nemenda innan bekkja eða deilda.
 • Bjóða upp á mat í skólanum samkvæmt ráðleggingum frá Embætti landlæknis.
 • Hvetja til vatnsdrykkju, t.d. þannig að hver nemandi hafi sinn brúsa sem hann getur fyllt á eftir þörfum.
 • Bjóða upp á jóga, hugleiðslu og núvitundaræfingar.

Eldri bekkir grunnskóla og framhaldsskólar

 • Hafa samskiptaæfingar og hópeflisæfingar.
 • Bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu og útivist sem hluta af hefðbundnu skólastarfi jafnvel þvert á fög.
 • Hvetja til samgangna í og úr skóla sem fela í sér hreyfingu s.s. ganga og hjóla í skólann, jafnvel með umbunakerfi.
 • Huga að andlegri líðan.
 • Bjóða upp á fjallgöngur eða aðra útivist á skólatíma.
 • Bera saman hefðbundna ræktun og ræktun án eiturefna og tilbúins áburðar og hvaða áhrif mismunandi ræktunaraðferðir hafa á umhverfi og heilsu.
 • Gera rannsókn á þungmálmum í matvælum og áhrif þeirra á umhverfi og heilsu.

REYNSLUSÖGUR ÚR SKÓLUM:

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla geta nemendur fengið einingar fyrir að ganga eða hjóla í skólann og fara í fjallgöngur

Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur í nokkur ár boðið upp á áfanga sem tengjast lýðheilsu. Upphaflega var boðið upp á áfangana þegar þemað lýðheilsa var tekið fyrir innan Skóla á grænni grein. Sökum þess hve vel tókst til var ákveðið að festa þá í sessi og eru þeir nú í boði á hverri önn. Einn áfanginn heitir Gengið/hjólað í skólann en þar fá nemendur einingar fyrir að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Í öðrum áfanga fá nemendur einingar fyrir að fara í fjórar fjallgöngur í nágrenni höfuðborgarinnar á einni önn. Áfangarnir hafa mælst einstaklega vel fyrir hjá nemendum en þeir hvetja til sjálfbærari samgangna sem hluti af heilsueflandi lífsstíl. Í þessum dæmum tengist þemað lýðheilsa þemunum átthagar og landslag og loftslagsbreytingar og samgöngur. Áfangarnir tengjast einnig grunnþættinum heilbrigði og velferð.

Í Grindavík stunda leik- og grunnskólabörn núvitund, jóga og hugleiðslu

Heilsuleikskólinn Krókur og Grunnskóli Grindavíkur tóku þátt í samstarfsverkefni um að innleiða núvitund í leikskólann og yngstu bekki grunnskólans. Markmiðið var að auka tilfinningalegt jafnvægi og jákvæða félagslega hegðun auk þess að stuðla að vellíðan nemenda og kennara. Til þess var notuð hugleiðsla, jóga og lífsleikni sem tengd var útinámi sem báðir skólarnir hafa verið að þróa síðustu ár. Nemendur gerðu núvitundar- æfingu einu sinni á dag og stunduðu jóga til að róa hugann, minnka streitu og auka einbeitingu og vellíðan. Börnunum var gefið tækifæri á að skoða, viðurkenna og tjá tilfinningar sínar sem leið til sjálfsstjórnar. Samhygð var jafnframt innleidd með mark- vissum hætti til að bæta skólabrag. Verkefnið gafst afar vel, en mat á verkefninu gaf til kynna að yfirgnæfandi meirihluti nemenda og kennara var ánægður með það. Afrakstur verkefnisins var meðal annars sá að börnin urðu rólegri, þau gátu gripið til aðferða sem þau höfðu lært í skólastarfinu miðju, s.s. að staldra við og fara með möntru. Tilfinningalæsi jókst og þau lærðu að njóta betur þess sem dagurinn hafði upp á að bjóða. Verkefnið má tengja þemanu átthagar og landslag þar sem um samstarfsverkefni leik- og grunnskóla er að ræða. Verkefnið tengist einnig grunnþættinum heilbrigði og velferð.

Tilvalið er að samtvinna Skóla á grænni grein og Heilsueflandi skóla á vegum Embættis landlæknis

Margir skólar eru þátttakendur í Heilsueflandi skóla sem er á vegum Embættis land- læknis. Markmið þess er að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild. Þessi nálgun vinnur mjög vel með verkefninu Skólar á grænni grein og er tilvalið að vinna að því samhliða. Dæmi eru um að skólar sem eru þátttakendur í þessu tvennu séu með sameiginlegt umhverfis- og heilsueflingarteymi sem heldur utan um báða verkþætti til hagræðingar. Við mælum með því að skólar sem sinna þessu tvennu hugi að þessum samhljómi og stuðli þannig að enn betra skólastarfi.

Verkefnavefir

Heilsueflandi leikskóli 

Heilsueflandi grunnskóli 

Heilsueflandi framhaldsskóli

Blær – Vináttu verkefni Barnaheilla