Vissir þú að það er umhverfisvænna að lesa bók en að streyma þætti? Hér eru nokkur góð ráð sem við getum fylgt á Degi jarðar og helst alla daga.

Dagur jarðar, 22. apríl (Earth Day) hefur verið haldinn árlega síðan 1970 og þremur dögum síðar, þann 25. apríl er hinn íslenski Dagur umhverfisins

Í fullkomnum heimi væri Dagur jarðar hvern dag

Í fullkomnum heimi væri dagur jarðar hvern dag því jörðin þarfnast þess sárlega að hugsað sé betur um hana. COVID-19 hefur sýnt okkur í verki hve viðkvæmt mannkynið er fyrir farsóttum og hvaða afleiðingar það hefur þegar þrengt er að náttúrunni. Það er því öllum í hag að hugsa vel um jörðina okkar, enda eigum við ekkert annað heimili.  

Allir geta gert eitthvað 

Á heimasíðu Earth Day eru margar hugmyndir að aðgerðum og upplýsingum. Þar er einnig hægt að skrá sig til leiks og setja eigin hugmyndir að aðgerðum inn á heimskort. Dr. Jane Goodall sagði „Það getur enginn gert allt, en allir geta gert eitthvað“. Því skulum við taka höndum saman dagana 22. -25. apríl og nýta þessa daga til góðra verka, bæði í nágrenni okkar og hjá okkur sjálfum.  

En hvað get ég gert?  

Hér að neðan eru hugmyndir um einfalda hluti sem við getum gert fyrir  jörðina. Við getum valið eitt eða mörg atriði og athugið að listinn er langt frá því að vera tæmandi. Skorum á vini og vandamenn að taka þátt, tökum myndir og deilum á samfélagsmiðlum því sem við gerum fyrir jörðina. Við getum notað myllumerkið #dagarjardar. Þannig sýnum við heiminum og hvert öðru hve miklu við getum breytt þegar við öll gerum eitthvað! 

Hugmyndir að okkar eigin loftslagsaðgerðum: 

Labbaðu eða hjólaðu ef þú hefur tök á í stað þess að taka bílinn. Ókeypis líkamsrækt líka. 

Kauptu ekkert nema brýnar nauðsynjavörur. Eru snakk eða handryksugur nauðsynjavörur? Fyrsta skrefið er að endurhugsa neysluna, afþakka og einfalda lífið. Kíktu á stuttþáttaröð Landverndar um neyslu. Hvernig getum við endurhugsað framtíðina? 

Prófaðu grænkerafæði. Það er geggjað gott og hollt, bæði fyrir þig og náttúruna. Hægt er að prófa að fækka kjötdögum eða að skipta alfarið um matarræði. Prófaðu grænu súpuna!

Klára úr frystinum og skápunum áður en nýtt er keypt. Matarsóun er loftslagsmál. Smelltu á myndina og kíktu á myndböndin Góð ráð gegn matarsóun.

Lestu bók í stað þess að glápa á streymi. Netið er víst líka með kolefnisfótspor. Streymisveitur og gagnaver þurfa mikla raforku og þá sérstaklega til kælingar. Þessi orka er mjög oft framleidd með bruna jarðefniseldsneytis.  

Plokka rusl, sérstaklega plast. Jú, plast er líka loftslagsmál. Það er um að gera að fylgjast með og skrá afrek sín hjá hópnum Plokk á Íslandi

Núllstilltu lífstílinn og minnkaðu neyslu
Rólegur lífsstíll er oft loftslagsvænn. Þú getur prófað núvitund, garðyrkju, lært að prjóna eða að elda eitthvað nýtt. Prófaðu Krossfiskinn!

Gangi þér vel og góða skemmtun!