Varðliðar umhverfisins 2012

Boðað er til árlegrar verkefnasamkeppni um umhverfismál á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Keppnin kallast Varðliðar umhverfisins og það eru umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur sem standa að henni.

Boðað er til árlegrar verkefnasamkeppni um umhverfismál á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Keppnin kallast Varðliðar umhverfisins og það eru umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur sem standa að henni. Hægt er að nálgast upplýsingar um keppnina á heimasíðu umhverfisráðuneytisins, www.umhverfisraduneyti.is/vardlidar.

Skilafrestur
Skilafrestur verkefna er til 29. mars 2012 og þau skal senda umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfisráðherra á Degi umhverfisins 25. apríl 2012.

Markmið
Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.
Verkefnin
Verkefnin skulu vera unnin af nemendum og mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk. Í stuttu máli er frjálst að skila inn verkefnum í hvaða formi sem er svo lengi sem þau eru sannarlega unnin af nemendunum sjálfum og umfjöllunarefni þeirra eru umhverfismál í víðum skilningi þess orðs. Þannig geta þátttakendur í verkefnum sínum fjallað um umhverfismál í sínu nánasta umhverfi, á landsvísu eða jafnvel heimsvísu ef svo ber undir. Sjálft umfjöllunarefnið getur t.d. verið loftslagsbreytingar, röskun eða verndun búsvæða, jarðvegseyðing, endurheimt
vistkerfa, verndun náttúruauðlinda, endurvinnsla og endurnýting úrgangs svo fátt sé nefnt.Samkeppnin er kjörið tækifæri fyrir nemendur og kennara að koma á framfæri verkefnum sem þeir fyrrnefndu hafa þegar unnið í skólanum því ekki er skilyrði að verkefnin séu sérstaklega unnin fyrir samkeppnina.

Tengiliðir
Nánari upplýsingar veita:
• Bergþóra Njála Guðmundsdóttir – bergthora.njala@umhverfisraduneyti.is
• Helena óladóttir – helena.oladottir@reykjavik.is
• Orri Páll Jóhannsson – orripall@landvernd.is

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd