Þeir sem hafa áhuga geta tekið þátt í herferðinni með því að skipuleggja strandhreinsun á svæði að eigin vali, t.d. á strönd eða fjöru í nærsamfélaginu þar sem hreinsunar er þörf. Ítarlegri upplýsingar um hvernig velja skuli svæði má finna í gátlista fyrir þá sem standa að strandhreinsun. Þátttakendur geta verið samtök, félög, fyrirtæki, sveitarfélög, nemendur, fjölskyldur, vinahópar og einstaklingar. Það er einfalt að taka þátt!

Skipuleggjendur

þurfa að huga að eftirfarandi atriðum:

 • Hressingu meðan á hreinsun stendur
 • Samgöngur til og frá strönd (sé þess þörf)
 • Leiðbeiningar til þátttakenda meðan á viðburði stendur
 • Nauðsynlegan útbúnað (sé þess þörf)
 • Skráningar sjálfboðaliða á viðburð
 • Að koma rusli sem safnast í réttan farveg
 • Fá leyfi fyrir hreinsun hjá landeigendum eða sveitarfélagi sem ströndin tilheyrir
 • Velja tíma fyrir hreinsun utan fuglavarpstíma
 • Upplýsa Landvernd um hvar hreinsunin fer fram og hverjir taka þátt
 • Hafa í huga aðgengi að hreinsistað og að auðvelt sé að ganga þar um
 • Stýra fjölda þátttakenda, en mælt er með að fjöldinn fari ekki yfir 50 manns.
 • Samskipti við Landvernd og þá sjálfboðaliða sem taka þátt
 • Ákveða á hvaða hátt rusl sem týnt er verði flokkað. Hægt er að velja um tvær leiðir.
 • Koma upplýsingum um átakið og ruslið sem safnast til verkefnisstjóra.

Sjálfboðaliðar

Þátttakendur bera ábyrgð á eigin öryggi og undirbúningi fyrir viðburðinn og þurfa að fara að fyrirmælum skipuleggjenda.

Ekki er mælt með því að börn undir 12 ára aldri taki þátt í stórum strandhreinsunum. Þess í stað er hægt að skipuleggja hreinsun á landi sem er barnvænni.

 

 

 

 

Gátlistar

Kanna þarf hver á landið þar sem hreinsunin fer fram og fá leyfi viðkomandi til að halda viðburðinn.

Mikilvægt er að kynna sér staðinn vel áður en viðburður er haldinn til að auðvelda skipulagningu.

Ganga skal úr skugga um að staðurinn sé öruggur og aðgengi að honum sé auðvelt.

Fyrir viðburðinn er gott að kanna með hvaða hætti er hægt að komast á staðinn (s.s. almenningssamgöngur, hjólastígar eða aðgengi fyrir bíla).

Athugið hvort að einhver aðstaða sé á staðnum, s.s. salernis- eða nestisaðstaða.

Hreinsunin þarf að vera í sátt og samlyndi við náttúruna og lífríkið. Gangið úr skugga um að hreinsun fari ekki fram á varptíma fugla, en varptíminn stendur hæst á vorin.

Ef um friðland er að ræða er mikilvægt að tilkynna hreinsuna til umsjónaraðila svæðisins.

Gæta þarf þess að veita þátttakendum upplýsingar um

 • Tímasetningar
 • Staðsetningu
 • Staðsetningu flokkunargáma (ef hreinsun er smá í sniðum má benda fólki á grenndargáma þar sem þeir eru fyrir hendi)

Hlý föt og góða skó (gönguskó/stígvél)
Vinnuhanska/vettlinga
Fjölnota taupoka/fötur til að safna í. T.d. IKEA poka, sterka fjölnota poka, fötur með sterkum höldum s.s. garðaúrgangsfötur, steypufötur o.fl.
Vatn í brúsa
Nesti yfir daginn

Mælt er með því að fólk flokki jafnóðum og setji plast í sér poka. Skipuleggjendur þurfa að ákveða hvort notuð sé leið 1 eða leið 2. Sjá að þátttakendur eiga að fylgja almennum flokkunarreglum, eða skrá það sem finnst á þar til gert flokkunarblað.

Hvatning er mjög mikilvæg, bæði fyrir viðburðinn og meðan á honum stendur. Glaður og áhugasamur þátttakandi afkastar meiru.

Gott er að hafa sjálfboðaliðahópana ekki of stóra og því mælt með að fólk skrái sig fyrirfram svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir verði hópurinn mjög stór.

Gera þarf lögreglu viðvart ef fleiri en 100 börn eða 200 fullorðnir taka þátt. Nánari upplýsingar um þetta má nálgast hjá lögreglu.

Vandaðar og skýrar leiðbeiningar auka líkur á vel heppnuðum viðburði:

Flokkið meðan á hreinsun stendur
Það er sniðugt að flokka ruslið jafnóðum og það er tínt upp og merkja pokana mismunandi flokkum eða hafa þá í mismunandi litum eftir flokkum.

Vinnið í hópum
Gott er að vinna saman í hópum og mikilvægt er að ofreyna sig ekki við að ná hlutum sem eru pikkfastir í jörðu. 

Flokkið rusl í hópum
Að flokka rusl í hópum er góð leið til að kenna, t.d. börnum, flokkun og hvetur til umræðna og jafnvel nýrra lausna í úrgangsmálum. Ef notuð eru flokkunarblöð er gott að skipta þátttakendum í tveggja til þriggja manna hópa því það auðveldar skráningu á því rusli sem safnast. Einn í hópnum skráir það sem safnast (t.d. „einn málmur“ eða „þrír plasthlutir) á meðan hinir tína. Hægt er að skiptast á að sjá um skráningu.

Takið ykkur pásu
Svangur sjálfboðaliði er þreyttur sjálfboðaliði. Munið að gefa öllum pásu til að fá sér í svanginn til að auka afköstin!

Allra veðra er von!
Veðrið vinnur ekki alltaf með okkur, en það þarf ekki að koma í veg fyrir viðburðinn! Munið að undirbúa ykkur með tilliti til veðurs. Takið með ykkur viðeigandi klæðnað, skó og hlífðarfatnað.

Munið að skemmta ykkur!
Sniðugt er að skipuleggja einhvers konar uppbrot meðan á hreinsun stendur, t.d. í kaffipásu. Þetta geta verið leikir sem fela í sér hreyfingu til að halda á sér hita sé kalt í veðri. Leikir og skemmtun hvers konar hafa jákvæð áhrif á afköstin.

Mikilvægt er að koma ruslinu til endurvinnslu.

Gera þarf ráðstafanir fyrir það rusl sem safnast í strandhreinsuninni.

Ef hreinsunin er smá í sniðum gæti nægt að skila ruslinu í næsta grenndargám að hreinsun lokinni

Kanna má hvaða endurvinnslustöð er í nágrenninu.

Þegar viðburður er skipulagður er gott að gera grein fyrir næstu endurvinnslustöð eða öðrum stað þar sem rusli verður safnað saman.

Ef nauðsynlegt er aðstoðar verkefnisstjóri við að finna bestu leiðina til að koma ruslinu í réttan farveg. Hreinsihópurinn ber ábyrgð á flutningi þess sem safnast á endurvinnslustöðvarnar.

Ef hreinsun er mjög stór í sniðum gæti þurft að fá gám á svæðið. Það getur verið kostnaðarsamt og því gæti þurft að leita styrkja hjá fyrirtækjum eða sveitarfélögum í slíkum tilvikum.