Landhnignun og eyðimerkurmyndun er einhver alvarlegasti umhverfisvandi heimsins. Þessi vandi fer vaxandi, bæði vegna þess land og gróður er ekki nýttur með sjálfbærum hætti, en einnig vegna loftslagsbreytinga. Til að efla samstöðuna í baráttunni gegn þessari vá hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað 17. júní ár hvert verndun jarðvegs.
Í tilkynningu sem Kofi Anna aðalritari Sameinuðu þjóðanna sendir frá sér í tilefni dagsins segir m.a. land sem hæft er til ræktunar á Jörðinni fari minnkandi og að það ógni matvælaöryggi og valdi mannlegum og efnahagslegum hörmungum. Jarðvegseyðing er bæði ástæða og afleiðing fátæktar víða í heiminum, en einnig meðal ríkra þjóða veldur ósjálfbær landnýting eyðingu gróðurs og jarðvegs.
Í upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum segir að hvergi í heiminum séu afleiðingar jarðvegseyðingar jafn alvarlegar og í sunnanverðri Afríku. Á því svæði einu er reiknað með að flóttamönnum vegna jarðvegseyðingar fjölgi í um 25 milljónir á næstu 20 árum ef ekki verður breyting til batnaðar. En vandinn er víðtækur. Í Kína er áætlað að um 3.400 ferkílómetrar gróðurlendis umbreytist í eyðimörk á hverju ári. Um 70% af gróðurlendi Mexíkó er ógnað af gróðureyðingu og þetta er talin ein helsta ástæða þess að yfir 700.000 Mexíkóbúar yfirgefa heimili sín á hverju ári í leita að betri lífsskilyrðum.
Árangur en ástandið ekki gott
Mikill árangur hefur náðst í gróður- og jarðvegsvernd á Íslandi frá því að markvist var byrjað að vinna að þeim málum í byrjun tuttugustu aldar. Á tilteknum svæðum hefur þó enn ekki tekist að koma á viðunandi aðgerðum til varnar jarðvegseyðingu og úr því þarf að bæta.
Landvernd telur að sjálfbær landnýting sé hagkvæmasta leiðin til að koma í veg fyrir eða stöðva gróður- og jarðvegseyðingu. Það er mikilvægt að sett séu skýr markmið um sjálfbæra landnýtingu og að lög og reglugerðir verði samræmd í þessum tilgangi og felld að þessum markmiðum.
Ástand gróðurs á hálendinu er enn víða bágborið vegna meiri beitar en gróðurinn þolir. Fyrirhugaðar virkjanir munu eyða gróðri á takmörkuðum svæðum en kunna jafnframt að skapa hættu á áfoki á stærri svæðum. Þá veldur utanvegaakstur eyðileggingu á gróðri og spjöllum á landslagi. Í byggð er gróðureyðing einnig víða verulegt vandamál, sérstaklega af völdum hrossabeitar.
Landvernd skorar á alla sem hlut eiga að máli að stuðla að sjálfbær nýting lands og gróðurs og hefji ekki framkvæmdir sem hætta er á að valdi víðtækri jarðvegseyðingu.
Ísland miðli þekkingu með þróunarsamvinnu
Aðild Íslands að Samningnum um baráttu gegn myndum eyðimerkur skyldar íslensk stjórnvöld til að sinna alþjóðlegu vísindasamstarfi og til að miðla þekkingu og fjármagni til þróunarlanda. Þekking Íslendinga á þessum málum er mikil og því telur Landvernd eðlilegt að þetta viðfangsefni fái hlutdeild í þróunarsamvinnu landsins.
Varúð vegna framandi tegunda
Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og Náttúrverndarlögin kveðið á um að sýnd sé varúð við notkun framandi (erlendra) tegunda og við einsleita ræktun sem getur dregið úr fjölbreytni í gróðurfari. Þetta þarf að hafa í huga við uppgræðslu og skógrækt hér á landi.