Umframeftirspurn er eftir náttúru, ekki síður en orku.
Engin trygging er fyrir því að aukin orkuöflun skili hraðari orkuskiptum eða bættum hag sveita. Taka þarf umræðu um eignarhald á landi eftir því sem sókn innlendra og erlendra aðila eykst, að mati Höllu Hrundar Logadóttur, þingmanns og fyrrverandi orkumálastjóra. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfisráðherra telur enga ástæðu til að nein ný vindorkuver fari í nýtingu fyrr en stefna í málaflokknum hefur verið mótuð og samþykkt, en gott sé að fá umræðu á þinginu um kost eins og Garpsdal, sem hafi marga jákvæðar hliðar miðað við ýmsa aðra vindorkukosti. Mikil andstaða er við vindorkugarð í Garpsdal sem ráðherra hefur lagt til að fari í nýtingarflokk.
Á annað hundrað manns mættu á fund umhverfissamtakanna Sólar til framtíðar á Hvanneyri í gær.
Lesin var upp ályktun í fundarlok, þar sem fimm áætluðum vindorkuverum á vesturlandi var harðlega mótmælt. Fundur um vindorkuvinnslu á vesturlandi var fróðlegur og áhugaverður og þar kom fram mikill einhugur heimafólks gegn allri vindorkuvinnslu sem nú er á teikniborðinu í landshlutanum. Thelma Harðardóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð benti á að heimafólk og sveitarstjórnir eiga erfitt um vik með að verja umhverfi sitt gegn áformum sterkra stórfyrirtækja sem geta sett nánast hvað sem er á teikniborðið og haldið fólki í sveitum landsins uppteknum við umsagnaskrif og andóf mánuðum og árum saman í frítíma sínum.


